Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 458. máls.

Þingskjal 582  —  458. mál.


Tillaga til þingsályktunar

um framkvæmdaáætlun í barnavernd fram til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2014.

(Lögð fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




    Alþingi ályktar, sbr. 3. mgr. 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, með síðari breytingum, að eftirfarandi framkvæmdaáætlun í barnavernd skuli gilda fyrir árið 2013 og fram til sveitarstjórnarkosninga árið 2014.

1.     Inngangur.
    Velferðarráðherra og Barnaverndarstofa skulu vinna samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun sem hér er sett fram með það að markmiði að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð. Í því augnamiði skal ráðuneytið og Barnaverndarstofa hafa eftirtalin fimm meginmarkmið að leiðarljósi:
     1.      Að efla barnaverndarstarf á vegum velferðarráðuneytisins.
     2.      Að efla barnaverndarstarf á vegum Barnaverndarstofu.
     3.      Að efla þjónustu Barnaverndarstofu.
     4.      Að bæta hæfni, getu og þekkingu starfsfólks Barnaverndarstofu og þeirra sem starfa á vegum stofnunarinnar.
     5.      Að hámarka nýtingu fjármuna sem lagðir eru til stofnunarinnar.
    Áætlunin skiptist niður í eftirfarandi þætti:

2.     Aðgerðir til eflingar barnaverndarstarfs á vegum velferðarráðuneytis.
    Til að efla barnaverndarstarf á vegum velferðarráðuneytisins skal unnið að því að tryggja nauðsynlegt fjármagn til málaflokksins, að velferðarráðuneytið og Barnaverndarstofa vinni reglubundið að þróun löggjafar á sviði barnaverndar og málaflokksins í heild og að því að tryggja samráð og samvinnu við önnur ráðuneyti sem sinna málefnum barna.

3.     Aðgerðir til eflingar barnaverndarstarfs á vegum Barnaverndarstofu.
    Til að efla barnaverndarstarf skal Barnaverndarstofa vinna að því að greina úrlausnarefni á málefnasviðinu, fylgjast með þróun málaflokksins og leggja reglubundið fram tillögur til endurbóta við velferðarráðuneytið og taka þátt í framkvæmd þeirra. Í tengslum við þetta er stefnt að því að vinna að eftirfarandi verkefnum:

3.1     Ráðgjöf, fræðsla og rannsóknir.
3.1.1     Ráðgjöf.
3.1.2     Fræðsla og samráð við starfsfólk og kjörna fulltrúa barnaverndarnefnda.
3.1.3     Viðhald og efling þekkingar.
3.1.4     Rannsóknir og greining.
3.1.5     Starfsdagar, málþing og ráðstefnur.

3.2     Efling þjónustu og verklags.
3.2.1     Þróun meðferðarúrræða.
3.2.2     Bætt bráða- og heilbrigðisþjónusta.
3.2.3     Ný meðferðarstofnun fyrir unglinga í alvarlegum vímuefna- og afbrotavanda.
3.2.4     Endurskoðun fósturs og sérúrræða.
3.2.5     Foreldrafærniþjálfun og samhæfing þjónustuúrræða á heimavelli.
3.2.6     Aukin þjónusta Barnahúss og meðferð vegna óviðeigandi kynhegðunar.
3.2.7     Yfirfærsla vistheimila sveitarfélaga til ríkisins.
3.2.8     Eftirlit.
3.2.9     Skráning upplýsinga.

3.3     Tilraunaverkefni.
3.3.1     Meðferð tilkynninga um heimilisofbeldi.
3.3.2     Hópmeðferð fyrir börn sem búa við heimilisofbeldi eða eru beitt líkamlegu ofbeldi.
3.3.3     Aukin þátttaka barna og foreldra við gerð áætlana í barnaverndarmálum.
3.3.4    Bætt verklag í vinnslu barnaverndarmála með innleiðingu kerfisbundinnar greiningar við könnun mála í barnavernd.
3.3.5     Viðbragðsteymi vegna dauðsfalla barna.

3.4     Innlent samstarf.
3.4.1     Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd.
3.4.2     Samstarf við Neyðarlínuna 112.
3.4.3     Samstarf við félagasamtök.
3.4.4     Náum áttum.
3.4.5     Velferðarvaktin.
3.4.6     Háskóli Íslands.

