Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 589. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1363  —  589. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur um samkomulag
þjóðkirkjunnar og ríkisins um kirkjujarðir og launagreiðslur.


     1.      Er endurskoðun hafin eða á döfinni af hálfu ríkisins á samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997, en í samkomulaginu er kveðið á um að aðilar geti óskað eftir endurskoðun þess að liðnum 15 árum?
    Endurskoðun þá sem fyrirspyrjandi vitnar til er að finna í 4. gr. samkomulagsins en hún tekur aðeins til 3. gr. þess þar sem kveðið er á um skyldur ríkissjóðs í formi launagreiðslna til tiltekins fjölda starfsmanna þjóðkirkjunnar, ekki samkomulagsins í heild. Þjóðkirkjunni hefur verið gerð grein fyrir því að ríkið muni óska eftir slíkri endurskoðun en hún er ekki hafin.

     2.      Ef slík endurskoðun er hafin eða er á döfinni, hverjar eru áherslur ríkisins við slíka endurskoðun í ljósi þess að hlutfall landsmanna sem tilheyrir þjóðkirkjunni hefur lækkað verulega á þessum tíma og hlutfall landsmanna í öðrum trúfélögum, veraldlegum lífsskoðunarfélögum eða utan trúfélaga hefur hækkað verulega?
    Samningsmarkmið ríkisins, komi til endurskoðunar samkomulagsins, hafa ekki verið skilgreind.

     3.      Ef slík endurskoðun er ekki hafin og er ekki á döfinni, er það þá mat ráðherra að ekki sé tilefni til slíkrar endurskoðunar?
    Vísað er til svars við 1. tölulið fyrirspurnarinnar.

     4.      Hvers vegna varð fyrir valinu sú leið að greiða fyrir jarðakaupin samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi með launum til embættismanna þjóðkirkjunnar til frambúðar í stað eingreiðslu eða fastra greiðslna yfir tiltekið og endanlegt tímabil?
    Samkomulag það sem nefnt hefur verið kirkjujarðasamkomulagið var árangur af starfi nefnda á vegum ríkisins og á vegum þjóðkirkjunnar sem höfðu um árabil unnið að því að undirbúa nýja rammalöggjöf um stöðu þjóðkirkjunnar og um samskipti hennar við ríkisvaldið. Frumvarp þess efnis var svo, sem kunnugt er, lögfest á Alþingi árið 1997 sem lög nr. 78/1997 og í greinargerð frumvarpsins er því lýst í löngu og ítarlegu máli hvernig unnið hafði verið að því allt frá árinu 1992 þegar kirkjuþing ályktaði að skipuð yrði nefnd til að gera úttekt á skipulagi íslensku þjóðkirkjunnar og sambandi hennar við ríkisvaldið. Ekki er um það að ræða að samkomulagið kveði á um fastar greiðslur til frambúðar eins og það er orðað í fyrirspurninni, þvert á móti breytast greiðslurnar til hækkunar eða lækkunar eftir þróun á fjölda þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni og jafnframt skyldi heimilt að óska endurskoðunar á fjárhæðinni að 15 árum liðnum svo sem áður er komið fram.

     5.      Athugaði ráðuneytið hvert fasteignamat jarðanna var hjá fasteignaskrá fyrir undirritun fyrrgreinds samkomulags, eins og gert var ráð fyrir í 15. gr. laga nr. 94/1976? Ef svo var, af hverju var Alþingi ekki látið vita af þeirri athugun og niðurstöðu hennar við meðferð þess á lögfestingu samkomulagsins? Ef athugun fór ekki fram, hvaða ástæður lágu fyrir því athafnaleysi?
    Gerð var skrá um þær eignir sem um var að ræða og lágu til grundvallar samkomulaginu. Þá var lagt mat á hvort ákvæði 15. gr. tilgreindra laga gætu átt við um þau viðskipti sem samkomulagið snerist um og var niðurstaðan sú að svo væri ekki. Kirkjueignanefnd skilaði kirkjumálaráðherra skýrslu 2. febrúar 1993 þar sem m.a. var fjallað um þetta álitaefni og gerð grein fyrir röksemdum fyrir þeirri niðurstöðu að téð lagaákvæði gæti ekki átt við í þessu tilviki.

     6.      Telur ráðherra eðlilegt að telja eignir, sem söfnuðust fyrir hjá kirkjum landsins á meðan ekki ríkti trúfrelsi á Íslandi samkvæmt stjórnarskrá, einkamál eins starfandi trúfélags í landinu?
    Bent hefur verið á að þegar samkomulagið var gert voru 90% landsmanna í þjóðkirkjunni. Ráðherra lítur svo á að þetta snúist ekki um skoðun hans heldur niðurstöðu löggjafans í þessu máli.

     7.      Kæmi til greina að ríkið ætti fasteignaviðskipti við aðra lögaðila á sambærilegum forsendum og fram koma í fyrrgreindu samkomulagi ríkisins og þjóðkirkjunnar?

    Ekki verður séð að aðrir sambærilegir lögaðilar séu til og þá verður ekki heldur séð að sambærilegar forsendur gætu myndast þar sem í hlut ætti slíkur aðili. Fræðilega verður ekki séð að neitt væri því til fyrirstöðu að ríkið gerði sambærilegan samning við önnur trúfélög.