Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 11. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 30  —  11. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið,
fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 (val stjórnarmanna).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Fyrir rétt um þremur mánuðum samþykkti Alþingi ný heildarlög um Ríkisútvarpið, nr. 23/2013. Með þeim voru gerðar margþættar breytingar á þeim lagareglum sem giltu um Ríkisútvarpið og lögð megináhersla á hlutverk þess sem fjölmiðils í almannaþágu. Í markmiðsákvæði er tiltekið að lögunum sé ætlað að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni. Vísað er í ákveðin siðferðisgildi sem Ríkisútvarpið skuli hafa í heiðri, svo sem fagmennsku, heiðarleika og virðingu, auk þess sem áhersla skuli lögð á rækt við íslenska tungu, sögu og menningu þjóðarinnar.
    Í lögunum er ítarlegar kveðið á um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins en í eldri lögum, m.a. er þar sérstaklega tilgreint að það hafi bæði lýðræðishlutverk og menningarlegt hlutverk. Með lögunum voru einnig gerðar breytingar á skipun og hlutverki stjórnar Ríkisútvarpsins. Þannig er í lögunum kveðið á um að ráðherra tilnefni formann stjórnar og starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins einn stjórnarmann. Aðrir fimm stjórnarmenn eru tilnefndir af valnefnd. Í valnefndina, sem er skipuð fimm fulltrúum, tilnefnir allsherjar- og menntamálanefnd þrjá, Bandalag íslenskra listamanna einn og Samstarfsnefnd háskólastigsins einn. Með fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til að þetta ferli við skipun valnefndar og stjórnar komist ekki til framkvæmda og Alþingi skipi þess í stað sjö nefndarmenn.
    Nefndinni hafa borist sjö umsagnir um frumvarpið og er engin þeirra jákvæð.
    Minni hlutinn telur það undarlega forgangsröðun að leggja til breytingu á nýjum lögum sem samþykkt voru með miklum meiri hluta greiddra atkvæða en við atkvæðagreiðslu um frumvarpið greiddu 35 þingmenn atkvæði með samþykkt þess og einungis fjórir voru á móti. Það ákvæði sem lagt er til að breytist hefur ekki enn komið til framkvæmda en tilnefna hefði átt valnefnd og skipa stjórn nú í júnímánuði. Ekkert er því að vanbúnaði að fylgja lögunum og skipa valnefnd. Tilnefningar í valnefndina hafa þegar borist frá Bandalagi íslenskra listamanna og Samstarfsnefnd háskólastigsins. Minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar lýsir sig albúinn til að vinna með nefndinni og skila lögbundnum tilnefningum hennar strax.