3.5     Erlent samstarf.
3.5.1    Sérfræðingahópur Eystrasaltráðsins vegna barna í áhættu (Expert Group for Cooperation on Children at risk – EGCC).
3.5.2     Samstarf barnahúsa á Norðurlöndunum.
3.5.3     Innleiðing barnahúsa í Evrópu.
3.5.4     Norræn barnaverndarráðstefna (NBK).

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Ríkisstjórnin hefur samþykkt framkvæmdaáætlun um barnavernd frá árinu 2013 fram til sveitarstjórnarkosninga árið 2014. Hún fer hér á eftir:

1.     Inngangur.
    Samkvæmt 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, ber velferðarráðuneytið ábyrgð á stefnumótun í barnavernd og skal ráðherra leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Barnaverndarstofa er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir yfirstjórn velferðarráðuneytisins og annast stjórnsýslu á því sviði sem barnaverndarlögin ná til. Áætlun þessi er unnin á grundvelli 5. gr. barnaverndarlaga en er einnig í samræmi við 7. gr. reglugerðar um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A hluta, nr. 1061/2004, þar sem segir að forstöðumenn beri ábyrgð á gerð langtímaáætlunar sem skuli endurspegla stefnumörkun og megináherslur í starfsemi stofnunar.
    Hlutverki Barnaverndarstofu er nánar lýst í 7. gr. barnaverndarlaga þar sem segir að stofan skuli:
          vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu og vera ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í málaflokknum,
          hlutast til um að fram fari þróunar- og rannsóknastarf á sviði barnaverndar,
          hafa með höndum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga og fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir í landinu,
          hafa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda,
          annast leyfisveitingar til fósturforeldra, taka ákvarðanir og veita barnaverndarnefndum liðsinni í fósturmálum,
          fara með yfirstjórn heimila og stofnana sem ríkinu ber að sjá til að séu tiltæk og hlutast til um að slík heimili og stofnanir verði sett á fót,
          hafa yfirumsjón með vistun barna á heimilum og stofnunum á ábyrgð ríkisins,
          annast leyfisveitingar samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga.
    Barnaverndarstofa getur einnig rekið sérstakar þjónustumiðstöðvar í því skyni að treysta þverfaglegt samstarf, eflingu og samhæfingu stofnana við meðferð mála á sviði barnaverndar. Þá er Barnaverndarstofu heimilt að bjóða barnaverndarnefndum aðra sérhæfða þjónustu, svo sem úrræði utan stofnana á sviði meðferðar fyrir börn, enda sé markmið hennar að auðvelda nefndum að sinna lögbundnu hlutverki sínu.
    Verkefni Barnaverndarstofu á tímabilinu verða eftirfarandi:

2.1     Ráðgjöf, fræðsla og rannsóknir.
2.1.1     Ráðgjöf.
    Það er ætíð stefna Barnaverndarstofu að bæta þjónustu og aðgengi barnaverndarstarfsmanna að ráðgjöf, bæði almennt og vegna einstakra mála. Einnig hefur aðgengi almennings að ráðgjöf verið bætt, meðal annars með föstum símatímum og ný heimasíða verður opnuð innan skamms. Lögð er áhersla á að ráðgjöf til samstarfsaðila verði að mestu leyti í höndum barnaverndarstarfsmanna í viðkomandi sveitarfélagi á meðan Barnaverndarstofa leitast við að sinna þeim sem veita þjónustu á landsvísu. Mikilvægt er að handbók fyrir barnaverndarnefndir sé sífellt í endurskoðun.

2.1.2     Fræðsla og samráð við starfsfólk og kjörna fulltrúa barnaverndarnefnda.
    Barnaverndarstofa mun á tímabilinu halda námskeið og fræðslu fyrir starfsfólk barnaverndarnefnda og kjörna fulltrúa í þeim nefndum í samráði við nefndirnar. Þetta eru meðal annars námskeið um árangursrík samtöl við börn, til dæmis áhugahvetjandi samtal (Motivational Interviewing) og „Talaðu við mig“ sem eru leiðbeiningar um samtöl barnaverndarstarfsmanna við börn. Einnig verður boðið upp á árlega fræðslu fyrir nýja starfsmenn og kjörna fulltrúa barnaverndarnefnda um vinnulag, lög og úrræði í barnavernd og fræðslu þar sem farið er dýpra í málsmeðferð og verklag, nýjungar á sviði barnaverndar, alþjóðasamninga og -samþykktir. Einnig stendur til að starfsmenn Barnaverndarstofu heimsæki allar barnaverndarnefndir á landinu á tímabilinu og er tilgangur heimsóknanna aðallega að leggja mat á starfsskilyrði, verkefni og úrræði nefndanna.

