Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 132. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 659  —  132. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráð trúfélög, nr. 108/1999,
með síðari breytingum (lífsskoðunarfélög, aðild barna
að skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum o.fl.).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Markmið breytinganna með þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar er að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga. Jafnframt er ætlunin að tryggja jafnrétti foreldra barns við ákvörðun um hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn skuli tilheyra. Lögunum er ætlað að tryggja jafnræði lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög á öllum sviðum samfélagsins. Er þetta bæði opið og afar óljóst orðað í frumvarpinu. Einnig má spyrja þeirrar spurningar hvort það sé raunhæft og rétt að leggja lífsskoðunarfélög og trúfélög að jöfnu, sér í lagi þegar erfitt er að draga mörkin við þau lífsskoðunarfélög sem kunna að falla undir skilgreiningu frumvarpsins. Rétt er að draga fram að sérstakri nefnd er ætlað að fjalla um það hvort félög geti fallið undir skilgreiningu frumvarpsins en það undirstrikar hversu matskennt ákvæðið er.
    Í 4. gr. frumvarpsins eru sett fram skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags. Það er álit minni hluta að þau skilyrði sem þar eru sett fram séu of matskennd, óljós og opin og gefi of víðtækt svigrúm til túlkunar. Minni hlutinn tekur jafnframt undir gagnrýni umsagnaraðila í þessum efnum um nauðsyn þess að setja fram skýra skilgreiningu á hugtakinu lífsskoðunarfélag. Vill minni hlutinn m.a. vísa í umsögn biskups Íslands frá í vor um þetta sama mál. Þar segir m.a.:
    „Hugtakið lífsskoðunarfélag er nýtt af nálinni og á við um félag sem sinnir athöfnum sem hingað til hafa einvörðungu verið skilgreind á hinu trúarlega sviði. Um margt eru skilin óljós í milli trúfélags og lífsskoðunarfélags. Með frumvarpinu verður heimilt að skrá lífsskoðunarfélög líkt og trúfélög og veita þeim þau réttindi og skyldur sem skráð trúfélög njóta samkvæmt lögum. Skráning lífsskoðunarfélags á þennan hátt er þekkt frá Noregi, en ekki öðrum Norðurlandanna. Í Noregi eru það sérstök lög sem eiga við um lífsskoðunarfélög.
    Hér er all róttæk breyting, sem stefnt er að með hagsmuni eins félags í huga, félags sem skilgreinir sig með þeim hætti sem lagafrumvarpið gerir og býður upp á athafnir við helstu tímamót ævinnar. Nú munu þær athafnir fá lagastoð með sama hætti og skírn og hjónavígsla á vettvangi trúfélags. Þetta er nýmæli og verður áreiðanlega vandi að ákvarða, þegar fram í sækir og fleiri félög æskja þessa réttar, með hvaða hætti það skuli metið.
    Þrátt fyrir skilgreiningu frumvarpsins í 4. grein má færa rök fyrir því að skilyrði til skráningar séu of opin og illa skilgreind. Frumvarpið kveður á um að til að lífsskoðunarfélög fái skráningu þurfi þau að bjóða upp á athafnir eins og skírn eða nafngiftir, fermingu, hjónavígslu og útför. Í greinargerð segir þó að ekki þurfi félög að bjóða upp á þær allar heldur aðeins hluta þeirra. Þetta þýðir að hvaða félag sem er getur boðið upp á einhvers konar manndómsvígslu og sótt um leyfi.“
    Þótt miklar efasemdir hafi verið settar fram um óljósa skilgreiningu hugtaksins lífsskoðunarfélag og réttmæti þess að leggja trúfélög og lífsskoðunarfélög að jöfnu var lítill vilji til þess meðal meiri hluta nefndarinnar að fara betur yfir málið enda augljós ætlun að knýja málið í gegnum þingið.