Fagleg sjónarmið ráði við skipun stjórnar.
    Mikil áhersla hefur verið lögð á það á liðnum árum að hverfa frá flokkspólitískum stjórnum ríkisstofnana. Þannig hefur aukin áhersla verið lögð á hæfi, þekkingu og reynslu við skipun stjórnarmanna. Þessi sjónarmið eiga enn frekar við um Ríkisútvarpið í ljósi hlutverks þess. Líkt og þegar hefur verið reifað er meginhlutverk Ríkisútvarpsins að veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, þ.e. vera almannaþjónustumiðill, og er þetta hlutverk áréttað í heiti laganna með orðunum „fjölmiðill í almannaþágu“. Í lögunum er lögð áhersla á að Ríkisútvarpið skuli stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi. Í ályktun stjórnar Bandalags íslenskra listamanna er fyrirliggjandi frumvarp gagnrýnt og bent á að með því „yrði horfið frá þeirri mikilvægu breytingu að skapa fjarlægð við hið pólitíska vald á Alþingi. Þess í stað yrðu pólitísk tengsl stjórnarmanna fest í sessi með afgerandi hætti þar sem þeim væri ætlað að endurspegla valdahlutföllin á Alþingi. Slíkt væri mikil öfugþróun og í hróplegu ósamræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.“
    Minni hlutinn áréttar að til að Ríkisútvarpið geti rækt hlutverk sitt er sérstaklega mikilvægt að gæta faglegs og pólitísks sjálfstæðis stofnunarinnar í daglegum rekstri og dagskrárgerð og tekur undir sjónarmið Bandalags íslenskra listamanna um að frumvarpið stefni í hættu áformum um eflingu hins lýðræðislega, menningarlega og samfélagslega hlutverks Ríkisútvarpsins.
    Í gildandi lögum er kveðið á um að starfsmenn Ríkisútvarpsins tilnefni einn stjórnarmann stofnunarinnar. Með frumvarpi ráðherra er þetta ákvæði fellt brott. Víða á Norðurlöndunum sitja fulltrúar starfsmanna í stjórnum ríkisútvarpsstöðvanna. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 23/2013 kemur fram að þetta fyrirkomulag er talið stuðla að auknu lýðræði innan stofnananna og gera starfsmenn ábyrgari fyrir starfseminni. Þetta getur verið mikilvægt þegar kemur að málum er varða lýðræðislega starfshætti innan Ríkisútvarpsins og því ámælisvert að þessi réttur starfsmanna sé af þeim tekinn.
    Ákvæði laganna um skipun valnefndar var ætlað að tryggja að í stjórn veldust einstaklingar með nauðsynlega þekkingu á þeim málefnum sem samkvæmt markmiðsákvæði laganna eru helstu verkefni Ríkisútvarpsins. Í samræmi við það hlutverk þess að stuðla að lýðræðislegri umræðu er eðlilegt að við skipun stjórnar sé leitað til háskólanna og hvað viðkemur því hlutverki að stuðla að menningarlegri fjölbreytni er eðlilegt að leitað sé til listamanna. Minni hlutinn áréttar að með því að hverfa frá ákvæðum laga nr. 23/2013 um valnefnd er horfið frá eftirsóknarverðri aðferð við val stjórnarmanna sem byggist á valddreifingu í þágu almannahagsmuna.
    Fyrirhuguð breyting ráðherra á skipun stjórnar má teljast enn alvarlegri þegar horft er til þess að í lögunum er hlutverk stjórnar talsvert víðfeðmara en samkvæmt eldri lögum. Þannig kemur stjórnin ekki eingöngu að rekstri stofnunarinnar eins og áður heldur hefur hún meiri umsvif og völd. Með lögunum voru möguleikar stjórnar Ríkisútvarpsins til að hafa áhrif á dagskrárlega þætti, innihald og efnislega umfjöllun stofnunarinnar auknir, enda gert ráð fyrir breyttri skipan stjórnar þar sem fagleg sjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi. Nú á að auka á ný vægi pólitískra þátta við skipun stjórnar og færa hana aftur í þann pólitíska farveg sem víkja átti frá. Er þetta gert án þess að horft sé til breytts hlutverks hennar. Þannig virðist fyrirhuguð breyting ekki byggð á heildstæðu mati.
    Í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 23/2013 er bent á mikilvægi þess að ríkisrekin fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu veiti almenningi tryggingu fyrir hlutlægri umfjöllun, með áherslu á gæði og áreiðanleika upplýsinga. Sú breytta skipun stjórnar sem lögð er til í fyrirliggjandi frumvarpi gefur almenningi tilefni til að efast um hlutlægni Ríkisútvarpsins og getur þannig dregið úr trausti á því að upplýsingar fjölmiðilsins séu áreiðanlegar og umfjöllun hans hlutlæg.

Hæfi stjórnarmanna.
    Samkvæmt gildandi ákvæði laganna skal valnefndin við tilnefningu stjórnarmanna hafa hagsmuni Ríkisútvarpsins að leiðarljósi og að meðal stjórnarmanna sé m.a. þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningarmálum, nýjum miðlum á hverjum tíma, rekstri og stjórnun fyrirtækja. Þá skal valnefndin gæta að jafnrétti kynjanna í tilnefningum sínum. Þetta ákvæði er fellt brott í fyrirliggjandi frumvarpi og því engin trygging fyrir því að til stjórnarsetu veljist fólk sem hafi fullnægjandi þekkingu á þeim sviðum, sem varða rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins sem og meginmarkmiðum og -verkefnum þess.
    Eftir stendur eingöngu sú regla að stjórnarmenn skuli uppfylla hæfi skv. 66. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995. Þar er ekki gert ráð fyrir þekkingu, faglegum sjónarmiðum eða jafnrétti kynjanna heldur gerir ákvæðið eingöngu kröfu um að stjórnarmenn séu lögráða, fjár síns ráðandi og hafi ekki síðustu þremur árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Auk þess eru þar sett ákveðin búsetuskilyrði.
    Fyrirliggjandi frumvarp tryggir því ekki faglegt hæfi stjórnarmanna, að þeir hafi þá þekkingu á menningu eða fjölmiðlun sem nauðsynleg er til að markmið laganna nái fram að ganga.