2.1.3     Viðhald og efling þekkingar.
    Barnaverndarstofa leggur áherslu á að notaðar séu gagnreyndar og viðurkenndar aðferðir í úrræðum á vegum stofunnar og að mikilvægt sé að starfsfólk hennar sæki og viðhaldi bestu þekkingu á sviði barnaverndar innan lands og erlendis frá. Stefnt er að því að gerð verði áætlun árlega um áherslur í endurmenntun og þjálfun starfsfólks. Lögð er áhersla á að sækja ákveðna viðburði á erlendum vettvangi, svo sem ráðstefnu ISPCAN (International Society for Prevention of Child Abuse and Neglect), ráðstefnu norrænu undirsamtakanna NFBO (Nordisk forening mot barnemishandling og omsorgssvikt), ráðstefnu Adferdssentered í Osló, Norrænu barnaverndarráðstefnuna eða annað sambærilegt. Þjálfun starfsmanna verði viðhaldið og hún endurnýjuð eftir þörfum, svo sem starfsmanna Barnahúss í TF-CBT (Trauma Focused Cognitive Behavioral Therapy), stigskipt rannsóknarviðtöl (Extended Forensic Interviewing, ART (Aggression Replacement Training) og áhugahvetjandi samtali (Motivational Interviewing) á Stuðlum og öðrum meðferðarúrræðum stofunnar. Þjálfun fósturforeldra verði efld með PMT (Parent Management Training) og foreldrafærniþjálfun fyrir þá sem lokið hafa Foster Pride grunnnámskeiði.

2.1.4     Rannsóknir og greining.
    Á tímabilinu er stefnt að því að gera eftirfarandi kannanir eða árangursmat:
          Mat á árangri af fjölkerfameðferð (MST) út frá landsmarkmiðum.
          Leitað samstarfs við sérfræðinga Háskóla Íslands við þróun mælitækja og gerð rannsóknaráætlunar fyrir árangursmat meðferðar.
          Viðhorfskönnun meðal starfsmanna barnaverndarnefnda um þjónustu Barnaverndarstofu.
          Þjónustukönnun meðal foreldra og barna sem hafa lokið meðferð á vegum Barnaverndarstofu.
          Úttekt á valdbeitingaskýrslum sem berast frá meðferðarheimilum vegna þvingunaraðgerða.
          Úttekt á fósturráðstöfunum: Áætlanagerð, fóstursamningar og skilgreining á þjónustuþörf, undirbúningur og framkvæmd þjónustu við barn og fósturheimili, fósturrof og tímalengd ráðstöfunar.
          Könnun á tilkynningum og málsmeðferð um líkamlegt ofbeldi og heimilisofbeldi. Skoðað verði hvort nýjar verklagsreglur og úrræði hafi bætt málsmeðferð.
          Samræmt tölfræðimat á starfi barnahúsa á Norðurlöndum varðandi skýrslutökur, eðli brota og lyktir þeirra.

2.1.5     Starfsdagar, málþing og ráðstefnur.
    Barnaverndarstofu þykir vera orðið tímabært að gera málaflokknum barnavernd hærra undir höfði, nýta sér og sýna þá menntun, þekkingu og reynslu sem þegar er til staðar á Íslandi og erlendis og halda svokallað Barnaverndarþing árlega. Það yrði haldið af Barnaverndarstofu í samstarfi við barnaverndarnefndir. Tengt því væri tilvalið að halda hinn árlega starfsdag Barnaverndarstofu með félagsmálastjórum og forsvarsmönnum barnaverndarnefnda. Einnig er mikilvægt að stofan haldi reglulega og eftir þörfum námskeið og ráðstefnur um sértæk úrlausnarefni á sviði barnaverndar í samstarfi við viðeigandi aðila.

