Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 615. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1266  —  615. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um búsetuland og greiðslur
almannatrygginga til örorkulífeyrisþega.


     1.      Hversu margir örorkulífeyrisþegar búsettir á Íslandi á árunum 2009–2012 fengu skertar greiðslur frá almannatryggingum vegna búsetu erlendis? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Réttur til lífeyrisgreiðslna innan íslenska almannatryggingakerfisins byggist á búsetu hér á landi. Einstaklingur ávinnur sér því fullan rétt (100%) til örorkulífeyris samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, með 40 ára búsetu hér á landi á aldrinum 18–67 ára. Gerð er lágmarkskrafa um búsetu hér á landi í þrjú ár fyrir umsókn um örorkulífeyri. Við ákvörðun réttinda innan kerfisins er bæði litið til þess tíma er viðkomandi hefur þegar verið búsettur hér á landi frá 18 ára aldri og til framtíðarbúsetutíma fram til 67 ára aldurs, þ.e. réttindi eru einnig veitt á grundvelli framreiknings. Þeir örorkulífeyrisþegar sem ekki njóta fullra réttinda innan íslenska almannatryggingakerfisins vegna styttri búsetu hér á landi ná því ekki fullum réttindum þrátt fyrir að til viðbótar þeim búsetuárum á Íslandi sem liðin voru fyrir þann dag sem örorkulífeyrir er ákvarðaður sé tekið tillit til þess árafjölda sem eftir er fram til 67 ára aldurs viðkomandi.
    Alls fengu 15.347 einstaklingar greiddan örorkulífeyri innan almannatryggingakerfisins á síðasta ársfjórðungi 2012.
    Fjöldi þeirra örorkulífeyrisþega sem voru búsettir hér á landi á árunum 2009–2012 og sem fengu greiddan hlutfallslegan örorkulífeyri innan almannatryggingakerfisins vegna styttri búsetu en 40 ár hér á landi (þar með talin framtíðarbúseta til 67 ára aldurs) kemur fram í eftirfarandi töflu.

Ár Fjöldi
2009 402
2010 455
2011 543
2012 686
Heimild: Tryggingastofnun ríkisins.

     2.      Hversu margir örorkulífeyrisþegar búsettir á Íslandi sem fengu skertar greiðslur frá almannatryggingum vegna búsetu erlendis voru búsettir í ríkjum a) utan, b) innan EES- svæðisins fyrir flutning til Íslands?
    Fjöldi þeirra sem fengu greiddan hlutfallslegan örorkulífeyri innan íslenska almannatryggingakerfisins vegna styttri búsetu en 40 ár hér á landi (þar með talin framtíðarbúseta til 67 ára aldurs) kemur fram í eftirfarndi töflu.

2009 2010 2011 2012
Fjöldi sem áður var búsettur í ríkjum utan EES 183 196 226 260
Fjöldi sem áður var búsettur í ríkjum innan EES 214 256 315 424
Fjöldi þar sem fyrri búseta erlendis er ekki skráð hjá Tryggingastofnun ríkisins
24

22

27

34
Athugasemd: Sumir örorkulífeyrisþeganna hafa bæði búið í ríkjum innan og utan Evrópska efnahagssvæðið og eru því tvítaldir.
Heimild: Tryggingastofnun ríkisins.

     3.      Hversu margir örorkulífeyrisþegar skv. 1. tölul. fá engar greiðslur frá almannatryggingum í fyrra búsetulandi?
    Upplýsingar Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur frá almannatryggingum í fyrra búsetulandi eru eingöngu byggðar á upplýsingum frá örorkulífeyrisþegunum sjálfum en þær eru ekki sannreyndar í samkeyrslum við almannatryggingakerfi þessara ríkja. Upplýsingar varðandi árið 2012 miðast við tekjuáætlanir en upplýsingar fyrir árin 2009–2011 hafa verið keyrðar saman við skattframtöl hlutaðeigandi.
    Til skýringar skal þess getið að með grunnlífeyri er átt við lífeyri sem reiknast á grundvelli búsetu. Með tekjutengdum lífeyri er átt við lífeyri sem ávinnst á grundvelli atvinnu eða atvinnutekna í fyrra búsetulandi. Með lífeyrissjóðstekjum er átt við lífeyri á grundvelli inngreiddra iðgjalda/framlaga.
    Fyrir árið 2012 gáfu 579 einstaklingar af þeim 686 sem fá greiddan hlutfallslegan lífeyri Tryggingastofnun þær upplýsingar að þeir fái engan lífeyri frá fyrra búsetulandi, en 361 einstaklingur af 402 fyrir árið 2009.

