Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 532. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 980  —  532. mál.




Svar



umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur
um afréttinn Emstrur.


     1.      Hve lengi hefur friðun Emstra, afréttarins í Rangárvallasýslu, staðið yfir?
    Friðun afréttarins Emstra hefur staðið frá árinu 1990 og hefur sauðfé ekki verið rekið skipulega á afréttinn síðan. Hins vegar hefur fé af nærliggjandi svæðum komist inn á svæðið, þannig að friðun fyrir beit hefur ekki verið alger.

     2.      Hvernig hefur friðunartíminn verið nýttur?
    Friðun fyrir búfjárbeit er afar þýðingarmikil landgræðsluaðgerð og fyrir gróðurframvindu á svæðinu. Friðunartíminn hefur einnig verið nýttur til að styrkja gróður á svæðinu, einkum í nánd við þá staði þar sem ferðaþjónusta er rekin.
    Árið 2011 fór Landgræðsla ríkisins fram á það við Landbúnaðarháskóla Íslands að úttekt yrði gerð á ástandi gróðurs og jarðvegs á Emstrum. Í skýrslu skólans frá því í maí 2012 segir m.a. að heildarstærð afréttarins sé um 83 km² og auðnir og fjöll teljist 87% til 91% svæðisins. Gróðurþekja nemur aðeins um 4,3% svæðisins í heild, þar af eru mosaþembur 293 ha, eða 80% gróðurlendisins. Gróðurþekja svæðisins er því enn lítil og uppistaðan eru mosaþembur sem hafa ekkert beitargildi. Sandar eru áberandi á Emstrum, einkum sendnir melar sem þekja um 70% svæðisins. Þeir eru víða afar óstöðugir og á þeim getur orðið mikið sandfok. Þetta sandfok hamlar mjög landnámi og framvindu gróðurs. Mikið rof telst vera á 66% lands. Ljóst er að gróðurlendi á Emstrum er rýrt, lítið og strjált með lausum sandi á milli. Enn fremur er gróður, sem er að nema land þarna, einstaklega viðkvæmur fyrir beit.

     3.      Hver er árangurinn af friðuninni?
    Sú friðun, sem nú er á svæðinu, er tekin að skila árangri víða á afréttinum. Ummerki um beit er hins vegar að finna á Emstrum og er það mat Landgræðslu ríkisins að sú beit hamli verulega gróðurframvindu á svæðinu. Endurheimt gróðurlendis á svona illa förnu landi, eins og Emstrur eru, hátt yfir sjó, tekur langan tíma.