Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 371. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 910  —  371. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um
verð og álagningu á efni til raforkuflutnings.

    
     1.      Hver er álagning í vörugjöldum og öðrum innflutningsgjöldum og virðisaukaskatti á línur og efni til rafstrengja í jörð?
    Einangraðir rafmagnsleiðarar fyrir meira en 1000 V spennu falla undir tollskrárnúmerið 8544.6000. Það tollskrárnúmer ber 0,15% gjald af eftirlitsskyldum rafföngum, 15% vörugjald, 25,5% virðisaukaskatt auk úrvinnslugjalds á umbúðir. Samkvæmt innflutningsskýrslum nam innflutningur í þessu tollskrárnúmeri 778 millj. kr. á árinu 2011. Álagt vörugjald hefur samkvæmt því numið tæplega 117 millj. kr. og eftirlitsgjald liðlega 1 millj. kr. Þá má ætla að virðisaukaskattur af endanlegri sölu á umræddri vöru hafi numið nálægt 300 millj. kr.

     2.      Hvert er verð á kílómetra í jarðstrengjum annars vegar og loftlínum hins vegar eftir flutningsgetu?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki upplýsingar um verð á jarðstrengjum eða loftlínum.

     3.      Hver eru tilsvarandi innflutningsgjöld, tollar, virðisaukaskattur og önnur gjöld á flutningslínur raforku með loftstreng?
    Vír sem er án rafmagnseinangrunar fellur undir tollskrárnúmerið 7312.1000 og ber auk úrvinnslugjalds 25,5% virðisaukaskatt. Þessi vara ber ekki vörugjald. Samkvæmt innflutningsskýrslum nam innflutningur í þessu tollskrárnúmeri 569 millj. kr. Áætlað er að virðisaukaskattur af endanlegri sölu vörunnar nemi nálægt 200 millj. kr.

     4.      Ef hér er mismunun á eða ef ríkið innheimtir veruleg gjöld af rafflutningsefni, stendur til að það verði lagfært eða gjöldin lækkuð?

    Ekki eru uppi áform um breytingar á gjaldtöku af rafflutningsefnum sem stendur.