Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 487. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 628  —  487. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um netverk náttúruminjasafna.

Flm.: Kristján Þór Júlíusson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Atli Gíslason,
Björgvin G. Sigurðsson, Einar K. Guðfinnsson,
Ólína Þorvarðardóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að gera athugun á því hvort netverk safna um landið allt á sviði náttúruminja, undir merkjum Náttúruminjasafns Íslands, geti komið í stað einnar byggingar náttúruminjasafns.

Greinargerð.

    Um langt árabil hefur verið kallað eftir byggingu náttúruminjasafns og ýmsar tillögur verið þar til athugunar. Margvíslegar ástæður liggja til þess að ekki hefur enn verið hafist handa og verða þær ekki raktar hér.
    Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. og Þekkingarsetur Þingeyinga unnu og birtu í júní 2009 greinargerð undir heitinu „Náttúruminjasafn Íslands – Rekstur og hýsing Náttúruminjasafns Íslands í samstarfi safna/sýninga, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi“. Þar koma fram hugmyndir um að öflugt netverk náttúruminjasafna muni geta uppfyllt lögbundin markmið safnsins og slíkt netverk geti náð faglegum styrk fyrir lágmarkskostnað.
    Fremst í greinargerðinni birtist eftirfarandi samantekt:
    „Náttúruminjasafn Íslands starfar eftir lögum nr. 35/2007. Til þessa hefur ekki verið komið upp hentugu húsnæði undir safnið. Safnið hefur verið rekið í bráðabirgðahúsnæði við Hlemm í Reykjavík um árabil og safnkostur þess verið á hrakhólum. Þar er nú engin sýning á vegum Náttúruminjasafns Íslands.
    Hugmynd sú sem hér er kynnt snýst um að starfrækja Náttúruminjasafn Íslands með dreifðum hætti með höfuðsetur á Húsavík. Aðrar sýningar á vegum safnsins yrðu settar upp í samstarfi við sýningar- og rannsóknarstarfsemi á völdum stöðum á landinu þar sem horft væri til styrkleika og sérstöðu hvers staðar eða landsvæðis. Safnahúsið á Húsavík myndi hýsa „aðalinngang“ Náttúruminjasafns Íslands auk skrifstofa og yfirlitssýningu með fræðslu og kynningu fyrir safnið. Sýningastarfsemi safnsins yrði staðsett á fleiri stöðum í samstarfi við einstök söfn og sýningar sem flest eru þegar í rekstri. Nálægð við ýmsar náttúruperlur, villt dýralíf og náttúrufyrirbæri gefur gríðarleg tækifæri til að auka á upplifun og fræðslu í tengslum við safnið.
    Mikilvæg forsenda fyrir rekstri Náttúruminjasafns Íslands er náið samstarf við Náttúrufræðistofnun Íslands. Sú hugmynd sem hér er kynnt byggir á því að viðhalda því samstarfi og efla í samstarfi við náttúrurannsóknastofnanir í héraði.
    Fjárhagslega munar mest um það að hægt verður að koma starfseminni af stað og gera safnið sýnilegt án þess að fara út í kostnaðarsamar nýbyggingar í upphafi.
    Í lögum um Náttúruminjasafn Íslands er hvorki kveðið á um ákveðna staðsetningu Náttúruminjasafns Íslands né að sýningar safnsins þurfi allar að vera undir einu þaki.

Ávinningur:
     Fyrir Náttúruminjasafn Íslands
     *      Lögbundin markmið safnsins uppfyllt með sóma strax á árinu 2010.
     *      Faglegur styrkur fyrir lágmarks tilkostnað.

    Fyrir ríkissjóð/þjóðina
     *      Afar hagkvæmur kostur við rekstur/stofnun – ENGIN nýbyggingarþörf í fyrstu skrefum.
     *      Einu af þremur höfuðsöfnum þjóðarinnar komið í sterkan, faglegan farveg til framtíðar.
     *      Úrlausn langvarandi vanda við rekstur og sýningarhald Náttúruminjasafns Íslands.
     *      Raunhæf og sterk aðgerð í atvinnumálum landsbyggðar með lágmarksumróti.
     *      Hvert landsvæði eða staður fær tækifæri til að vinna með sína styrkleika og efla þá starfsemi sem þegar er til staðar í sýningar- og rannsóknarstarfsemi.

    Fyrir Þingeyjarsýslu og önnur svæði
     *      Efling safna og –sýningastarfsemi innan héraðs.
     *      Efling rannsóknastofnana og samstarfs þeirra, innan og utan héraðs.
     *      Atvinnusköpun í héraði, sem byggir á styrkleikum og innviðum svæðisins.“

    Greinargerðina í heild má finna á vefslóðinni: www.hac.is/files/1490640412Greinargerð% 20Náttúruminjasafn%20Íslands.pdf.
    Flutningsmenn taka undir þau sjónarmið sem koma fram í greinargerðinni og telja að með samþykkt tillögunnar verði unnt að uppfylla lögbundin markmið safnsins á árinu 2013 með fullum sóma en lágmarkstilkostnaði.



Fylgiskjal.

Eyþing:

Náttúruminjasafn Íslands.

    Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, harmar þá stöðu sem Náttúruminjasafn Íslands býr við í dag. Víðs vegar um landið er hins vegar rekið metnaðarfullt safna- og sýningarstarf á sviði náttúruminja sem einboðið er að með samstarfi og faglegu utanumhaldi myndi netverk undir merkjum Náttúruminjasafns Íslands. Með því yrði sýningar- og fræðsluhlutverk safnsins í mun nánari tengslum við viðfang sitt – náttúru landsins – en með hefðbundnu sýningarhaldi í einu höfuðsafni. Skorar fundurinn á mennta- og menningarmálaráðherra að taka til efnislegrar skoðunar hugmyndir af þessu tagi sem m.a. er að finna í sérstakri greinargerð sem unnin var af Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og Þekkingarneti Þingeyinga árið 2009 og sendar ráðherra án þess að efnisleg viðbrögð hafi borist.