Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 301. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 437  —  301. mál.




Svar



atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Eyrúnar Ingibjargar Sigþórsdóttur
um starfshóp um málefni haf- og strandsvæða.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur ráðherra stofnað starfshóp samkvæmt tillögu nefndar um úttekt á þeim lögum og reglum sem gilda um framkvæmdir og athafnir með ströndum landsins og í efnahagslögsögunni?
     2.      Ef ekki, hvort og þá hvenær má ætla að það verði?

    Í samvinnu umhverfis-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis var nefnd sem skipuð var af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í september 2010, falið að gera úttekt á þeim lögum og reglum sem gilda um framkvæmdir og athafnir með ströndum landsins og í efnahagslögsögunni. Einnig var nefndinni falið að meta þörf fyrir skýrari reglur þar um og hvort ástæða væri til að setja löggjöf um skipulag strandsvæða. Nefndin skilaði af sér skýrslu í september 2011 með niðurstöðum og tillögum. Niðurstaða nefndarinnar var m.a. sú að beina þeim tilmælum til ráðherra að stofnaður yrði starfshópur sem ynni að stefnumörkun um málefni haf- og strandsvæða.
    Samkvæmt 2. tölul. J-liðar 6. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 100/2012, fer umhverfis- og auðlindaráðuneytið með skipulag haf- og strandsvæða. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun því leiða vinnu vegna þess verkefnis sem vísað er til í framangreindri skýrslu, í nánu samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafið undirbúning slíkrar vinnu en áðurnefndur starfshópur hefur ekki verið stofnaður. Ráðgert er að hann verði stofnaður á næstu vikum eða mánuðum.
    Þess skal getið að í tillögu að landsskipulagsstefnu 2013–2024, sem nú er til almennrar kynningar, er lagt til að stefna um skipulag á haf- og strandsvæðum verði ein af þremur meginstefnum sem þar eru lagðar til. Gert er ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu snemma á vorþingi 2013.