2009 2010 2011 2012
Fjöldi sem fær hvorki erlendan grunnlífeyri, tekjutengdan lífeyri eða lífeyrissjóðstekjur frá almannatryggingum í fyrra búsetulandi

361


400


457


579
Heimild: Tryggingastofnun ríkisins.

     4.      Hversu stórt hlutfall örorkulífeyrisþega skv. 1. tölul. fær ekki greiðslur frá almannatryggingum í fyrra búsetulandi þrátt fyrir að milliríkjasamningur sé í gildi milli Íslands og fyrra búsetulands?
    Samningar sem taka til almannatrygginga eru í gildi við ríki sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu og Norðurlandasamningnum um almannatryggingar. Enn fremur er tvíhliða samningur í gildi við Kanada og nótuskipti um greiðslur milli Bandaríkjanna og Íslands. Ekki er nægilegt að samningur um almannatryggingar sé í gildi við fyrra búsetuland til að viðkomandi fái greiddan örorkulífeyri því um rétt til lífeyris fer samkvæmt innlendum lögum í viðkomandi ríki. Það er því ávallt forsenda þess að lífeyrir greiðist frá fyrra búseturíki að viðkomandi hafi áunnið sér rétt til lífeyris þar í landi og fullnægi skilyrðum í löggjöf viðkomandi lands fyrir greiðslum.
    Miðað við þær upplýsingar sem eru skráðar hjá Tryggingastofnun ríkisins bjuggu 259 einstaklingar af þeim 402 sem nutu hlutfallslegs réttar til örorkulífeyris innan íslenska almannatryggingakerfisins árið 2009 áður í ríki sem er aðili að einhverjum þeim samningum sem nefndir eru hér á undan. Til samanburðar var um að ræða 297 einstaklinga af 455 árið 2010, 360 einstaklinga af 543 árið 2011 og 472 einstaklinga af þeim 686 sem fengu hlutfallslegan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun árið 2012.
    Af þeim 686 sem fengu hlutfallslegan örorkulífeyri innan íslenska almannatryggingakerfisins árið 2012, sbr. 1. tölul., bjuggu 472 áður í ríki sem samningur er í gildi við. Þar af fengu 367 ekki greiddan örorkulífeyri frá almannatryggingum í því ríki. Samtals bjuggu 214 af þessum 686 áður í ríki sem enginn samningur er í gildi við.
    Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um ástæður þess að þessir einstaklingar fá ekki greiddan örorkulífeyri, t.d. hvort viðkomandi hafi ekki sótt um lífeyri til fyrra búsetulands, hafi ekki áunnið sér rétt til lífeyris þar í landi eða hafi fengið synjun á umsókn og þá af hvaða ástæðum.

2009 2010 2011 2012
Milliríkjasamningar í gildi við fyrra búsetuland, fjöldi
259

297

360

472
Þar af með engar greiðslur (erlendan grunnlífeyri, tekjutengdan lífeyri eða lífeyrissjóðstekjur í erlendri mynt)

219 (85%)


243 (82%)


275 (76%)


367 (78%)
Heimild: Tryggingastofnun ríkisins.

     5.      Hversu margir örorkulífeyrisþegar sem sótt hafa um örorkulífeyri frá öðru EES-ríki árin 2009–2012 hafa fengið synjun um örorkulífeyri frá fyrra búsetulandi? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um hvort viðkomandi einstaklingar hafi sótt um lífeyri til annars ríkis, hafi ekki áunnið sér rétt til lífeyris eða hafi fengið synjun á umsókn sem send hefur verið. Til að kanna hvort þessar upplýsingar séu til í viðkomandi málum þarf að fara handvirkt yfir mál hvers einstaklings um sig.

     6.      Hversu margir örorkulífeyrisþegar skv. 1. tölul. féllu í eftirtalda tekjuflokka á árunum 2008–2012 (skattskyldar tekjur í maí og nóvember á árunum 2009, 2010, 2011 og 2012) sem miðast við allar skattskyldar tekjur:
                   0–79.999 kr.,
                   80.000–99.999 kr.,
                   100.000–129.999 kr.,
                   130.000–149.999 kr.,
                   150.000–169.999 kr.,
                   170.000–189.999 kr.,
                   190.000–209.999 kr.,
                   210.000 kr. eða hærri?

    Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins voru alls 553 af þeim 686 einstaklingum sem bjuggu hér á landi árið 2012 og fengu greiddan hlutfallslegan örorkulífeyri innan almannatryggingakerfisins með skattskyldar tekjur 150.000 kr. og hærri, og eru þá skattskyldar greiðslur frá Tryggingastofnun meðtaldar. Ef skattskyldar greiðslur frá Tryggingastofnun eru undanskildar eru 164 einstaklingar af 686 með tekjur 150.000 kr. og hærri.
    Fjöldi örorkulífeyrisþega skv. 1. tölulið fyrirspurnarinnar sem féllu í eftirtalda tekjuflokka á árunum 2008–2012 kemur fram í eftirfarandi töflu. Skattskyldar tekjur að meðtöldum skattskyldum greiðslum frá Tryggingastofnun.
2009 2010 2011 2012
maí nóv. maí nóv. maí nóv. maí nóv.
0–79.999 kr. 25 30 30 31 24 28 35 33
80.000–99.999 kr. 12 17 23 24 14 12 15 14
100.000–129.999 kr. 55 71 81 96 46 32 31 29
130.000–149.999 kr. 65 67 83 77 88 54 45 57
150.000 – 169.999 kr. 41 43 65 63 102 116 96 108
170.000–189.999 kr. 47 40 43 38 77 65 136 132
190.000 – 209.999 kr. 30 26 28 25 43 69 108 100
210.000 kr. eða hærri 127 108 102 101 149 167 220 213
Heimild: Tryggingastofnun ríkisins.