Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 153. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 490  —  153. mál.

3. umræða.


Nefndarálit



við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2012.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur haft frumvarpið til umfjöllunar eftir 2. umræðu og leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti varðandi breytingar á fjárheimildum.
    Meiri hlutinn gerir breytingatillögu við sundurliðun 2 sem nemur alls 88 m.kr. til hækkunar gjalda. Á rekstrargrunni verða því heildartekjur ársins 529.231,4 m.kr. og heildargjöld 555.074 m.kr. Tekjujöfnuður verður því neikvæður um 25.842,6 m.kr.
    Meiri hlutinn gerir einnig breytingartillögu við 4. gr. frumvarpsins (6. gr. fjárlaga). Þar er lagt til að ráðherra geti heimilað Seðlabanka Íslands að afhenda hlut Íslands vegna hagnaðar af gullsölu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að fjárhæð 305.000 SDR til PRGT (Poverty Reduction and Growth Trust) sem er sjóður á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem ætlaður er til að hjálpa efnaminni aðildarríkjum að ná markmiðum um að draga úr fátækt og efla vöxt. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur farið fram á að aðildarríkin annað hvort afhendi umræddan hlut til PRGT eða greiði samsvarandi fjárhæð til sjóðsins.
    Þá gerir meiri hlutinn einnig tillögu um breytt númer og heiti fjárlagaliða og tilfærslu þeirra í samræmi við breytta skipan Stjórnarráðsins, sbr. ályktun Alþingis frá 11. maí sl. Ályktunin studdi fyrirhugaða breytingu á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands í því skyni að gera Stjórnarráðið öflugra og skilvirkara og skerpa og skýra verkaskiptingu á milli ráðuneyta. Forsetaúrskurður um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti var gefinn út 30. ágúst sl. Breytingarnar fela í sér að í stað iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis komi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
    Með breytingunum hefur ráðuneytum fækkað úr tólf í átta í tíð núverandi ríkisstjórnar. Tillögurnar miða að því að laga framsetningu á fjárveitingum fjárlaga að fækkun ráðuneyta og tilfærslu stofnana og verkefna undir ný ráðuneyti.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins.

    Lagt er til að fjárheimild æðstu stjórnar ríkisins verði aukin um 17 m.kr.
205 Framkvæmdir á Alþingisreit.
         6.55 Framkvæmdir á Alþingisreit. Gerð er tillaga um að fjárheimild vegna framkvæmda á Alþingisreit verði aukin um 17 m.kr. Í fjárlögum fyrir árið 2012 voru veittar 25 m.kr. til lokaáfanga fornleifarannsókna á Alþingisreit. Verkið reyndist umfangsmeira en ráð var fyrir gert og nú þegar lokauppgjör liggur fyrir stefna útgjöldin í að verða 42 m.kr. Ákveðið var að ljúka framkvæmdum á árinu þar sem frestun verkloka hefði haft í för með sér að elstu minjarnar væru í eyðileggingarhættu eftir að svæðið var opnað.

04 Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

    Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins (atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins) verði aukin um 160 m.kr.
215 Fiskistofa.
         1.01 Fiskistofa. Gerð er tillaga um að fjárheimild Fiskistofu verði hækkuð um 40 m.kr. til að standa undir kostnaði Fiskistofu við álagningu og innheimtu veiðigjalda. Fjárveitingin er í samræmi við kostnaðarmat sem fylgdi frumvarpi til laga um veiðigjöld sem lagt var fyrir Alþingi í mars sl. Undirbúningur Fiskistofu hófst strax við gildistöku laganna og hefur í för með sér að fjölga þarf um a.m.k. fjóra sérfræðinga, m.a. á sviði lögfræði og reikningshalds. Gert er ráð fyrir að laun og annar starfstengdur kostnaður vegna þessa verði um 40 m.kr. á ársgrunni en því til viðbótar fellur til á yfirstandandi ári ýmis einskiptiskostnaður, m.a. vegna upplýsingakerfa og ráðgjafarvinnu.
853 Bjargráðasjóður.
         1.10 Bjargráðasjóður. Gerð er tillaga um að fjárheimild Bjargráðasjóðs verði hækkuð um 120 m.kr. með millifærslu af fjárlagalið 09-989-1.90 Ófyrirséð útgjöld. Ljóst er að mikið tjón varð vegna óveðursins sem gerði á Norðurlandi í september sl. Bjargráðasjóði ber samkvæmt lögum að bæta tjónið en hann hefur ekki tök á því nema með auknu fjármagni í sjóðinn. Búið er að meta tjónið sem varð í óveðrinu en fé fennti í kaf og drapst og girðingar brotnuðu og eyðilögðust vegna snjóþunga. Þá liggur fyrir að vegna langvarandi þurrka sl. sumar er heyforði í lágmarki víða á svæðinu og heykaup því fyrirsjáanleg þar sem fé er komið á gjöf mun fyrr en gerist í eðlilegu árferði. Heildartjónið er metið á tæpar 143 m.kr. Ekki er gert ráð fyrir að Bjargráðasjóður þurfi að bæta það allt þar sem fyrirhugað er að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum sem heimilar gæðastýringargreiðslur út á tapað innlegg. Þær greiðslur eru áætlaðar um 15 m.kr. og kæmu til frádráttar bótaþörf Bjargráðasjóðs. Jafnframt er gert ráð fyrir að Bjargráðasjóði verði heimilt að nýta umframfé sem sjóðurinn fékk vegna eldgosanna á Suðurlandi.

08 Velferðarráðuneyti.

    Lagt er til að fjárheimild velferðarráðuneytisins verði aukin um 31 m.kr.
379 Sjúkrahús, óskipt.
         1.01 Óskipt framlag til reksturs sjúkrahúsa. Gerð er tillaga um að fjárheimild liðarins verði hækkuð um 31 m.kr. til viðbótar við 30 m.kr. fjárheimild sem veitt var við 2. umræðu vegna aðgerða sem Landspítalinn hefur gert á konum með ígrædda PIP-púða. Safnliðurinn hefur verið nýttur til að greiða fyrir kostnað vegna aðgerðanna og er tillögunni ætlað að gera kleift að fjárheimildir liðarins til annarra verkefna verði óskertar.

09 Fjármálaráðuneyti.

    Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytisins (fjármála- og efnahagsráðuneytisins) verði lækkuð um 120 m.kr.
989 Ófyrirséð útgjöld.
         1.90 Ófyrirséð útgjöld. Gerð er tillaga um að millifæra 120 m.kr. yfir á lið 04-853 Bjargráðasjóður vegna tjónsins sem varð vegna óveðursins á Norðurlandi í september sl., sbr. nánari umfjöllun þar.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 14. nóvember 2012.



Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Björgvin G. Sigurðsson.


Skúli Helgason.