2.2     Efling þjónustu og verklags.
2.2.1     Þróun meðferðarúrræða.
    Meðferðarúrræði fyrir börn og fjölskyldur barna sem sýna alvarlegan hegðunarvanda verði þróuð í þá átt að styrkleiki og tegund inngripa sé hverju sinni í samræmi við þarfir barns og viðurkenndar aðferðir. Þannig verði greining og mat á þjónustuþörf í auknum mæli unnið áður en ákvörðun er tekin um að vista barn utan heimilis til meðferðar svo flýta megi fyrir slíkri þjónustu þegar það á við eða leiðbeina barni og fjölskyldu um aðra viðeigandi þjónustu. Meðferðarkerfið taki mið af stigskiptri þjónustu innan sem utan stofnunar og samþættingu meðferðarstarfs á Stuðlum, meðferðarheimilum og fjölkerfameðferð (MST) á heimaslóðum. Lögð verði áhersla á meðferðarúrræði á eða sem næst heimaslóðum fjölskyldna og samfélagslega aðlögun barna, sbr. meðal annars tillögur Barnaverndarstofu til velferðarráðuneytisins.
    Í þessu skyni verði gerðar viðeigandi breytingar á fyrirkomulagi meðferðardeildar Stuðla og annarra meðferðarheimila en einnig með það að markmiði að draga úr blöndun barna með ólíkan vanda og skerpa aðgreiningu markhópa eftir meðferðarþörf svo auka megi gæði í meðferð og draga úr neikvæðum félagslegum áhrifum vistunar á stofnun. Gerðar verði breytingar á Meðferðarstöð ríkisins, Stuðlum, í samráði við barnaverndarnefndir sem miði að bættri bráðaþjónustu, meðal annars á lokaðri deild og aukinni þjónustu við börn og fjölskyldur eftir að vistun á meðferðardeild lýkur.
    Öll meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu noti viðurkenndar aðferðir og sambærilegar grunnaðferðir í meðferðarvinnu sem standist gæðakröfur svo tryggt sé að börn og fjölskyldur fái viðeigandi þjónustu. Metinn verði fýsileiki þess að setja á fót svokallaða MultifunC-stofnun þar sem áhersla er á gagnreyndar aðferðir í meðferð alvarlegs hegðunarvanda án þess að vistunin komi niður á samfélagslegri aðlögun, skólanámi, vinnu og meðferð annarra áhættuþátta. Slíkar stofnanir eiga rætur sínar að rekja til norrænna rannsókna á meðferð alvarlegs hegðunarvanda og hafa verið settar á fót á Norðurlöndunum.

2.2.2     Bætt bráða- og heilbrigðisþjónusta.

    Komið verði á deildarskiptingu innan lokaðrar deildar Stuðla (neyðarvistun) og börn aðgreind eftir kyni, aldri og mismunandi þjónustuþörf með það að markmiði að auka öryggi barna, draga úr neikvæðum félagslegum áhrifum og bæta þjónustu. Sett verði skýrari viðmið vegna neyðarvistana á lokaðri deild og þróuð markvissari úrvinnsla og inngrip í samstarfi við barnaverndarnefndir þegar barn er endurtekið neyðarvistað.
    Gerð verði endurskoðun á fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu fyrir börn sem eru bráðavistuð á lokaðri deild Stuðla eða eru í meðferðarúrræðum á vegum Barnaverndarstofu. Tryggð verði viðeigandi heilbrigðisþjónusta fyrir börn sem eru metin í sjálfsvígshættu, eru í óskilgreindu vímuástandi við komu á lokaða deild, í alvarlegum fráhvörfum eða öðru því ástandi þar sem þörf er á aðkomu læknis eða hjúkrunarfólks. Þannig verði meðal annars tryggt að lyfjagjafir til barna sem eru bráðavistuð á lokaðri deild, og ekki hafa með sér ávísuð lyf, fari eingöngu fram eftir mati heilbrigðisstarfsmanna sem eru á staðnum og sjá barnið þegar matið fer fram.

