Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 565. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 1186  —  565. mál.
Viðbót.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 217/2012 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar,
prófanir og vottun) við EES-samninginn.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur frá utanríkisráðuneyti og Ólaf Egil Jónsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Þá hefur nefndinni borist umsögn frá Samtökum verslunar og þjónustu, ásamt fylgiskjali. Málið var sent umhverfis- og samgöngunefnd til umsagnar og gerir nefndin ekki athugasemd við það að hinum stjórnskipulega fyrirvara verði aflétt af umræddri EES- gerð.
    Utanríkismálanefnd hefur áður, í samræmi við 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES- mála, fjallað um tilskipun 30/2010/ESB, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun vöru, til mats á því hvort efnislegra aðlagana sé þörf. Málið var þá komið til umfjöllunar í vinnuhópi EFTA um umhverfismál og var utanríkismálanefnd upplýst um málið með skeyti frá utanríkisráðuneyti dags. 14. október 2011 ásamt fylgigögnum. Í því ferli, sbr. 2. og 7. gr. framangreindra reglna, hlaut tilskipunin efnislega umfjöllun í atvinnuveganefnd Alþingis.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 217/2012, frá 7. desember 2012, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/30/ESB, frá 19. maí 2010, um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum (endurútgefin). Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara er veittur til 7. júní 2013. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Tilskipunin kveður á um skyldur aðila sem markaðssetur vöru að láta neytendum í té upplýsingar um orkunotkun og orkunýtni vöru sem seld er eða leigð með það að markmiði að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti. Gildissvið hennar er víðtækara en hinnar fyrri þar sem hún nær til allra orkutengdra vara, en ekki bara heimilistækja.
    Við efnislega umfjöllun um málið, sbr. 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála, gerði atvinnuveganefnd m.a. svofellda grein fyrir sjónarmiðum um íslenska hagsmuni: „Nefndin hefur farið yfir umsögnina sem barst vegna málsins og fengið á sinn fund Lárus Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu og Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins. Gestirnir bentu á að staða Íslands í orkumálum væri gjörólík stöðu flestra EES-ríkja þar sem hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa væri mun hærra hér á landi en gengur og gerist. Þannig væru t.d. 99,9% af raforkuþörf Íslendinga uppfyllt með raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og því hlutfalli næðu ríki ESB seint enda væri sambærilegt hlutfall að meðaltali rétt fyrir ofan 15% í þeim ríkjum. Þá kom fram að það sem væri líkt með Íslandi og ríkjum ESB væri hlutfall orkugjafa í samgöngum en tilskipuninni væri ekki ætlað að taka til þeirra. Var það mat umsagnaraðilanna að í þessu ljósi mætti ætla að efni tilskipunarinnar hefði takmarkað gildi á Íslandi. Þó var á það bent að þegar sérstöðu Íslands í orkumálum sleppti stæði það markmið tilskipunarinnar eftir að upplýsa neytendur um orkunotkun vöru og að samræmdar upplýsingar kynnu að aðstoða neytendur við að taka upplýsta ákvörðun um kaup á vörum. Töldu gestirnir ekki ástæðu til annars en að tilskipunin yrði tekin upp í EES-samninginn. Þó lögðu þeir ríka áherslu á að upptaka og innleiðing tilskipunarinnar í íslenskan rétt yrði gerð með eins einföldum hætti og hægt væri með það að leiðarljósi að kostnaði sem við það félli á fyrirtæki yrði haldið í lágmarki. Bentu þeir loks á að ef gera ætti kröfur um að merkimiðar á vörur yrðu á íslensku kynni að vera heppilegt að stjórnvöld sæju til þess að íslensk útgáfa merkimiða yrði öllum söluaðilum aðgengileg.“
    Innleiðing framangreindrar gerðar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í því skyni leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., til innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar. Frumvarpið mun að líkindum koma til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd.
    Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið sem fram koma í framangreindu áliti atvinnuveganefndar og mælist til þess að horft verði til þeirra við undirbúning lagafrumvarps til innleiðingar tilskipunarinnar.
    Gert er ráð fyrir að innleiðing tilskipunarinnar muni hafa í för með sér stjórnsýslulegar og efnahagslegar afleiðingar þegar auka þarf eftirlitsheimildir Neytendastofu og tryggja nægilegan mannafla til að sinna eftirlitinu.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Bjarni Benediktsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. mars 2013.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Árni Páll Árnason.


Mörður Árnason.



Þuríður Backman.


Oddný G. Harðardóttir.



Fylgiskjal.


Umsögn


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar
sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 217/2012 um breytingu á II. viðauka
(Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.

Frá atvinnuveganefnd.


    Utanríkismálanefnd óskaði eftir því með tölvupósti, dags. 26. febrúar 2013, að atvinnuveganefnd léti í té álit sitt á tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 217/2012 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn (565. mál).
    Atvinnuveganefnd hefur fjallað um málið. Með vísan til þess að málið hefur áður hlotið efnislega umfjöllun í atvinnuveganefnd, sbr. 2. og 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES- mála, gerir nefndin ekki athugasemd við það að hinum stjórnskipulega fyrirvara verði aflétt af umræddri EES-gerð.
    Þór Saari og Jónína Rós Guðmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. mars 2013.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, form.,
Logi Már Einarsson,
Björn Valur Gíslason,
Ólína Þorvarðardóttir,
Einar K. Guðfinnsson,
Jón Gunnarsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson.