Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 9. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 48  —  9. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir
vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Fyrsti minni hluti gerir ekki athugasemdir við að ríkisstjórnin stofni starfshópa til að vinna að stefnumálum sínum. Jafnframt er það vel til fundið að láta kanna kosti og galla mögulegra aðgerða varðandi skuldamál heimilanna áður en í þær er farið. Hér er um brýnt úrlausnarefni að ræða sem getur skipt miklu máli fyrir fjölda fólks. Í því starfi sem fyrir höndum er hvetur 1. minni hluti ríkisstjórnina eindregið til þess að gæta að jöfnuði í ríkisfjármálum og skuldastöðu ríkissjóðs. Aðgerðir nú verða að tryggja jöfnuð í samfélaginu og mega ekki leiða til byrða í framtíðinni. Jafnframt telur 1. minni hluti ákaflega mikilvægt að efnahagslegum stöðugleika verði ekki ógnað með aðgerðunum og þær verði ekki þensluhvetjandi með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu og vaxtastig og þar með stöðu heimilanna. Þá yrði hugsanlega verr af stað farið en heima setið. Aðgerðirnar þurfa einnig að samrýmast markmiðum um afnám gjaldeyrishafta.
    1. minni hluti telur mikilvægt að ríkisstjórnin skoði líka stöðu leigjenda og stöðu fólks sem hefur litla sem enga greiðslugetu til að standa straum af húsnæðislánum eða íbúðaleigu. Þá vill 1. minni hluti leggja á það áherslu að aðgerðirnar leiði ekki til þess að ungu fólki eða efnalitlu verði gert erfiðara fyrir á húsnæðismarkaði með færri valmöguleikum í lánasamningum.
    Áform ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna skuldavanda heimila eru enn um margt óljós, en öll óvissa um aðgerðir er slæm. 1. minni hluti hvetur því ríkisstjórnina til þess að vinna hratt og vel að skýrri og ítarlega útfærðri aðgerðaáætlun sem gagnast geti til að leggja mat á áhrif og mögulegan ávinning aðgerðanna. Samhliða mætti vinna að húsnæðisstefnu til framtíðar með aðkomu allra flokka og fulltrúum stéttarfélaganna. Mikil vinna hefur þegar farið fram um þessi mál og töluverður árangur í úrlausn einstakra mála náðst í formi ýmissa aðgerða, gagnaöflunar, samráðs og greininga af ýmsu tagi. 1. minni hluti hvetur ríkisstjórnina til þess að byggja vinnu sína á þessum árangri. Þingflokkar Bjartrar framtíðar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vilja gjarnan eiga uppbyggilega aðkomu að lausn þessara mikilvægu mála.

Alþingi, 26. júní 2013.



Guðmundur Steingrímsson,


frsm.


Edward H. Huijbens.