Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 426. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 920  —  426. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um
skattálögur og höfuðstól íbúðalána.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hafa skattálögur ríkisstjórnarinnar á árunum 2009–2012 hækkað höfuðstól íbúðalána með því að hafa áhrif á vísitölu neysluverðs og þar af leiðandi verðtryggingu? Ef svo er, hversu mikið?


    Frá upphafi árs 2009 til loka árs 2012 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 20,1%. Til þess að skoða áhrif skattbreytinga á vísitölu neysluverðs er hægt að notast við fastskattavísitölu neysluverðs sem Hagstofan birtir mánaðarlega. Sú vísitala sýnir breytingar á vísitölu neysluverðs miðað við að sköttum og gjöldum sé haldið föstum. Fastskattavísitalan hefur á umræddu tímabili hækkað um 18,2%. Samkvæmt því hefur vísitala neysluverðs hækkað um tæp tvö prósentustig umfram fastskattavísitöluna sem þýðir að þær skattahækkanir sem hafa bein áhrif á vísitöluna hafa hækkað hana um tvö prósentustig.
    Þegar verið er að meta hvort skattálögur ríkisstjórnarinnar á þessu árabili hafi hækkað verðtryggð íbúðalán þarf einnig að horfa til fleiri þátta. Meginmarkmið stjórnvalda hefur verið að bæta afkomu ríkissjóðs, m.a. með skattbreytingum, til þess að draga úr skuldasöfnun og þar með vaxtakostnaði en hann er nú stærsti einstaki gjaldaliðurinn í rekstri ríkissjóðs. Hefði ekki verið gripið til þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gert er mjög líklegt að geta heimilanna til að greiða húsnæðislán væri minni en hún er nú og þar gæti munað meiru en þeim tæpu 2% sem framangreindur útreikningur gefur til kynna. Meðal þeirra aðgerða á gjaldahlið sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir eru auknar greiðslur vaxtabóta sem hafa á þessu tímabili bætt getu lántakenda til að greiða af íbúðalánum sínum, einkum þeirra sem eru með lágar tekjur og þunga vaxtabyrði. Frá árinu 2008 og til ársins 2011 hækkuðu vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla samkvæmt álagningu um 4,6 milljarða.
    Í meðfylgjandi töflu má sjá skuldir vegna íbúðakaupa samkvæmt gögnum frá ríkisskattstjóra sem lágu fyrir við álagningu opinberra gjalda árið 2012. Skuldir vegna íbúðakaupa námu 1.124 milljörðum í árslok 2011. Stærstur hluti þessara skulda er verðtryggður. Reiknuð heildaráhrif hækkunar vísitölu neysluverðs frá upphafi árs 2009 til loka árs 2012 um 20,1% hækka höfuðstól verðtryggðra íbúðalána um 226 milljarða kr. Sé aðeins litið til áhrifa þeirrar 1,9% hækkunar sem rekja má til skattkerfisbreytinga, án tillits til fyrrnefndra aðgerða á gjaldahlið, nema hækkunaráhrifin samtals 21,6 milljörðum á tímabilinu 2009 til 2012, eða 9,6% af allri nafnverðshækkun íbúðalána.

Tekjuár (staða í árslok) 2009 2010 2011
Skuldir vegna íbúðakaupa, millj. kr. 1.150.854 1.151.616 1.124.166