2.2.3     Ný meðferðarstofnun fyrir unglinga í alvarlegum vímuefna- og afbrotavanda.
    Barnaverndarstofa hefur lagt til að sett verði á fót ný meðferðarstofnun, aðallega fyrir unglinga á aldrinum 16–18 ára sem glíma við alvarlegan vímuefnavanda, hafa jafnvel lokið einni eða fleiri meðferðum á stofnunum Barnaverndarstofu, geta ekki nýtt sér önnur vímuefnameðferðarúrræði í samfélaginu eða er ítrekað vísað úr slíkum úrræðum vegna hegðunarvanda, sbr. tillögur Barnaverndarstofu til velferðarráðuneytisins.
    Stofnunin geti jafnframt þjónustað þá unglinga sem sæta gæsluvarðhaldi eða hafa hlotið óskilorðsbundna dóma og geta eða vilja ekki afplána dóm á öðrum meðferðarheimilum Barnaverndarstofu eða ekki er talið æskilegt, vegna vanda þeirra, að vista þá með öðrum börnum á slíkum heimilum. Með þessu yrði tryggt að börn gætu í velflestum tilvikum afplánað gæsluvarðhald og óskilorðsbundna dóma í meðferð í stað fangelsis með fullorðnum, sbr. einnig skilyrði fyrir lögfestingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Stofnunin byggi á stigskiptri þjónustu sem spanni bráðaþjónustu með viðeigandi heilbrigðisþjónustu, lokaða deild þar sem einnig gæti farið fram gæsluvarðhald, opna meðferð og ítarlega eftirfylgd. Þjónusta og staðsetning stofnunar hafi endurhæfingu og samfélagslega aðlögun í nærumhverfi að markmiði með möguleika á ítarlegum inngripum þegar þörf krefur.

2.2.4     Endurskoðun fósturs og sérúrræða.
    Skipaður verði starfshópur með fulltrúum Barnaverndarstofu, barnaverndarnefnda, Sambands íslenskra sveitarfélaga og velferðarráðuneytisins sem endurskoði fyrirkomulag svonefnds styrkts fósturs, sbr. 4. mgr. 65. gr. barnaverndarlaga. Eftirspurn barnaverndarnefnda hefur aukist eftir umönnun og þjálfun á fósturheimili, í stað vistunar á meðferðarstofnun. Ástæður eru meðal annars bættar greiningar og rannsóknir sem sýna fram á kosti einstaklingsbundinna úrræða. Starfshópurinn skoði einnig fyrirkomulag þjónustu sveitarfélaga við börn sem glíma við fötlun eða annan fjölþættan vanda og eru talin þurfa viðvarandi þjónustu jafnvel fram yfir 18 ára aldur. Dæmi eru um að reynt sé að þjónusta börn með slíka þjónustuþörf í tímabundnum úrræðum eins og með (styrktu) fóstri og/eða á meðferðarheimilum án þess að það fullnægi þörfum þeirra fyrir viðvarandi samastað og samfellda þjónustu.
    Með styrktu fóstri er átt við að ríkið greiði hluta af auknum fósturlaunum til fósturforeldra, en viðkomandi barnaverndarnefnd er eftir sem áður ætlað að tryggja viðeigandi þjónustu við barn og fósturheimili, þjálfun, handleiðslu, ráðgjöf o.s.frv., sbr. reglugerð um fóstur, nr. 804/2004. Borið hefur á því að þessari þjónustu sé ábótavant og leita þarf leiða til úrbóta. Skoðaðir verði kostir þess að ráða sérfræðinga í hvern landsfjórðung sem hafi það hlutverk að styrkja fósturforeldra í störfum sínum með ráðgjöf og handleiðslu. Jafnframt verði hugað að innleiðingu gagnreyndra aðferða og metinn kostnaður og fýsileiki við svokallað fjölhliða meðferðarfóstur (Multidimensional Treatment Foster Care – MTFC) sem er gagnreynd aðferð og felur í sér umfangsmikla þjálfun og meðferð barns á fósturheimili í 69 mánuði, samhliða þjálfun og meðferð til kynforeldra eða þeirra aðila sem barn flytur til eftir að meðferðarfóstrinu lýkur.