Þróun í nágrannalöndum.
    Í nágrannalöndum okkar hefur verið þróun í átt að meira lýðræði og gagnsæi við stjórn ríkisfjölmiðla auk þess sem fagleg sjónarmið eru þar látin ráða för. Nefndinni var kynnt hvernig fyrirkomulag stjórna ríkisfjölmiðla er í nágrannalöndunum. Í umsögn Lárusar Ýmis Óskarssonar kemur fram að í Svíþjóð er ríkisfjölmiðillinn í eigu sérstaks sjálfseignarfélags sem er í eigu ríkisins. Þingið skipar stjórnarmeðlimi en allir stjórnmálaflokkar hafa neitunarvald um þá fulltrúa sem aðrir flokkar tilnefna og er þess sérstaklega gætt að enginn veljist til stjórnarstarfs sem á annarra hagsmuna að gæta. Sú regla gildir að þessi stjórn tekur allar ákvarðanir einróma. Stjórn sjálfseignarfélagsins skipar síðan stjórn ríkisfjölmiðilsins.
    Tekið er fram varðandi stjórn ríkisfjölmiðilsins að þeir sem þar veljast til stjórnarsetu þurfi að hafa reynslu og/eða kunnáttu sem geri þá sérstaklega hæfa eða æskilega til að sitja í þeirri stjórn. Er þetta sambærilegt ákvæði gildandi laga sem í fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til að verði fellt brott.
    Lárus Ýmir fór einnig yfir fyrirkomulag stjórnar ríkisfjölmiðla í Bretlandi og í umsögn hans kemur fram að þar í landi „hafa menn lengi vitað af hættum þess að hleypa stjórnmálamönnum nálægt BBC“. Lárus Ýmir bendir auk þess réttilega á að upplýsingar eru völd og „það að hafa upplýsingarnar eða upplýsingarnar sín megin gefur völd. Og stjórnmálamenn vilja auðvitað völd, og ekkert er athugavert við það. Þeir vilja væntanlega láta gott af sér leiða. En að fá völd yfir upplýsingum og upplýsingamiðlun er þeim ekki hollt og enn síður því samfélagi sem þeir eiga að þjóna.“ Til að tryggja að ekki séu pólitísk afskipti af stjórn ríkisfjölmiðla í Bretlandi er sá háttur hafður á að til staðar er það sem kallað er „Trust“ sem er eins konar akademía virtra einstaklinga, sem hafa vit á málefnum fjölmiðilsins og taka afstöðu til yfirgrípandi stefnumála. Þeir stjórna þó ekki daglegum rekstri heldur hefur sérstök rekstrarstjórn það verkefni.

Samráð.
    Við gerð frumvarps ráðherra var ekkert samráð haft við hagsmunaaðila eða hlutaðeigandi aðila, né heldur þá sem tilnefna áttu í stjórn félagsins eða valnefndina. Frumvarp það sem varð að lögum nr. 23/2013 var aftur á móti samið á grundvelli víðtæks samráðs en vinna við það hófst árið 2009. Frumvarp til nýrra heildarlaga um Ríkisútvarpið var fyrst lagt fram á Alþingi á 140. löggjafarþingi (748. mál). Það hlaut þá umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd sem hafði samráð um málið með því að óska eftir umsögnum og kalla til sín gesti. Nefndin skilaði nefndaráliti og breytingartillögu við frumvarpið sem hlaut þó ekki afgreiðslu. Það var því lagt fram að nýju á 141. löggjafarþingi (194. mál) með þeim breytingum sem allsherjar- og menntamálanefnd hafði lagt til. Nefndin kallaði að nýju eftir umsögnum og boðaði gesti á sinn fund. Frumvarpið var svo samþykkt sem lög 13. mars sl. Lög nr. 23/2013 byggjast því á mikilli vinnu og víðtæku samráði sem ekki er til staðar hvað viðkemur frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar. Slíkt samráðsleysi er ámælisvert þegar verið er að leggja til breytingar sem ganga þvert á niðurstöðu ítarlegrar og þverpólitískrar vinnu þar sem hlustað var eftir fjölda sjónarmiða.

Niðurstaða.
    Minni hlutinn mótmælti því harðlega að frumvarpið væri afgreitt frá nefndinni enda telur hann málið vanbúið. Með því er verið að rjúfa mikilvæga og breiða sátt sem liggur að baki þeim nýju lögum um Ríkisútvarpið sem samþykkt voru í vor með miklum meirihluta á Alþingi, m.a. með fullum stuðningi Framsóknarflokksins.
    Með frumvarpinu er verið að herða pólitísk tök á Ríkisútvarpinu og hverfa frá þeirri sýn að breið skírskotun stjórnarmanna og þekking og reynsla af fjölmiðlum og menningarmálum sé best til þess fallin að tryggja farsæla stjórn þessa fjölmiðils sem starfa á í almannaþágu. Það hefur um árabil verið rætt í samfélaginu að freista þurfi þess að tryggja ákveðna fjarlægð milli Ríkisútvarpsins og hins pólitíska valds. Með þessu frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra er stigið skref inn í fortíðina á ný þar sem gamaldags hugmyndir um pólitísk tök ráða ríkjum.
    Minni hlutinn leggst eindregið gegn því að málið nái fram að ganga og telur brýnt að horft sé til faglegra atriða við skipun stjórnar Ríkisútvarpsins. Minni hlutinn mælir því með því að frumvarpið verði dregið til baka og lögum nr. 23/2013 verði fylgt þannig að tilnefnd verði valnefnd er síðan kjósi stjórn Ríkisútvarpsins fyrir aðalfund stofnunarinnar. Þangað til starfi núverandi stjórn stofnunarinnar áfram.

Alþingi, 20. júní 2013.



Svandís Svavarsdóttir,


frsm.


Guðbjartur Hannesson.


Páll Valur Björnsson.



Helgi Hrafn Gunnarsson.