Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 309. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 511  —  309. mál.




Svar



umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur
um tilflutning verkefna frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða stefnumótun liggur til grundvallar tilflutningi verkefna frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga til Umhverfisstofnunar?

    Ráðuneytinu er ekki ljóst til hvaða tilflutnings verkefna frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga til Umhverfisstofnunar fyrirspyrjandi er að vísa til. Ráðuneytinu er kunnugt um tvenns konar eftirlit sem til skoðunar er að flytja frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga til Umhverfisstofnunar.
    Í frumvarpi til efnalaga, sem ráðherra hefur lagt fram á Alþingi á yfirstandandi þingi (88. mál), er lagt til að efnaeftirlit sé fært til Umhverfisstofnunar frá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga. Markmið með frumvarpinu er að færa eftirlit framar í aðfangakeðjunni og tryggja öryggi efnavara á markaði. Rétt er að taka fram að heilbrigðisnefndir hafa einkum haft eftirlit með merkingum efna og efnablandna sem einungis er hluti af eftirliti með efnum og efnablöndum á markaði hér á landi. Gert er ráð fyrir að heilbrigðisnefndir muni áfram sinna eftirliti með merkingum efnavara sem hluta af reglubundnu eftirliti með starfsleyfisskyldum fyrirtækjum. Þá er gert ráð fyrir því að heilbrigðisnefndir geti tekið að sér verkefni samkvæmt eftirlitsáætlun í umboði Umhverfisstofnunar og á kostnað stofnunarinnar. Tilgangurinn með þessu er að auka öryggi með því að gera eftirlit með efnum og efnablöndum markvissara, tryggja samræmi á milli heilbrigðiseftirlitssvæða og auka yfirsýn í málaflokknum.
    Á vegum ráðuneytisins er að störfum starfshópur sem hefur það hlutverk að ræða mögulegar útfærslur á framkvæmd við leyfisveitingar og eftirliti samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Starfshópnum er ætlað að taka saman yfirlit yfir helstu hugmyndir sem ræddar hafa verið, kosti þeirra og galla, sem og afstöðu aðila til þeirra en honum er ekki ætlað að skila af sér einni ákveðinni niðurstöðu um mögulegar leiðir. Ráðuneytið áformar að loknu starfi starfshópsins að vinna heildstæða stefnumótun um verkaskiptingu heilbrigðisnefnda og Umhverfisstofnunar við eftirlit samkvæmt lögum nr. 7/1998.