Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 256. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 423  —  256. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um úrskurðarnefndir.


     1.      Hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ráðuneytisins, hvað heita þær og hver eru verkefni þeirra?
    Úrskurðarnefndir, sem starfa á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, eru þrjár.

Kærunefnd útboðsmála.
    Kærunefnd útboðsmála starfar samkvæmt 91. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup.
    Fjármála- og efnahagsráðherra skipar í nefndina. Í henni skulu eiga sæti þrír menn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn.
    Hlutverk nefndarinnar er að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum einstaklinga og lögaðila vegna ætlaðra brota á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim.

Ríkistollanefnd.
    Ríkistollanefnd starfar samkvæmt 44. gr. laga nr. 88/2005, um tollalög.
    Fjármála- og efnahagsráðherra skipar ríkistollanefnd þremur mönnum og þremur til vara til fjögurra ára í senn. Skal einn þeirra vera formaður og skal hann fullnægja sömu hæfisskilyrðum og héraðsdómarar til skipunar í embætti. Aðrir nefndarmenn skulu hafa staðgóða þekkingu á tollamálum. Við skipun í nefndina skal þess gætt að nefndarmenn séu óháðir tollyfirvöldum og hagsmunaaðilum.
    Verkefni ríkistollanefndar er að vera óháður úrskurðaraðili í ágreiningsmálum, sem til hennar er skotið, um ákvörðun tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu, tollverð, tollflokkun og annað sem lög þessi mæla fyrir um.

Yfirskattanefnd.
    Yfirskattanefnd starfar samkvæmt lögum nr. 30/1992, með áorðnum breytingum.
    Í yfirskattanefnd sitja sex menn sem skipaðir eru af fjármála- og efnahagsráðherra til sex ára í senn og hafa fjórir nefndarmanna starfið að aðalstarfi. Skulu nefndarmenn fullnægja skilyrðum sem sett eru um embættisgengi ríkisskattstjóra. Formaður og varaformaður þurfa þó einnig að uppfylla þau skilyrði sem sett eru um embættisgengi héraðsdómara.
    Yfirskattanefnd er æðsti úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi í skattamálum og tekur lögsaga hennar til landsins alls. Hún er sérstök stofnun og óháð skattyfirvöldum og fjármála- og efnahagsráðherra í störfum sínum.

     2.      Hver var heildarkostnaður ríkisins af starfsemi nefndanna árin 2009, 2010 og 2011, sundurliðað á hverja nefnd fyrir sig?

Úrskurðarnefnd 2009 2010 2011
Kærunefnd 13.513.751 10.692.473 14.910.275
Ríkistollanefnd 3.194.298 3.268.908 4.174.278
Yfirskattanefnd 110.454.655 113.803.866 117.823.068