Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 598. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1192  —  598. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur
um sölu á eignarhlut ríkisins í Símanum.


     1.      Hvert var umsamið kaupverð við sölu á eignarhlut ríkisins í Símanum? Hversu mikið af því var greitt, hvenær bárust greiðslur og í hvaða formi voru þær? Svar óskast sundurliðað.
    Samningur um sölu eignarhluta ríkisins í Símanum var undirritaður 5. ágúst 2005 og var söluverðið samkvæmt samningi 66.700 millj. kr. sem greiða átti í þremur tilgreindum gjaldmiðlum. Söluandvirðið var greitt í þremur gjaldmiðlum hinn 6. september 2005, þ.e. 34.506 milljónir ísl. kr., 310 milljónir evra (23.870 milljónir ísl. kr.) og 125 milljónir bandaríkjadala (7.717 milljónir ísl. kr.). Söluandvirðið var lagt inn á reikninga í Seðlabankanum.

     2.      Var staðið í einu og öllu við gerðan kaupsamning af hálfu kaupenda við sölu á eignarhlut ríkisins? Ef ekki, hvaða skýringar gáfu kaupendur og hver varð staða þeirra gagnvart seljanda í kjölfarið?
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um neinar vanefndir af hálfu kaupenda. Frávik frá efni upphaflegs kaupsamnings hafa verið með samþykki ráðuneytisins.

     3.      Héldu kaupendur í einhverjum tilfellum eftir eignum án þess að greiða fyrir þær?
    Kaupverð samkvæmt kaupsamningi var greitt. Kaupendur greiddu fyrir allar þær eignir sem þeir fengu afsal fyrir. Í einhverjum tilvikum fékk félagið tímabundin afnot af landi ríkisins vegna þegar starfræktra fjarskiptamannvirkja og fjarskiptamastra á meðan þau eru nýtt með þeim hætti.