Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 412. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 688  —  412. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um stöðu löggæslumála.


     1.      Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í löggæslu- og öryggismálum og hvernig hyggst hún framfylgja þeirri stefnu?
    Ráðuneytið hefur unnið að gerð stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum og reiknað er með að stefnan liggi fyrir á næstu vikum.
    Löggæslumálefni sæta nú endurskoðun í ljósi niðurskurðar og frumvarps ráðherra um fækkun og stækkun lögregluumdæma. Á vegum ráðuneytisins eru starfandi vinnuhópar sem í eiga sæti fulltrúar lögreglunnar og hafa það að markmiði að skilgreina og greina ýmsa þætti er varða löggæslu, svo sem verkefni lögreglu, fjármál, starfsmannamál o.fl. Þá stendur yfir vinna við að leggja mat á árangur af löggæsluáætlun fyrir árin 2007–2011. Til stendur að vinna nýja löggæsluáætlun í samræmi við samþykkta þingsályktunartillögu frá 19. júní 2012 um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland.

     2.      Hver er kostnaður ríkissjóðs af nýskipan lögreglumála sem ráðist var í með breytingum á skipulagi lögreglunnar árið 2007, sundurliðað eftir lögregluembættum?
    Sú forsenda var m.a. gefin við undirbúning nýskipunar lögreglu árið 2007 að fjárveitingar til lögregluumdæma skyldu ekki breytast og breytingarnar ekki leiða til aukinna útgjalda. Það gekk eftir.

     3.      Hver hefur niðurskurður verið til löggæslumála frá árinu 2007?
    Niðurskurður til löggæslumála, þ.e. löggæsluhluta sýslumannsembætta að viðbættu embætti ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á Suðurnesjum og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið um 2,7 milljarðar kr. frá árinu 2007, eða u.þ.b. 25%, samkvæmt verðlagi í september 2012, sjá mynd.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     4.      Hver var fjöldi starfandi lögreglumanna árin 1998–2012, sundurliðað árlega eftir lögregluembættum?
    Fram til ársins 2002 voru aðeins birtar upplýsingar um samþykkt stöðugildi en það veitir ekki upplýsingar um það hver eiginlegur fjöldi lögreglumanna á þeim tíma var. Því má sjá í töflum hér á eftir fjölda lögreglumanna frá árinu 2002 til 2012, annars vegar töflu 1 fyrir tímabilið 2002–2006 og hins vegar töflu 2 fyrir tímabilið 2007–2012.

Tafla 1. Fjöldi starfandi lögreglumanna árin 2002–2006
(héraðslögreglumenn ekki taldir með).

Lögregluembætti 2002 2003 2004 2005 2006
Akranes 12 12 12 12 13
Akureyri 31 30 31 30 30
Blönduós 7 6 6 7 7
Bolungarvík 2 2 2 2 2
Borgarnes 8 8 8 8 8
Búðardalur 1 1 1 2 1
Eskifjörður 9 9 10 11 11
Hafnarfjörður 40 40 39 40 41
Hólmavík 2 2 2 2 2
Húsavík 9 9 11 9 9
Hvolsvöllur 4 3 6 5 6
Höfn 3 4 4 4 3
Ísafjörður 14 13 13 13 14
Keflavíkurflugvöllur 52 47 47 47 54
Keflavík 37 37 36 36 35
Kópavogur 27 28 26 31 31
Lögregluskóli ríkisins 7 8 8 8 9
Ólafsfjörður 2 2 2 2 2
Patreksfjörður 4 4 4 4 4
Reykjavík 283 282 271 276 272
Ríkislögreglustjórinn 54 59 59 73 86
Sauðárkrókur 8 9 9 8 9
Selfoss 26 28 28 26 26
Seyðisfjörður 8 7 7 7 8
Siglufjörður 4 4 4 5 3
Snæfellsnes 8 9 9 9 9
Vestmannaeyjar 12 12 13 13 12
Vík 4 3 3 3 3
Samtals 678 678 671 693 710


Tafla 2. Fjöldi starfandi lögreglumanna árin 2007–2012
(héraðslögreglumenn og sérstakur saksóknari ekki með).

Lögregluembætti 2007 2008 2009 2010 2011 2012
Akranes 13 8 13 10 9 9
Akureyri 37 37 41 34 31 32
Blönduós 7 7 6 6 6 5
Borgarnes 9 9 9 9 10 8
Eskifjörður 16 15 14 15 14 14
Húsavík 10 9 9 11 8 8
Hvolsvöllur 8 7 11 10 8 8
Höfuðborgarsvæðið 339 298 319 308 310 303
Lögregluskóli ríkisins 9 9 9 8 8 7
Ríkislögreglustjórinn 94 89 92 87 85 79
Sauðárkrókur 9 9 9 8 8 7
Selfoss 25 25 30 26 27 27
Seyðisfjörður 11 10 12 8 7 7
Snæfellsnes 8 10 7 7 8 6
Suðurnes 85 82 96 85 85 77
Vestfirðir 20 23 24 21 18 19
Vestmannaeyjar 12 13 11 8 10 8
Samtals 712 660 712 661 652 624

     5.      Hefur starfsstöðvum lögreglu í landinu fækkað frá árinu 2000 og ef svo er hverjum þeirra hefur verið lokað og hvers vegna?
    Alls hefur 11 starfsstöðvum lögreglu verið lokað frá árinu 2000 en tvær nýjar starfsstöðvar verið teknar í notkun á sama tíma. Á landsbyggðinni var sex starfsstöðvum lokað vegna sparnaðar á eftirtöldum stöðum:
          Bolungarvík,
          Ólafsfirði (í kjölfar Héðinsfjarðarganga),
          Raufarhöfn,
          Seyðisfirði (starfsstöð á Egilsstöðum efld),
          Suðurnesjum (starfsstöð ríkislögreglustjóra),
          Þorlákshöfn.
    Á höfuðborgarsvæðinu var fimm litlum svæðisstöðvum lokað á eftirtöldum stöðum vegna fjárhagslegrar hagræðingar og faglegrar endurskipulagningar:
          Seltjarnarnesi,
          Mosfellsbæ,
          Grafarvogi,
          Breiðholti,
          Garðabæ.
    Í tengslum við faglega endurskipulagningu á höfuðborgarsvæðinu voru tvær nýjar starfsstöðvar teknar í notkun, annars vegar á Grensásvegi og hins vegar að Krókhálsi.

     6.      Hefur yfirstjórn löggæslunnar í landinu vakið athygli innanríkisráðuneytis á ástandi löggæslumála, þ.e. fækkun lögreglumanna, minnkandi fjárheimildum, lokun lögreglustöðva o.s.frv.? Hvernig hefur ráðuneytið brugðist við slíkum ábendingum?
    Lögreglustjórar eiga ávallt fund með embættismönnum ráðuneytisins áður en rekstraráætlun er skilað og oftar ef þörf krefur. Lögreglustjórar hafa vakið athygli ráðuneytisins á erfiðri stöðu lögreglunnar og ráðuneytið brugðist við með því að reyna að takmarka niðurskurð eftir fremsta megni og lágmarka áhrif þess niðurskurðar sem ráðuneytinu er gert að sæta. Þá hefur ráðherra lagt fram frumvarp til breytinga á lögreglulögum þar sem gert er ráð fyrir að fækka lögregluembættum og stækka þau, m.a. með það að markmiði að lágmarka neikvæð áhrif niðurskurðar í ríkisfjármálum. Þá er verið að vinna að því í tengslum við sameiningu lögregluembætta að skoða verkefni lögreglunnar og skilgreina þjónustu hennar.