Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 148. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 413  —  148. mál.




Svar


atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar
um sauðfjárveikivarnagirðingar.


     1.      Hvernig hefur á undanförnum fimm árum þróast kostnaður við viðhald sauðfjárveikivarnagirðinga, annars vegar vinnulaun og hins vegar efniskostnaður, sundurliðað eftir einstökum varnalínum?

    Upplýsingar um þróun kostnaðar vegna varnagirðinganna frá og með árinu 2007 er að finna í eftirfarandi töflu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um skiptingu kostnaðar í vinnulaun og efniskostnað vegna þess að iðulega er um að ræða verktakasamninga um viðhaldið í heild.


Kostnaður við viðhald varnagirðinga 2007–2012.

Viðfang Rauntölur 2007 Rauntölur 2008 Rauntölur 2009 Rauntölur 2010 Rauntölur 2011 Áætlun
2012
Bláskógalína 151.934
Hvalfjarðarlína 597.174 1.445.683 746.712 695.738 918.295 500.000
Andakílslína 214.450 144.271
Hvítársíðulína 1.415.657 2.544.328
Tvídægrulína 4.055.111 3.031.414 4.209.106 3.282.251 3.424.877 2.400.000
Dalalína 45.816
Snæfellsneslína 2.886.411 1.311.813 1.180.055 1.977.779 1.063.155 1.000.000
Hvammsfjarðarlína 818.679 5.303.414 3.346.792 1.358.144 2.028.693 1.100.000
Gilsfjarðarlína 1.952.887 2.973.990 1.241.980 907.112 1.374.274 900.000
Kollafjarðarlína 683.851 798.267 579.522 621.868 332.112 300.000
Miðfjarðarlína 3.643.480 5.798.110 4.503.487 1.958.625 3.200.805 1.600.000
Kjalarlína 4.331.995 4.655.086 3.536.149 3.535.084 3.514.000 3.500.000
Reyðarfjarðarlína 39.093 284.035 291.013 400.000
Eldhraunslína 266.325 404.600
Hólmsárlína 173.951
Mýrdalssandslína 519.904 867.079 325.313
Sólheimasandslína 203.592 234.962
Kýlingalína 315.721 516.916 1.025.484 793.830 480.000 300.000
Varnagirðingar almennt 90.927 139.104 13.639 1.888 0
Samtals 22.361.142 30.498.888 20.694.600 15.144.070 16.629.112 12.000.000
Núvirði m.v. september 2012 (vísit. neysluv.) 32.293.142 38.628.703 23.654.354 16.689.383 17.336.272

     2.      Hver er aldur einstakra sauðfjárveikivarnagirðinga og hverjar þeirra þarfnast endurnýjunar?
    Flestar varnagirðinganna eiga uppruna sinn í þeim aðgerðum sem gripið var til í baráttunni við mæðiveikina sem barst hingað til lands árið 1933, þ.e. flestar girðinganna eru frá því um og eftir 1940. Á þeim sex til átta áratugum sem liðnir eru frá því að þessar girðingar voru settar upp hafa einstakir hlutar þeirra verið lagfærðir og þá eftir þeirri forgangsröðun sem beitt var hverju sinni um viðhaldið. Fjármunir þeir sem til ráðstöfunar hafa verið hafa þó jafnaðarlega verið takmarkaðir miðað við endurnýjunarþörfina hverju sinni. Það eru því kaflar í öllum varnagirðingunum sem að dómi Matvælastofnunar þarfnast endurnýjunar.

     3.      Hversu margt sauðfé hefur farið yfir varnalínur sl. fimm ár, sundurliðað eftir einstökum varnalínum og árum?
    
Matvælastofnun heldur skráningu yfir fjölda línubrjóta en svo er það fé kallað sem treður sér í gegnum sauðfjárveikivarnagirðingarnar. Stofnunin hefur aðeins aðgengilegar tölur í töflum frá síðustu tveimur árum, 2010 og 2011. Upplýsingar frá fyrri árum eru til skráðar en mikil vinna lægi í að taka þær saman í töflu.
         

Fjöldi línubrjóta.

Lína 2010 2011
Hvalfjarðarlína 65 42
Snæfellsneslína 42 11
Hvammsfjarðarlína 61 33
Tvídægrulína 70 61
Arnarvatnslína 12
Gilsfjarðarlína 37 4
Kollafjarðarlína 4
Miðfjarðarlína 41 17
Vatnsneslína 1 9
Blanda 2
Kjalarlína 8 3
Héraðsvötn 23 8
Skjálfandafljót 23
Jökulsá á Fjöllum 13
Jökla 14
Lagarfljót/Jökulsá 11 2
Reyðarfjarðar-/Skriðdalslína 7 6
Hamarsá 59 5
Skeiðará 3
Tungnaá 32 10
Markarfljót 4
Þjórsá 9 4
Hvítá 96 79
Brúará 21 12
Sogs-, Bláskógalína 39 15
Samtals 693 325
    
    Erfitt er að draga víðtækar ályktanir út frá þessum tölulegu upplýsingum, jafnvel þótt tímabilið væri lengra, því að áhrifavaldar, eins og t.d. að þeir sem leið eiga um trassi að loka hliðum, geta valdið því að fjárhópar fari á milli varnahólfa og verði skráðir sem línubrjótar. Það bendir þó margt til þegar tölur frá 2010 og 2011 eru bornar saman að þær ráðstafanir að fækka varnalínum hafi gefið góða raun.

     4.      Hversu margir kílómetrar af aflögðum sauðfjárveikivarnagirðingum eru í landinu? Hefur ríkisstjórnin áform um að veita fjármagn til þess að fjarlægja þær?
    Með auglýsingu nr. 793/2009, um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma, voru lagðar niður nokkrar varnarlínur sem ekki var lengur brýn þörf fyrir í baráttunni gegn sauðfjársjúkdómum. Í framhaldi af því tóku heimamenn víða við einstökum varnalínum, enda voru af þeim ýmis not sem téðir aðilar vildu halda í. Helstu línur sem lagðar voru niður 2009 og ekki var áhugi fyrir hjá heimamönnum á hvorum stað að viðhalda voru Þorskafjarðarlína og Mýrdalslína sem eru samtals um 60 km. Áætlaður kostnaður við að fjarlægja hvern km er um 200.000 kr. eða samtals um 12 millj. kr.
    Miðað við það fjárlagafrumvarp sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er ekki gert ráð fyrir sérstökum fjárveitingum til Matvælastofnunar til að fjarlægja aflagðar sauðfjárveikivarnargirðingar.