Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 467. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 601  —  467. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að flýta framkvæmdum við Hornafjarðarfljót samkvæmt samgönguáætlun.

Flm.: Atli Gíslason, Eygló Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Björgvin G. Sigurðsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að flýta framkvæmdum við Hornafjarðarfljót samkvæmt samgönguáætlun þannig að þær hefjist árið 2014.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi leggur til að framkvæmdum við Hornafjarðarfljót, sem fjallað er um í kafla 06-651 Samgönguverkefni, 4. tölul. í fjögurra ára samgönguáætlun (þskj. 533, 392. mál á 140. löggjafarþingi) og í kafla 06-651 Samgönguverkefni, 2. tölul. í samgönguáætlun 2011–2022 (þskj.534, 393. mál á 140. löggjafarþingi), verði flýtt og þær hefjist árið 2014. Það er mat flutningsmanna að ný brú yfir Hornafjarðarfljót sé mikil samgöngubót á þjóðvegi 1 og fyrir byggðarlagið en ljóst er að brýn þörf er á því að ráðast sem fyrst í þessar framkvæmdir. Ný brú hefur í för með sér umferðaröryggi, 11 km styttingu á þjóðvegi 1, og mun fækka einbreiðum brúm um sex. Verkefnið er auk þess mjög arðsamt og ein forsenda sameiningar sveitarfélaga á þessu landsvæði.
    Fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu skipaði minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar og lagði fram breytingartillögur í nefndaráliti um framkvæmdir við Hornafjarðafljót o.fl. Umrædd breytingartillaga um Hornafjarðarfljót var felld naumlega í atkvæðagreiðslu. Fáir þingmenn tóku þátt í lokaatkvæðagreiðslunni. Tillaga um að flýta framkvæmdum við Hornafjarðarfljót er því endurflutt.
    Árið 1974 varð bylting í samgöngumálum í Hornafirði með tengingu hringvegarins. Samgöngur um hringveginn eru greiðar því hann hefur að mestu verið byggður upp og lagður bundnu slitlagi. Margar einbreiðar brýr eru þó á hringveginum á suðausturhluta landsins sem standast ekki kröfur sem gerðar eru til slíkra mannvirkja. Núverandi brú yfir Hornafjarðarfljót er einbreið, úr sér gengin, úrelt og verður ekki á vetur sett. Tilgangur framkvæmdar með nýjum vegi er að bæta samgöngur á Suðausturlandi og styrkja byggðarlög á Suðaustur- og Austurlandi með bættu vegasambandi á hringveginum. Vegalengdir milli Austurlands og Suðurlands styttast um allt að 11 km eins og áður sagði. Markmiðið með gerð vegarins er fyrst og fremst að auka umferðaröryggi, draga úr slysahættu og tryggja góðar samgöngur á svæðinu, allt í anda samgönguáætlunar.
    Það er mat flutningsmanna að með gerð samgönguáætlunar skuli stefnt að jákvæðri byggðaþróun á grundvelli skilgreiningar á grunnneti samgöngukerfisins sem nái til alls landsins og miði að greiðum, öruggum, hagkvæmum og umhverfislega sjálfbærum samgöngum með aðgengi og hreyfanleika í samgöngukerfinu í forgrunni annars vegar og hagkvæmni í rekstri og uppbyggingu samgöngukerfisins hins vegar. Leggja ber áherslu á mikilvægi þess að auka vægi umferðaröryggis við forgangsröðun verkefna og byggja öðru fremur á slíkum sjónarmiðum til framtíðar. Einnig er mikilvægt að benda á að sanngjarns jafnvægis sé gætt í samgönguáætlun, þ.e. að tekið sé ríkt tillit til byggðasjónarmiða þar sem tilteknir landshlutar búa enn við óviðunandi samgöngur. Stytting vega með bundnu slitlagi skapar betri skilyrði fyrir jákvæða byggðaþróun og eflingu einstakra atvinnu- og þjónustusvæða. Forgangsröðun framkvæmda verður að taka mið af því að efla sveitarfélög og styrkja hvert svæði sem og allt landið og við slíka forgangsröðun ber að líta til atvinnusköpunar. Tillaga þessi byggir á framangreindum forsendum en mannaflsfrekt verkefni, sem brúarsmíði er, verður gríðarleg samgöngubót fyrir landshlutann og landsmenn alla og arðsöm framkvæmd þegar fram í sækir.