    Minni hlutinn telur einnig einsýnt að ætlun meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar ásamt innanríkisráðherra sé að skerða sóknargjöld trúfélaga. Því er minni hluti alfarið andsnúinn. Hefur ekkert annað komið fram af hálfu meiri hluta við umræðu og meðferð frumvarpsins en að menn telji að með frumvarpinu muni þeim einstaklingum sem ríkissjóður greiðir sóknargjöld með (eða ígildi þeirra) fjölga vegna lífsskoðunarfélaga. Munu lífsskoðunarfélög, miðað við skilning meiri hluta, sjálfkrafa við skráningu öðlast þau réttindi og skyldur sem skráð trúfélög hafa samkvæmt lögum. Lífsskoðunarfélög munu þá fá greidd framlög úr ríkissjóði sambærileg sóknargjöldum fyrir skráða félaga sem eru 16 ára og eldri í stað þess að fjármagna sig af sjálfsaflafé. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir hækkun á þessum útgjaldalið. Potturinn er sá sami enda er þetta ítrekað í umsögn fjárlagaskrifstofunnar:
    „Vegna mikils halla sem er á ríkisrekstrinum um þessar mundir og stefnumörkunar um að afkoman nái jafnvægi eftir tvö ár þarf að leitast við að sporna gegn nýjum útgjöldum af þessum toga sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í útgjaldaramma innanríkisráðuneytisins. Í tengslum við þetta frumvarp mætti gera ráð fyrir að því yrði náð fram með því að lækka einingaverðsviðmiðun framlaga vegna sóknargjalda þannig að heildarútgjöldin verði óbreytt þótt einstaklingum í trúfélögum og lífsskoðunarfélögum fjölgi.“
    Þetta er skýrt. Fjármála- og efnahagsráðuneytið gerir ráð fyrir lækkun á sóknargjöldum vegna tilkomu lífsskoðunarfélaga.
    Þar fyrir utan virðist nálgun fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnaahagsráðuneytis vera umdeilanleg. Vill minni hluti benda m.a. á ummæli kristilegu félagasamtakanna KFUM og KFUK um umsögn fjárlagaskrifstofunnar en samtökin benda í umsögn sinni á að um grófan misskilning sé að ræða eða jafnvel beinar rangfærslur um eðli sóknargjalda og innheimtu þeirra.
    Benda KFUM og KFUK á bráðabirgðaskýrslu nefndar innanríkisráðherra sem ætlað var að meta áhrif niðurskurðar fjárveitinga á starfsemi þjóðkirkjunnar, dags. 16. nóvember 2011, máli sínu til stuðnings. Í umsögn KFUM og KFUK segir m.a. um bráðabirgðaskýrsluna:
    „Hér kemur skýrt fram að litið er á sóknargjöld sem félagsgjöld sem ríkið hefur tekið að sér að innheimta en ekki framlög úr ríkissjóði með „einstaklingum sem ríkissjóður greiðir sóknargjöld með (sic!).“ Fráleitt er að gefa í skyn að hér sé um einhverjar „meðlagsgreiðslur“ að ræða.
    Eins og ljóst er af framangreindri bráðabirgðaskýrslu var á sínum tíma ekki ásetningur ríkisvaldsins með breyttu innheimtufyrirkomulagi að skerða tekjustofna sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga, heldur gera innheimtu þeirra einfaldari fyrir ríkissjóð. Það er því fráleitt að stilla þessu upp eins og fjármálaskrifstofa fjármálaráðuneytisins gerir. Auk þess getur það tæpast verið í anda frumvarpsins, sem er að jafna stöðu trúfélaga og lífsskoðanafélaga, að skerða tekjur þeirra trúfélaga sem fyrir eru og þar með vega að starfsgrundvelli þeirra, með jafn óforskömmuðum hætti og álitsgerð fjármálaskrifstofunnar gerir ráð fyrir.
    Þessu til viðbótar er ástæða til að minna á skýrslu til innanríkisráðherra frá nefnd sem ætlað var að meta áhrif niðurskurðar fjárveitinga á starfsemi kirkjunnar, dags. 30. apríl 2012. Þar kemur fram að þjóðkirkjan hefur tekið á sig 25% meiri skerðingu en aðrir vegna niðurskurðar í tengslum við aðgerðir eftir hrunið ...
    Að óreyndu verður því ekki trúað að það sé ásetningur hins háa Alþingis að vega svo gróflega að starfi safnaðanna um allt land sem stefnir í ef forsendur í álitsgerð fjárhagsnefndar verða látnar ráða för.“
    Tekur minni hluti undir þessi sjónarmið.
    Minni hlutinn vill jafnframt árétta að menning okkar og saga einkennist og mótast mjög af kristni. Þetta frumvarp er angi af þeirri viðleitni stjórnvalda að draga úr mikilvægi kirkju og kristni. Ef við ætlum að umbylta þeim grunni sem kristni er fyrir íslenskt samfélag þarf mun meiri og dýpri umræðu. Um leið og við Íslendingar undirstrikum stjórnarskrárbundna reglu okkar um trúfrelsi viðurkennum við einnig að við erum kristin þjóð. Og við viðurkennum auðveldlega þá sögulegu, trúarlegu og siðferðilegu þróun sem kristnin hefur haft á íslenska þjóð, tungu okkar og menningu.
    Íslensk saga, menning og þau gildi sem íslenskt þjóðfélag byggist á eru samofin hinni kristnu arfleifð. Telur minni hlutinn brýnt að þessi sjónarmið séu virt þegar lög eru sett.

Alþingi, 29. nóvember 2012.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir.