Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 525. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1095  —  525. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar
um auðlegðarskatt.


     1.      Hversu stór hluti þeirra sem greiddu auðlegðarskatt á árinu 2012 (miðað við eignir 31. desember 2011) greiddi hærri upphæð samtals í opinber gjöld (tekjuskatt, útsvar, fjármagnstekjuskatt, auðlegðarskatt, fasteignagjöld o.s.frv.) en nam heildartekjum þeirra á árinu 2011 (laun, lífeyrisgreiðslur, fjármagnstekjur)?
    Þegar spurt er um heildartekjur einstaklinga þarf að hafa í huga að skattyfirvöld hafa alla jafna einungis upplýsingar um heildartekjur þeirra sem eru með ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. Þeir sem eru búsettir erlendis og hafa þar með takmarkaða skattskyldu hér á landi en eiga hér miklar eignir og greiða þar með auðlegðarskatt hafa að öllum líkindum tekjur í búseturíki sínu sem ekki eru taldar fram á íslensku skattframtali. Þessi fyrirvari á einnig við svör við 2., 3. og 4. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Samtals 2,6% af heildarfjölda þeirra sem lagður var á auðlegðarskattur árið 2012 telja ekki fram skattskyldar tekjur á Íslandi. Meðaltal hreinnar eignar þessa hóps var 515 millj. kr. í árslok 2011.
    
     2.      Hversu stór hluti þeirra sem greiddu auðlegðarskatt á árinu 2012 greiddi meira en 75% en minna en 100% af tekjum sínum 2011 í opinber gjöld?
    Samtals 1,9% af heildarfjölda þeirra sem lagður var á auðlegðarskattur árið 2012. Meðaltal hreinnar eignar þessa hóps var 513 millj. kr.

     3.      Hversu stór hluti þeirra sem greiddu auðlegðarskatt á árinu 2012 greiddi meira en 50% en minna en 75% af tekjum sínum 2011 í opinber gjöld?
    Samtals 6,4% af heildarfjölda þeirra sem lagður var á auðlegðarskattur árið 2012. Meðaltal hreinnar eignar þessa hóps var 389 millj. kr.

     4.      Hve stór hluti af þeim 20% sem greiddu hæstan auðlegðarskatt 2010 hafði skattalegt heimilisfesti á Íslandi í lok árs 2012? Hve stór hluti þeirra hafði flutt lögheimili sitt til annarra landa í lok árs 2012?

    Rétt er að árétta að þó að einstaklingur flytji lögheimili sitt til útlanda þýðir það ekki endilega að viðkomandi sé ekki lengur skattskyldur á Íslandi. Ríkisskattstjóri hefur úrskurðarvald um hverjir séu með skattalegt heimilisfesti hér á landi. Samtals 627 fjölskyldur eru í hópi þeirra 20% sem greiddu hæstan auðlegðarskatt af eignum í árslok 2010. Í svarinu er miðað við skattalegt heimilisfesti þessara fjölskyldna 4. febrúar 2013. Þar af voru 17 fjölskyldur, eða 0,5% af heildarfjölda greiðenda, með lögheimili erlendis.





Fjölskyldur Hlutfall Fjöldi
Búsettar í útlöndum 3% 17
Búsettar á Íslandi 97% 610
Samtals 100% 627

    Þær 17 fjölskyldur sem lögheimili áttu erlendis 4. febrúar sl. höfðu samtals flutt 20 sinnum til útlanda frá árinu 2006 og hafa því sumar flutt fram og til baka. Af þeim hópi sem auðlegðarskattur var lagður á árið 2011 fluttu átta fjölskyldur til útlanda árið 2011, átta árið 2012 og tvær á þessu ári.