Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 16. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 16  —  16. mál.




Fyrirspurn



til fjármála- og efnahagsráðherra um málefni sparisjóða.

Frá Össuri Skarphéðinssyni.


     1.      Hvaða afleiðingar eru líklegastar fyrir samkeppni á bankamarkaði ef sparisjóðirnir hverfa af honum? Hefði það jákvæð eða neikvæð áhrif fyrir bankaþjónustu á landsbyggðinni ef sparisjóðirnir yrðu ekki hluti af fjármálakerfi landsins til framtíðar? Mundi áframhaldandi starfsemi sparisjóðanna draga úr eða auka kerfisáhættu í bankakerfi Íslendinga?
     2.      Hafa sparisjóðirnir fengið sambærilegar afskriftir af lánasöfnum sínum og bankarnir fengu þegar þeir tóku yfir lánasöfn föllnu bankanna? Ef ekki, hvaða áhrif hefur það á samkeppnisstöðu sparisjóðanna gagnvart bönkunum?
     3.      Með tilliti til þess hversu mikilvægu hlutverki Afl á Siglufirði gegnir innan sparisjóðafjölskyldunnar, hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir því að lokið verði uppgjöri Arion banka við sparisjóðinn á sömu forsendum og viðhafðar voru við uppgjör Eignarhaldsfélags Seðlabanka Íslands á erlendum skuldum þeirra sparisjóða sem voru í umsjá þess?
     4.      Hver er markaðshlutdeild íslensku bankanna, hvers um sig, og sparisjóðanna, samtals, miðað við fyrirliggjandi tölur um annars vegar útlán og hins vegar innlán?
     5.      Hversu miklar eignir liggja í skuldum sparisjóðanna við Eignarhaldsfélag Seðlabankans, í stofnfé í eigu Bankasýslunnar, verðmæti vörumerkisins og bankaleyfum sparisjóðanna?
     6.      Hvernig hyggst ríkisstjórnin vinna að því að endurheimta þá fjármuni sem lagðir hafa verið í stofnfé sparisjóðanna?
     7.      Hafa nýfallnir dómar um gengistengd lán, einkum varðandi Sparisjóð Mýrasýslu, áhrif á möguleika sparisjóðanna til að halda velli, að undangenginni hagræðingu og hugsanlegri sameiningu? Hvenær má ætla að lokauppgjöri á erlendum skuldum þeirra verði lokið?
     8.      Er hugsanlegt að auka þjónustu við landsbyggðina og hagkvæmni í sparisjóðakerfinu með því að efna til samstarfs sparisjóðanna við Byggðastofnun og/eða Íslandspóst? Kemur til greina að tryggja sparisjóðum og öðrum smærri fjármálastofnunum aðgang að heildsölufjármögnun íbúðalána með skipulagsbreytingum á Íbúðalánasjóði?
     9.      Hvaða stefnu hefur ríkisstjórnin varðandi hlutverk sparisjóða á fjármálamarkaði landsmanna í framtíðinni og hvaða aðgerðir þyrfti að ráðast í til að framfylgja þeirri stefnu?


Skriflegt svar óskast.