2.2.5     Foreldrafærniþjálfun og samhæfing þjónustuúrræða á heimavelli.
    Barnaverndarstofa telur mikilvægt að efla möguleika á innleiðingu PMT-aðferðarinnar á landsvísu þannig að til verði öflugt þjónustunet í barnavernd og félags- og skólaþjónustu. Slíkt þjónustunet mundi meðal annars auka og bæta möguleika á almennri foreldrafærniþjálfun, forvarnar- og meðferðarinngripum í heimabyggð og nýtast í þjónustu við fósturheimili. Í dag glíma barnaverndarnefndir oft við þann vanda að finna ekki viðeigandi sérfræðiþjónustu fyrir fósturforeldra og fósturbörn. Einnig mundi þetta bæta aðgengi að viðeigandi þjálfun og stuðning við foreldra barna sem snúa heim eftir tímabundið fóstur eða hafa lokið vistun á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu og eru búsett utan þjónustusvæðis fjölkerfameðferðar (MST) eða annarra viðeigandi meðferðarúrræða á heimaslóðum.
    Barnaverndarstofa mun áfram leitast við að vera í samvinnu við sveitarfélög við að koma á fót meðferðarúrræðum fyrir börn á heimaslóðum, svo sem gert hefur verið í samstarfi við Akureyrarbæ um þjónustu fyrir unglinga í Eyjafirði og nágrannasveitarfélögum á grundvelli PMT-þjálfunar og -meðferðar.

2.2.6     Aukin þjónusta Barnahúss og meðferð vegna óviðeigandi kynhegðunar.
    Hafinn verði undirbúningur að stækkun Barnahúss svo bæta megi aðstöðu og þjónustu við börn og fjölskyldur, sbr. meðal annars niðurstöður rannsóknar á þjónustu Barnahúss (Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd, 2012). Brýnt er að bæta aðstöðu í Barnahúsi svo sinna megi betur grunnþjónustu við þolendur kynferðisofbeldis og tryggja fjölbreytta þjónustu við þann breiða hóp barna sem eru þolendur kynferðisofbeldis, börn sem eru beitt öðru líkamlegu ofbeldi og börn sem búa við heimilisofbeldi.
    Sálfræðiþjónusta fyrir börn sem sýna af sér óviðeigandi kynhegðun hefur verið í boði á vegum Barnaverndarstofu frá hausti 2009. Sökum aðstöðuleysis hefur ekki verið hægt að bjóða upp á þjónustuna á vegum Barnahúss, eins og upphaflega var ætlað, og var gerður samningur við sérhæft teymi þriggja sálfræðinga.

2.2.7     Yfirfærsla vistheimila sveitarfélaga til ríkisins.
    Með breytingu á barnaverndarlögum sem tekur gildi 1. janúar 2014 verður ríkinu ætlað að yfirtaka rekstur vistheimila fyrir börn sem nú er á vegum sveitarfélaga. Málefnið hefur tvær hliðar, aðra varðandi fjárhag og rekstur og hina faglega hlið einkum er varðar innlagnir á viðkomandi stofnanir. Fulltrúar Barnaverndarstofu, velferðarráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga vinna að breytingunum.

2.2.8     Eftirlit vegna kvartana og frumkvæðismála hjá Barnaverndarstofu.
    Verklag vegna kvartana verði endurskoðað með það fyrir augum að hægt verði að stytta afgreiðslutíma mála hjá Barnaverndarstofu og skilgreina hvenær ástæða er til þess að afla upplýsinga og skýringa um vinnslu einstakra mála frá barnaverndarnefnd.
    Verklag vegna frumkvæðiseftirlits stofunnar verði endurskoðað með tilliti til þess að samræma í hvaða tilvikum ástæða þykir til að taka einstök mál eða framkvæmd tiltekinna þátta í störfum barnaverndarnefnda, einni eða fleiri, til athugunar.
    Varðandi kvartanir og frumkvæðismál verði tekið upp það verklag að hafi barnaverndarnefndir ekki hagað málsmeðferð í samræmi við lög verði kallað eftir upplýsingum um með hvaða hætti þær hafi farið að ábendingum og leiðbeiningum stofunnar. Nýtt verklag vegna kvartana og frumkvæðismála verði kynnt barnaverndarnefndum og verði aðgengilegt á heimasíðu Barnaverndastofu fyrir árslok 2013.

