Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 514. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 951  —  514. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um IPA-styrki.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvert var mótframlag íslenska ríkisins í íslenskum krónum vegna IPA-styrkja frá því að umsókn um aðild að Evrópusambandinu var send inn og fram til 1. desember 2012?
     2.      Hvert er áætlað mótframlag íslenska ríkisins frá 1. desember 2012 og þar til móttöku IPA-styrkja lýkur?


    Fram til 1. desember 2012 höfðu þrír ríkisaðilar móttekið greiðslur frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vegna IPA-styrkja: Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis, Hagstofa Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands. Erfitt getur verið að skilgreina nákvæmlega hvað felst í mótframlagi vegna IPA-styrkja. Í flestum tilvikum felst mótframlag íslenska ríkisins og stofnana þess í framlagðri vinnu ríkisaðila að viðkomandi verkefni án þess að um sérstök viðbótarframlög til þeirra hafi verið að ræða í fjárlögum. Á hinn bóginn eru dæmi um að veittar hafi verið sérstakar fjárveitingar vegna mótframlaga til verkefna sem fá IPA-styrki. Að mestu leyti er þó gert ráð fyrir að mótframlög Íslands verði látin rúmast innan fjárheimilda sem viðkomandi stofnanir hafa í fjárlögum eða hefðu hvort sem er þurft að fá til að standa að viðkomandi verkefnum.
    Nokkrum vandkvæðum er háð að skilgreina hvaða mótframlög teljast hafa fallið til fyrir eða eftir 1. desember 2012. Hér er því valin sú leið að skipta mótframlögum milli þessara tveggja tímabila í hlutfalli við útborgun styrkja. Eftirfarandi tafla gefur yfirlit yfir mótframlög íslenska ríkisins vegna IPA-styrkja. Í fyrsta töludálki er tilgreind heildarfjárhæð IPA-styrks frá ESB, í öðrum dálki áskilið heildarmótframlag íslenskra stjórnvalda og í þriðja og fjórða dálki er þeirri fjárhæð skipt milli tímabila í hlutfalli við útborgaða styrki.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Vísað er til töflu hér að framan. Sérstaklega skal á það bent að meiri hluti mótframlaganna eru útgjöld sem íslenska ríkið hefði þurft að bera þótt ekki hefði komið til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Má þar sérstaklega nefna verkefni Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytis, endurnýjun á tollkerfum ríkisins og umbótaverkefni Fjármálaeftirlitsins.
    Til viðbótar því sem hér hefur verið rakið er reiknað með að veittir verði IPA-styrkir, allt að 8.275.000 evrur, til verkefna með það að markmiði að undirbúa mögulega þátttöku í uppbyggingarsjóðum Evrópusambandsins komi til aðildar að sambandinu. Miðað er við að styrkþegar leggi til mótframlög að andvirði 2.595.000 evrur. Verkefnin skulu vera á sviði atvinnuþróunar og byggðamála og á sviði velferðar- og vinnumarkaðsmála. Ekki liggur fyrir hvort ríkisaðilar verði meðal styrkþega í því ferli eða um hugsanleg mótframlög vegna slíkrar þátttöku.