Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 455. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 742  —  455. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Erlingsdóttur
um kennslu og stuðning framhaldsskóla við nemendur með sérþarfir.


     1.      Er upplýsingum um kennslu og stuðning framhaldsskóla við nemendur með sérþarfir safnað saman á skipulegan hátt? Ef svo er, hver annast upplýsingasöfnunina?
    Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 235/2012, um upplýsingaskyldu framhaldsskóla um skólahald, aðra kerfisbundna skráningu og meðferð persónuupplýsinga um nemendur, er framhaldsskólum skylt að varðveita upplýsingar um nám nemenda og veita mennta- og menningarmálaráðuneyti upplýsingar tvisvar á ári, en skv. 3. gr. er um að ræða upplýsingar m.a. um námsferil og árangur nemenda. Skv. 5. gr. sömu reglugerðar ber skólameistari ábyrgð á meðferð og vörslu upplýsinga og að skólinn uppfylli lagalegar kröfur sem gerðar eru til ábyrgðaraðila samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og laga um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985. Námsferlar nemenda í framhaldsskólum eru skráðir í námsferilskerfi. Af hálfu ráðuneytisins er ekki farið fram á samræmda skráningu á nemendum með sérþarfir og því hefur ráðuneytið ekki upplýsingar um hvort hægt er að kalla fram upplýsingar um þessa nemendur sem hóp. Nemendur í framhaldsskólum njóta ýmiss konar kennslu og stuðnings sem einstaklingar þótt þeir sæki mögulega stuðningstíma eða sitji í áföngum sem ætlaðir eru nemendum sem þarfnast lengri tíma til að ljúka námi en aðrir.

     2.      Hvernig haga framhaldsskólarnir kennslu og stuðningi við nemendur með sérþarfir, t.d. nemendur með sértækar málþroskaraskanir, athyglisbrest (ADD), athyglisbrest með ofvirkni (ADHD) og lesblindu (dyslexíu)?
    Flestir framhaldsskólar bjóða upp á svokallaðar hægferðir í námi sem nýtast nemendum með sérþarfir almennt vel. Í reglugerð um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum, nr. 230/2012, segir í 5. gr. að nemendur í framhaldsskólum eigi rétt á að veitt sé skimun og greining á leshömlun ásamt eftirfylgni og stuðningi í námi eftir því sem þörf krefur. Almennt bjóða framhaldsskólar nemendum með sértæka námserfiðleika stuðning í formi lengri próftíma, notkun litaðra prófblaða, að texti prófa sé lesinn fyrir nemendur og jafnvel að nemendur taki próf einir í prófstofu eða taki munnleg próf. Allir framhaldsskólar bjóða upp á náms- og starfsráðgjöf og algengt er að náms- og starfsráðgjafar styðji nemendur með sérþarfir, bæði hvern einstakling og í hópum. Mennta- og menningarmálaráðuneyti gerir skólasamninga við framhaldsskóla sem endurskoðaðir eru reglulega. Í markmiðakafla slíkra samninga er framhaldsskólum gert að tilgreina þau markmið sem skólarnir setja sér um stuðning við nemendur með sérþarfir. Þjónustusamningarnir eru opinber gögn sem eru aðgengileg á heimasíðum framhaldsskóla og ráðuneytis. Reglulega framkvæmir ráðuneytið úttektir á framhaldsskólum þar sem finna má upplýsingar um kennslu og stuðningsþjónustu skóla. Þær úttektir eru opinberar og aðgengilegar á heimasíðu ráðuneytisins.

     3.      Hvernig leggja framhaldsskólarnir mat á sérþarfir nemenda sem ekki hafa verið metnir af viðurkenndum greiningaraðilum áður en þeir innritast í framhaldsskóla?
    Samkvæmt 10. gr. reglugerðar nr. 230/2012, um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum, skulu framhaldsskólar vinna árlega áætlun um stuðning í námi og kennslu í samræmi við metnar sérþarfir nemenda. Liggi greining eða upplýsingar frá þar til bærum aðilum ekki fyrir, er það framhaldsskólans að leita leiða með nemanda og/eða forráðamönnum hans um að fá greiningu eða viðeigandi upplýsingar svo veita megi nemandanum þjónustu við hæfi.