Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 527. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 820  —  527. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsókn á einkavæðingu bankanna, hinni síðari.


Flm.: Vigdís Hauksdóttir.



    Alþingi ályktar, í samræmi við lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd er rannsaki slita- og skilameðferð Landsbanka Íslands hf., Glitnis og Kaupþings banka hf.
    Nefndin greini frá og geri opinbert, á sundurliðaðan hátt, hvert matsverð hinna sömu eigna var við flutning þeirra frá hinum föllnu bönkum, Landsbanka Íslands hf., Glitni og Kaupþingi banka hf., yfir til nýju bankanna, NBI hf. (síðar Landsbankans hf.), Íslandsbanka hf. og KBI hf. (síðar Arion banka hf.), og hverjir voru ábyrgðaraðilar þess verðmats og hvaða forsendur lágu því til grundvallar.
    Nefndin fjalli einnig um viðamestu sölu einstakra félaga og eignarhluta í félögum af hendi slitastjórna og skilanefnda Landsbanka Íslands hf., Glitnis og Kaupþings banka hf. og NBI hf. (nú Landsbankans hf.), Íslandsbanka hf. og KBI hf. (nú Arion banka hf.). Þannig skal upplýst hvaða verðmætamat lá til grundvallar, hvernig staðið var að vali á kaupendum, hvernig kaupin voru fjármögnuð af kaupendum og hvaða seljendaáhættur fylgdu sölunni.
    Nefndin upplýsi nánar um undirbúning og framkvæmd löggjafar um skila- og slitameðferð bankanna sem sett var í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og þá stefnu og viðmið sem lágu til grundvallar þeirri lagasetningu. Þá leggi hún fram tillögur til úrbóta telji hún þörf á.
    Nefndin leggi mat á þær afleiðingar sem slita- og skilameðferð bankanna og reglur þar um höfðu fyrir íslenskt samfélag.
    Nefndin geri eftir atvikum ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og geri jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu sinni til Alþingis.
    Rannsóknarnefndin skili forseta Alþingis skýrslu um rannsóknina eigi síðar en 15. mars 2014 ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar.

Greinargerð.

    Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir, segir að forseti Alþingis skipi rannsóknarnefnd ef Alþingi samþykkir ályktun þar um. Gert er að skilyrði í ákvæðinu að um sé að ræða mikilvæg mál sem almenning varða. Ljóst er að rannsókn á síðara einkavæðingarferli bankanna er slíkt málefni. Alþingi samþykkti nýlega að láta fara fram rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. (þingskjal 455, 50. mál). Í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um það mál kemur m.a. fram að mikilvægt sé að fá niðurstöðu um ferlið við einkavæðingu þannig að unnt sé að draga lærdóm af því. Hið sama á við um þá rannsókn sem hér er gerð tillaga um og jafnvel mætti segja að hér sé um að ræða enn mikilvægara mál sem almenning varðar.
    Sú skoðun er útbreidd að því valdi sem rannsóknarnefndum Alþingis er falið skuli beitt varlega og að stjórnmálum skuli ekki blandað saman við rannsókn á mikilvægum málum sem almenning varða sem tengjast meðferð opinbers valds með einhverjum hætti. Gjarnan eru slík úrræði notuð til að rannsaka meintar misfellur eða brot sem eiga sér stað í stjórnsýslunni og eru álitin það mikilvæg að þau kalli á sérstaka rannsókn. Ekki á undir neinum kringumstæðum að nota þetta vald til að ná sér niður á pólitískum andstæðingum við ríkisstjórnarskipti. Það er ekki í anda laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir.
    Efni tillögu þessarar er sambærilegt við breytingartillögu sem lögð var fram um framangreinda tillögu um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Í áliti 1. minni hluta er rökstuðningur fyrir framlagningu breytingartillögunnar settur fram og skýrður. Þar segir m.a.
    „Öll rök hníga í þá átt að fyrri einkavæðing bankanna verði ekki rannsökuð nema seinni einkavæðing bankanna verði rannsökuð samhliða sérstaklega í ljósi þess að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar frá 23. maí 2007 var stefnt að því að „tryggja að fjármálastarfsemi gæti vaxið áfram hér á landi og að fjármálafyrirtækin gætu sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sæju sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar sínar hérlendis.“ Í 5. kafla skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á 138. löggjafarþingi (þskj. 1501, 705. mál), kemur fram að þessari stefnu yfirvalda hafi ekki verið ekki breytt opinberlega fyrir hrun bankanna í október 2008. Seinni einkavæðing bankanna var framkvæmd á nokkurrar umræðu á Alþingi og án þess að breytingar hefðu verið gerðar á starfsumhverfi banka og annarra fjármálafyrirtækja eða lögum um fjármálafyrirtæki í kjölfar hrunsins síðla árs 2009. Þess skal getið að Glitnir var einkarekinn allt fram að hruni eða þar til ríkið tók hann yfir og hann varð að ríkisbanka. Á haustdögum 2010 var tekin sú ákvörðun að umsvifalaust voru lánardrottnum Kaupþings og Glitnis afhentir nýju bankarnir, sem stofnaðir voru á grunni hinna gjaldþrota gömlu banka og heita í dag Íslandsbanki og Arion banki. Meiri hluti Landsbankans er enn í eigu ríkisins. Var þessi ákvörðun tekin án nokkurs faglegs mats, verðmats eða útboðs.“
    Framangreind breytingartillaga hlaut ekki samþykki en við umræður á þingi var boðað að lögð yrði fram tillaga til þingsályktunar um sambærilegt efni. Hlaut það nokkurn hljómgrunn þingmanna. Hér er þó lögð til nokkuð frábrugðin og viðameiri rannsókn en þar er greint frá. Lagt er til að fram fari rannsókn og gert opinbert, á sundurliðaðan hátt, hvert matsverð hinna sömu eigna var við flutning þeirra frá hinum föllnu bönkum, Landsbanka Íslands hf., Glitni og Kaupþingi banka hf., yfir til nýju bankanna, NBI hf. (síðar Landsbankans hf.), Íslandsbanka hf. og KBI hf. (síðar Arion banka hf.), og skýrt dregið fram hverjir voru ábyrgðaraðilar þess verðmats og hvaða forsendur lágu því til grundvallar. Einnig fari fram rannsókn á viðamestu sölum einstakra félaga og eignarhluta í félögum af hendi slitastjórna og skilanefnda Landsbanka Íslands hf., Glitnis og Kaupþings banka hf. og KBI hf. (nú Arion banka hf.), NBI hf. (nú Landsbankans hf.) og Íslandsbanka hf. Þannig skal upplýst hvaða verðmætamat lá til grundvallar, hvernig staðið var að vali á kaupendum, hvernig kaupin voru fjármögnuð af kaupendum og hvaða seljendaáhættur fylgdu sölunni. Mikilvægt er að fá skýra mynd af þessum þáttum en ekki er gert ráð fyrir því að nefndin tiltaki og rannsaki allar sölur heldur beini sjónum sínum að þeim viðamestu og áhrifamestu.
    Nefndinni er auk þess falið að upplýsa nánar um undirbúning og framkvæmd löggjafar um skila- og slitameðferð bankanna sem sett var í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og þá stefnu og viðmið sem lágu til grundvallar þeirri lagasetningu. Þá leggi hún fram tillögur til úrbóta telji hún þörf á. Ljóst er að lögum var breytt í kjölfar hrunsins og ákvæðum er varða slita- og skilameðferð hefur jafnframt verið breytt nokkrum sinnum síðan þá. Mikilvægt er að fara yfir þá lagasetningu, undirbúning hennar, framkvæmd og endurskoðun svo unnt sé að læra af því ferli. Telji nefndin að breyta þurfi lögum er enn fremur brýnt að hún geri tillögur þar um. Nefndin leggi mat á þær afleiðingar sem framkvæmd einkavæðingar bankanna, slita- og skilameðferð hafði fyrir íslenskt samfélag. Þá telja flutningsmenn tillögunnar mikilvægt að gerð verði nákvæm málsatvikalýsing varðandi ferlið allt frá hruni.
    Nefndin geri eftir atvikum ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og geri jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu sinni til Alþingis.
    Þá er nefndinni jafnframt falið að rannsaka og svara eftirfarandi rannsóknarspurningum:
Hvaða markmið, stefna og viðmið lágu til grundvallar lagasetningu um slita- og skilameðferð bankanna, hverjir báru ábyrgð á þeirri stefnumótun og að hve miklu leyti var stefnunni fylgt við framkvæmdina og lagasetninguna?
    Hvernig var og er háttað eftirliti með framkvæmd laganna og slita- og skilameðferð bankanna? Hverjum ber að hafa eftirlit með framkvæmdinni og að hún sé í samræmi við lög og stefnu? Var leitað ráða hjá erlendum sérfræðingum varðandi stefnumótun, lagasetningu og framkvæmd?