2.2.9     Skráning upplýsinga.
    Barnaverndarstofa gerði samning við Forsvar ehf. um að gera breytingar á Grósku svo kerfið geti mætt þörfum Barnaverndarstofu um skráningu upplýsinga hjá sveitarfélögum og framsendingu þeirra til stofunnar.

2.3     Tilraunaverkefni.
2.3.1     Meðferð tilkynninga um heimilisofbeldi.
    Ráðinn hefur verið sérfræðingur til að sinna bakvöktum vegna tilkynninga um heimilisofbeldi þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer í útkall vegna slíkra mála. Hlutverk þessa sérfræðings er fyrst og fremst að ræða við barnið og huga að líðan þess. Hann metur hvaða stuðningur er viðeigandi fyrir barnið í þessum aðstæðum og veitir í kjölfarið meðferð fyrir börn í fyrrnefndum aðstæðum. Sérfræðingurinn vinnur í umboði barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu.
    Verkefnið hefur verið framlengt til ársloka 2012 og verður þá tekin ákvörðun um framhaldið.

2.3.2     Hópmeðferð fyrir börn sem búa við heimilisofbeldi eða eru beitt líkamlegu ofbeldi.
    Frá janúar 2010 hefur Barnaverndarstofa boðið upp á hópmeðferð fyrir börn sem búa við heimilisofbeldi eða eru sjálf beitt líkamlegu ofbeldi. Um var að ræða tilraunaverkefni til eins árs sem síðan var framlengt til loka árs 2012. Gert verður árangursmat á tímabilinu.

2.3.3     Aukin þátttaka barna og foreldra við gerð áætlana í barnaverndarmálum.
    Rannsóknir hér á landi gefa til kynna að þátttaka barna, foreldra og annarra sem koma að barnaverndarmálum sé takmörkuð og því nýtist áætlunin ekki sem það vinnutæki sem henni er ætlað. Barnaverndarstofa hefur hug á því að fara af stað með tilraunaverkefni í samvinnu við barnaverndarnefndir með það að markmiði að bæta vinnulag við gerð áætlana þannig að börn og foreldrar verði virkir þátttakendur í því starfi og að áætlunin nýtist sem vinnutæki jafnt fyrir barnaverndarstarfsmenn, börn, foreldra og aðra sem að málinu koma.

2.3.4     Bætt verklag í vinnslu barnaverndarmála með innleiðingu kerfisbundinnar greiningar við könnun mála í barnavernd.
    Barnaverndarstofa mun kynna sér BBIC (Barnens behov i centrum) í Svíþjóð og sænska Ester-matskerfið með það að markmiði að efla barnaverndarstarf á Íslandi. Leitað verði samstarfs við barnaverndaryfirvöld í Svíþjóð.

2.3.5     Viðbragðsteymi vegna dauðsfalla barna (Child Death Review Team).
    Svokölluð „Child Death Review Teams“ voru fyrst sett á laggirnar í Bandaríkjunum í kjölfar fjölgunar dauðsfalla barna. Á undanförnum árum hafa æ fleiri ríki sett á laggirnar sambærileg viðbragðsteymi. Þar koma saman fulltrúar dóms-, heilbrigðis- og barnaverndarkerfis með það að markmiði að varpa ljósi á dauðsföll barna og koma með ábendingar um hvernig megi fækka þeim. Lögð er áhersla á að þróa aðferðir til að bæta heilsu og öryggi barna, bæta samskipti milli stofnana, greina orsakir og viðbrögð við dauðsfalli og safna og birta upplýsingar um öll dauðsföll barna.

2.4     Innlent samstarf.
    Barnaverndarstofa hefur mikið og gott samstarf við bæði innlenda og erlenda aðila. Hér að neðan eru taldir upp helstu samstarfsaðilar til að sýna fram á fjölbreytni og umfang samstarfsins:

2.4.1     Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd.
    Barnaverndarstofa hefur verið aðili að Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd (RBF) frá upphafi.

2.4.2     Samstarf við Neyðarlínuna 112.
    Samningur hefur verið við Neyðarlínuna 112 frá árinu 2004 um móttöku tilkynninga til barnaverndarnefnda eftir lokun skrifstofutíma nefndanna. Barnaverndarstofa tekur ár hvert þátt í undirbúningi að 112 deginum þar sem athygli er vakin á störfum 112 og viðbragðsaðila.

