Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 67. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 767  —  67. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um lækningatæki, nr. 16/2001,
með síðari breytingum (gjaldtaka, skráning o.fl.).

(Eftir 2. umræðu, 19. desember.)


1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      1. tölul. orðast svo: Lækningatæki: Hvert það verkfæri, búnaður, áhald, hugbúnaður, efni eða annar hlutur, hvort sem notað er eitt sér eða með öðru, þ.m.t. sá hugbúnaður sem framleiðandi ætlar sérstaklega til notkunar við greiningu eða meðferð og er nauðsynlegur til að beita tækinu rétt, ætlað af framleiðanda til notkunar fyrir menn til þess að:
              a.      greina, hindra, hafa eftirlit með, meðhöndla eða lina sjúkdóma,
              b.      greina, hafa eftirlit með, meðhöndla, draga úr eða bæta líkamstjón, fötlun eða skerta getu,
              c.      rannsaka, breyta eða koma í stað líffæris eða lífeðlislegrar starfsemi,
              d.      stjórna þungun,
             en gegnir ekki meginhlutverki sínu í eða á mannslíkamanum með aðferðum er varða lyfjafræði, ónæmisfræði eða efnaskipti, en styðja má verkun þess með slíkum aðferðum.
                      Ef vafi leikur á hvort tæki eða hlutur telst lækningatæki sker Lyfjastofnun úr um það.
     b.      Í stað orðsins „tækjum“ í 3. tölul. kemur: lækningatækjum.

2. gr.

    Í stað orðsins „hæfni“ í 7. gr. laganna kemur: hæfi.

3. gr.

     Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aðilum sem standa að innkaupum á lækningatækjum til Íslands frá Evrópska efnahagssvæðinu, hvort sem er til nota á eigin starfsstöð eða til dreifingar, er skylt að skrá lækningatæki hjá Lyfjastofnun. Lyfjastofnun skal halda skrá yfir aðila skv. 1. málsl. og þau lækningatæki sem um ræðir.

4. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo: Með eftirliti er annars vegar átt við markaðseftirlit, þ.e. eftirlit með því að lækningatæki sem tekin eru í notkun eða markaðssett á Íslandi uppfylli öryggiskröfur og kröfur um merkingar skv. 5. gr., og hins vegar eftirlit með því að viðhaldi lækningatækja sé sinnt og eftirlit með notkun lækningatækja.

5. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Vegna skráningar lækningatækja, sbr. 8. gr., og markaðseftirlits Lyfjastofnunar með lækningatækjum á markaði, sbr. 1. mgr. 10. gr., sem stofnunin framkvæmir eða lætur framkvæma skulu innflytjendur og innlendir framleiðendur greiða eftirlitsgjald af lækningatækjum sem eru eftirlitsskyld og flokkast undir tollskrárnúmer sem eru talin upp í viðauka við lög þessi. Vegna innfluttra lækningatækja skal gjaldið vera 0,75% af tollverði vöru en við álagningu gjaldsins á innlenda framleiðslu skal gjaldið vera 0,75% af söluverði vöru frá framleiðanda. Tollstjóri leggur gjaldið á innfluttar vörur en ríkisskattstjóri á innlenda framleiðslu. Að því leyti sem ekki er ákveðið í lögum þessum um skilgreiningu gjaldstofns, álagningu, innheimtu, tilhögun bókhalds, eftirlit, viðurlög og aðra framkvæmd varðandi eftirlitsgjald af lækningatækjum skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði tollalaga, nr. 88/2005, með síðari breytingum, að því er varðar innflutt lækningatæki og ákvæði laga nr. 97/1987, um vörugjald, um lækningatæki sem framleidd eru innan lands. Álagningaraðila eftirlitsgjalds er heimilt að fella niður álagningu eftirlitsgjalds lækningatækja sem flokkast undir tollskrárnúmer sem eru talin upp í viðauka við lög þessi berist tilkynning frá Lyfjastofnun þess efnis að viðkomandi tæki sé ekki eftirlitsskylt samkvæmt lögum þessum. Lækningatæki sem eru seld úr landi eru ekki gjaldskyld. Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari fyrirmæli um framkvæmd innheimtu eftirlitsgjalds lækningatækja.
    Lyfjastofnun er heimilt að innheimta gjald vegna mats á umsóknum um klínískar prófanir á lækningatækjum, sbr. 9. gr., samkvæmt gjaldskrá er ráðherra setur að fengnum tillögum Lyfjastofnunar. Gjaldskráin skal taka mið af kostnaði við þjónustuna og framkvæmd verkefna.

6. gr.

    2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Ákvarðanir Lyfjastofnunar má kæra til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

7. gr.

    Á eftir orðunum „klínískar prófanir“ í 14. gr. laganna kemur: viðhald.

8. gr.

    Við lögin bætist nýr viðauki sem orðast svo:
    Af vörum í eftirgreindum tollskrárnúmerum skal greiða eftirlitsgjald af lækningatækjum í samræmi við 12. gr.:

3005-1000 3306-2000 8713-9010 9018-4900 9022-1200
3005-9000 3306-9011 8713-9090 9018-5000 9022-1300
3006-1000 3306-9019 9018-1100 9018-9000 9022-1400
3006-2000 3306-9020 9018-1200 9019-1090 9022-2100
3006-4001 3307-9001 9018-1300 9019-2000 9025-1101
3006-4002 4014-1001 9018-1400 9021-1000 9025-1900
3006-4009 4014-1009 9018-1900 9021-2100 9402-1010
3006-5000 4014-9000 9018-2000 9021-2900 9402-9000
3006-6000 4015-1100 9018-3100 9021-3900 9619-0011
3006-7000 7017-2000 9018-3200 9021-4000 9619-0012
3006-9100 7017-9000 9018-3900 9021-5000 9619-0019
3306-1000 8713-1000 9018-4100 9021-9000 9619-0090

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.