Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 60. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1289  —  60. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988,
með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Bændasamtökum Íslands, Hjálmari Jóhannessyni og Jeff Clemmensen, Orkusetri Akureyrar, Orkuveitu Reykjavíkur, ríkisskattstjóra, Samorku – samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Varmavélum ehf.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að heimilað verði að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælum og tengdum búnaði til húshitunar. Húshitunarkostnaður hefur víða á landsbyggðinni verið mjög þungur baggi fyrir heimilin og niðurgreiðslur sem hafa farið í að lækka húshitunarkostnað á svokölluðum „köldum svæðum“ hafa ekki haldið í við þróun orkukostnaðar og þess vegna hefur hann lagst á heimilin með vaxandi þunga. Hækkun kostnaðar frá árinu 2000 er um 43%. Vonir um lækkun húshitunarkostnaðar með nýjum hitaveitum eru litlar að mati stjórnvalda og bent er á aðrar umhverfisvænar úrlausnir sem mætti styrkja með svipuðum hætti og hitaveitur hafa verið styrktar fram að þessu, t.d. varmadælur.
    Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að varmadæla samanstendur af dælubúnaði og leiðslum sem mynda lokað gas/vökvakerfi. Í gas/vökvakerfinu er ákveðið efni eða svokallaður vinnslumiðill sem breytir um fasa á leið sinni um kerfið. Við þessar fasabreytingar myndast varmaorka sem nýta má til húshitunar. Varmadæla skilar frá sér varmaorku til upphitunar en þarf til þess raforku til að knýja dælukerfið en sú raforka er þó mun minni en þyrfti við hefðbundna rafhitun. Orkuhagkvæmni varmadælu ræðst því af hlutfalli þeirrar orku sem fæst frá henni og orkunnar sem þarf til að knýja hana.
    Nefndinni bárust nokkrar umsagnir um frumvarpið þar sem umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins. Fram kom að varmadælur standi jafnfætis ódýrustu hitaveitum í landinu og því hagur allra að örva útbreiðslu og notkun þeirra á svokölluðum köldum svæðum. Auk þess sem vakin var athygli á því að það væri ekki skynsamleg orkunýting að nota hágæða raforku til að breyta í lággæða hitaorku með notkun varmadælna má mæta sömu hitunarþörf með færri kílóvattstundir af hágæða raforku. Afkastageta raforkukerfisins skerðist ekkert með uppsetningu varmadælu sem þýðir að þær kílóvattstundir sem sparast má nota í aðra uppbyggingu. Í umsögn Orkuseturs segir að „með varmadælu er í raun verið að skila verðmætri raforku til baka inn í kerfið og því má segja að varmadælur séu okkar smæstu virkjanir“. Nefndin bendir á að endurgreiðsla virðisaukaskatts mundi bæði auka hagkvæmni varmadæluuppsetningar og flýta sparnaði á raforkunotkun til hitunar sem svo aftur dregur úr niðurgreiðsluþörf ríkissjóðs. Slík endurgreiðsla af varmadælum væri því mikilvæg mótvægisaðgerð vegna síhækkandi upphitunarkostnaðar fólks á rafkyntum svæðum.
    Í umsögn ríkisskattstjóra er vakin athygli á nokkrum atriðum sem nefndin telur rétt að bregðast við. Í fyrsta lagi telur ríkisskattstjóri gildissvið frumvarpsins of rúmt en af ákvæðinu megi ráða að það eigi að gilda bæði um íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði en greinargerðin bendi hins vegar til þess að frumvarpið eigi aðeins að ná til íbúðarhúsnæðis. Leggur nefndin til breytingartillögu þessu til skýringar. Þá bendir ríkisskattstjóri einnig á að orðalagið „og tengdum búnaði til húshitunar“ sé nokkuð opið og geti kallað á matskenndar ákvarðanir, sérstaklega ef tilgangur ákvæðisins er að efni til uppsetningar húskerfis sé þar innifalið og getur þá verið um mismunun að ræða gagnvart þeim sem taka inn hitaveitu og þurfa að greiða fullan virðisaukaskatt af öllum efnum til uppsetningar húskerfis. Leggur nefndin því til að áður tilvitnuð orð falli brott.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Efnismgr. 1. gr. orðist svo:
    Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis.

    Lilja Rafney Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. mars 2013.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Árni Þór Sigurðsson.



Skúli Helgason.


Tryggvi Þór Herbertsson.


Pétur H. Blöndal.



Eygló Harðardóttir.


Lilja Mósesdóttir.