Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 432. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 992  —  432. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um kostnað
við breytingar á tölvukerfum á sviði vörugjalda í tengslum
við aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.


     1.      Hver er kostnaðurinn við aðlögunarvinnu íslenskra stjórnvalda að Evrópusambandinu vegna breytinga á tölvukerfum á sviði vörugjalda vegna 16. samningskafla aðildarviðræðnanna um skattamál, m.a. við:
                  a.      eftirlitskerfi með flutningum gjaldskyldra vara,
                  b.      innviði sem gera samhæfingu og samtengingu við kerfi Evrópusambandsins (SEED, MVS, EWSE) mögulega,
                  c.      samþættingu sameiginlega samskiptakerfisins í starfsemi skatta- og tollyfirvalda,
                  d.      þróun á eftirlitskerfi vegna flutnings gjaldskyldra vara (EMCS)?

    Samkvæmt upplýsingum frá embætti tollstjóra og embætti ríkisskattstjóra er vinna við að greina þann kostnað við þau tölvukerfi vörugjalda sem þarf að taka upp hér á landi ef Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu ekki hafin né önnur þau verkefni sem hér falla undir.

     2.      Eru fleiri slík verkefni vegna breytinga á tölvukerfum á sviði vörugjalda í tengslum við aðildarumsókn að Evrópusambandinu en framangreind, til að mynda þverlæg?
    Ekki svo vitað sé.

     3.      Hver er kostnaðurinn við að efla stjórnsýslugetu embættis ríkisskattstjóra og tollstjóra vegna þessara verkefna á sviði tölvukerfa með ráðningum og þjálfun starfsmanna?
    Enn sem komið er hefur það ekki verið kannað sérstaklega hvaða kostnaðarauki yrði af stjórnsýslu vörugjalda vegna aðildar að Evrópusambandinu. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að Alþingi samþykkti nýverið breytingar á lögum nr. 97/1987, um vörugjald (473. mál) sem fela það í sér að stjórnsýsla á sviði vörugjalda verði öll á hendi tollstjóra frá og með 1. mars 2013. Breytingin er óháð mögulegri aðild Íslands að ESB.

     4.      Hvaða tæknibúnað þarf vegna þessara verkefna og í hvaða áföngum hefur verið lofað að taka hann upp miðað við tímasett loforð?
    Ekki liggur fyrir mat á því hvaða breytingar þyrfti að gera á tæknibúnaði embættanna í þessu sambandi eða tímasett áfangaáætlun þar að lútandi.

     5.      Hverjir eru áfangar eða tímamörk fyrir verkefnin, er vinna við þau hafin, hvenær á þeim að ljúka og hvenær er gert ráð fyrir að innleiðingu verði lokið?
    Vísað er til svars við 4. tölul.

     6.      Í hvaða tilvikum er stuðst við útvistunarsamninga vegna þessara verkefna, svo sem þróunar, prófana, reksturs og viðhalds hugbúnaðar, vélbúnaðar og samskiptakerfa?
    Vísað er til svars við 4. tölul.
     7.      Hefur verið gerð grein fyrir kostnaði við verkefnin í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013? Verður gert ráð fyrir honum í útgjaldaáætlun fyrir 2014 og í áætlun um ríkisfjármál, sbr. 4. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis?
    Ekki er gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu til embættanna vegna verkefna á sviði vörugjalda sem tengjast aðildarviðræðum Íslands við ESB í fjárlögum ársins 2013 eða í langtímaáætlun um ríkisfjármál.