Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 409. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 687  —  409. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar
um umferð og framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.

    
     1.      Hefur verið gert heildstætt umferðarmódel, flæðilíkan, af höfuðborgarsvæðinu?
    Vegagerðin og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa haft samvinnu um gerð umferðarlíkans af svæðinu um langan tíma, a.m.k. í þrjá áratugi. Tækni við gerð slíkra líkana er alltaf að verða fullkomnari. Mikið átak var gert í þessum málaflokki áður en svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins árið 2002 var gefið út. Síðan þá hafa ný tölvuforrit komið á markað og verið notuð við endurskoðun umferðarspáa. Meginforsendur í slíkum spám eru fyrirliggjandi skipulagsáætlanir sveitarfélaganna hverju sinni. Reykjavíkurborg, sem stærsta sveitarfélagið, hefur einnig átt frumkvæði að gerð umferðarspáa fyrir mismunandi skipulagsáætlanir, m.a. vegna vinnu við endurskoðun aðalskipulags borgarinnar.

     2.      Hefur verið tekinn saman listi yfir allar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin tíu ár og kostnað vegna þeirra, og ef svo er, hverjar eru þær og hver var kostnaðurinn?
    Kostnaður vegna framkvæmda í Reykjavík árin 2003–2012 er 8.754 millj. kr. á verðlagi 2012. Um framkvæmdir er tekin saman sérstök skýrsla, skýrsla ráðherra um framkvæmd samgönguáætlunar og tiltekinna undiráætlana hennar. Í henni kemur fram ráðstöfun allra fjárveitinga sem Alþingi hefur falið Vegagerðinni ábyrgð á. Sérstakur listi eins og sá sem hér er vikið að hefur ekki verið tekinn saman.

     3.      Hvað er umferð á höfuðborgarsvæðinu stór hluti umferðar á landinu?
    Áætlað hefur verið að umferð á þjóðvegum á höfuðborgarsvæðinu sé um 30–40% af heildarumferð á þjóðvegum landsins.

     4.      Hafa fyrirhugaðar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu næstu fjögur árin verið listaðar upp og ef svo er, hverjar eru þær?
    Samkvæmt núgildandi samgönguáætlun fyrir árin 2011–2014 og fyrirliggjandi tillögum að samgönguáætlun fyrir árin 2013–2016 verða helstu framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu þessar:
          Álftanesvegur frá Hafnarfjarðarvegi að Bessastaðavegi á árunum 2012–2014.
          Arnarnesvegur frá Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi á árunum 2014–2015.
          Ýmsar aðgerðir til að auka umferðaröryggi og greiða fyrir almenningsvögnum.
          Gerð brúa og undirganga fyrir umferð gangandi og hjólandi og styrkir til sveitarfélaga til göngu- og hjólastíga.

     5.      Hve miklu fé er áætlað að verja í viðhald á vegum á höfuðborgarsvæðinu næstu fjögur árin?
    Árlega er áætlað að sumar- og vetrarþjónusta á höfuðborgarsvæðinu kosti um 500 millj. kr., að auki verði varið um 450 millj. kr. til viðhalds, þar af tæpum 400 millj. kr. til endurnýjunar slitlaga.

     6.      Hver er áætlun Vegagerðarinnar um uppsetningu vegriða á milli akreina og á hættulegum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og hvenær á þeirri áætlun að ljúka?
    Á undanförnum árum hafa verið sett upp vegrið á milli akbrauta á höfuðborgarsvæðinu þar sem umferðarhraði er mestur. Á þetta við um Vesturlandsveg frá Skarhólabraut að vegamótum við Suðurlandsveg og áfram niður Ártúnsbrekku að Reykjanesbraut, Miklubraut frá Lönguhlíð vestur fyrir Snorrabraut, Hafnarfjarðarveg frá Listabraut að Vífilsstaðavegi og á Reykjanesbraut frá Bústaðavegi að Vífilsstaðavegamótum og einnig frá Kaplakrika suður fyrir Kaldárselsveg.
    Áætlanir Vegagerðarinnar miðast við að ljúka uppsetningu vegriða á Reykjanesbraut í Garðabæ á árinu 2013 og hefja það ár uppsetningu á Reykjanesbraut sunnan Straumsvíkur. Miðað við fjárveitingar má gera ráð fyrir að lokið verði uppsetningu vegriðs í vegmiðju suður að Fitjum á árunum 2015–2016.
    Kostnaðaráætlun miðast við einfalt víravegrið að mestu leyti. Einstaka kafli gæti þó verið með tvöföldu vegriði vegna hæðarmunar á milli akbrauta. Laga þarf innri fláa á nokkrum köflum. Heildarkostnaður við uppsetningu vegriðsins er áætlaður um 350 millj. kr.
    Ekki liggja fyrir sundurliðaðar áætlanir um uppsetningu vegriða á hættulegum stöðum til hliðar við veg, þar sem „miðju“-vegrið hafa verið í forgangi. Einstaka vegriðsbútar hafa þó verið settir upp, t.d. við hættulegar undirstöður skiltabrúa og á slíkum stöðum. Þörfin er mikil og er unnið að heildarkostnaðaráætlun, en þeirri vinnu er ekki lokið.