2.4.3     Samstarf við félagasamtök.
    Barnaverndarstofa leggur áherslu á að styðja við og eiga gott samstarf við frjáls félagasamtök sem vinna að málefnum barna og fjölskyldna, svo sem Barnaheill – Save the Children Iceland, Blátt áfram, Drekaslóð, Heimili og skóla, Kvennaathvarfið, Rauða krossinn, SAFT, Stígamót, UNICEF á Íslandi og Vímulausa æsku/Foreldrahús.

2.4.4     Náum áttum.
    Samstarfshópurinn Náum áttum hefur frá árinu 2000 staðið fyrir mánaðarlegum fræðslufundum yfir vetrarmánuðina. Samstarfsaðilar eru auk Barnaverndarstofu: Barnaheill, Félag fagfólks í frítímaþjónustu FFF, FRÆ – fræðsla og forvarnir, Heimili og skóli, IOGT á Íslandi, Landlæknisembættið, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborg, umboðsmaður barna, Vímulaus æska/Foreldrahús og Þjóðkirkjan.

2.4.5     Velferðarvaktin.
    Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 setti þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra á fót velferðarvakt sem ætlað er að fylgjast með þróun mála og tryggja úrræði til að stuðla að velferð. Á vegum velferðarvaktar hafa frá upphafi starfað undirhópar og hefur Barnaverndarstofa átt fulltrúa í barnahópi og félagsvísahópi. Þessir hópar skila tillögum til velferðarvaktar sem nýtir starf hópanna við tillögugerð til ráðherra.

2.4.6 Háskóli Íslands.

    Barnaverndarstofa mun áfram eiga samstarf við Háskóla Íslands um að efla menntun og þjálfun starfsmanna barnaverndarnefnda og meðferðarheimila og til að auka þekkingu samstarfsaðila þeirra. Áframhaldandi verður stuðningur við nema í formi fræðslu, leiðbeininga og kennslu.

2.5.     Erlent samstarf.
2.5.1     Sérfræðingahópur Eystrasaltráðsins vegna barna í áhættu.
    Barnaverndarstofa stefnir að áframhaldandi þátttöku í sérfræðingahópi Eystrasaltsráðsins vegna barna í áhættu (Expert Group for Cooperation on Children at risk – EGCC). Samstarfið, sem er á vettvangi Eystrasaltsráðsins vegna barna í áhættu, er hjá hópi embættismanna frá ráðuneytum og ríkisstofnunum sem bera ábyrgð á málefnum barna í aðildarlöndum Eystrasaltsráðsins. Sérfræðingahópurinn skilgreinir, styður og innleiðir samstarf milli landanna um börn í áhættu, einkum er varðar sameiginlegan vanda innan svæðisins.

2.5.2     Samstarf barnahúsa á Norðurlöndunum.
    Barnahús er aðili að samstarfi barnahúsa á Norðurlöndunum (Nordic Network of Children's Houses/CAC). Barnahús á Norðurlöndunum taka þátt og fulltrúar frá hverju landi hittast einu sinni á ári til að fara yfir stöðu málaflokksins í hverju landi.

2.5.3     Innleiðing barnahúsa í Evrópu.
    Í kjölfar Lanzarote-samnings Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðisofbeldi hefur verið leitað til Barnaverndarstofu um liðsinni við stofnun barnahúsa í Evrópu. Barnaverndarstofa hefur nú þegar fallist á að eiga aðild að undirbúningsstarfi vegna stofnunar og starfsemi barnahúsa í Hollandi, Portúgal, Tyrklandi og Póllandi enda fáist til þess verkefnis fjármagn í gegnum DAPHNE-áætlun Evrópusambandsins. Þá hefur eftirlitsnefnd með framkvæmd Lanzarote-samningsins leitað eftir samstarfi um frekari verkefni á þessu sviði.

2.5.4     Norræn barnaverndarráðstefna (NBK).
    Barnaverndarstofa er aðili að norrænu barnaverndarráðstefnunni (Nordisk barnevernkongress NBK) sem haldin er á þriggja ára fresti. Starfsmenn Barnaverndarstofu taka þátt í undirbúningi og framkvæmd ráðstefnunnar.