Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 21. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 81  —  21. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar
um kostnað við fjölgun ráðherra.


     1.      Hver er áætlaður árlegur viðbótarkostnaður ríkissjóðs við að fjölga ráðherrum um tvo, þ.e.:
                  a.      heildarlaunakostnaður tveggja ráðherra,
                  b.      heildarlaunakostnaður aðstoðarmanna þeirra,
                  c.      heildarlaunakostnaður ritara þeirra,
                  d.      heildarlaunakostnaður bílstjóra þeirra,
                  e.      heildarlaunakostnaður ráðgjafa eða annarra viðbótarstarfsmanna,
                  f.      viðbótarferðakostnaður tveggja ráðherra og föruneyta þeirra, þ.m.t. dagpeningar,
                  g.      aukinn húsnæðiskostnaður, þ.m.t. kostnaður vegna breytinga á húsnæði,
                  h.      annar mögulegur viðbótarkostnaður, ótilgreint?
    Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eru nú níu en voru áður átta. Í fyrirspurninni er vísað til fjölgunar ráðherra um tvo og tekur svarið mið af því. Eini viðbótarkostnaðurinn sem víst er að falli til eru laun ráðherra og aðstoðarmanna ef þeim fjölgar að sama skapi. Ekki er gert ráð fyrir fjölgun annarra starfsmanna þótt ráðherrar verði níu eða tíu, né er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður húsnæðis hækki, kostnaður vegna ferðalaga né annað.
     a.      Laun ráðherra og þingmanna eru ákveðin af kjararáði og samanstanda af þingfararkaupi, sem greitt er af Alþingi, og launum fyrir störf sem ráðherra. Ráðherrahluti launanna nemur 482.582 kr. á mánuði að viðbættum launatengdum gjöldum sem eru um 22%. Áætlaður viðbótarkostnaður vegna tveggja ráðherra er því um 14,5 millj. kr. á ári.
     b.      Laun aðstoðarmanna ráðherra eru einnig ákveðin af kjararáði. Heildarlaunakostnaður, þ.e. heildarlaun að meðtöldum launatengdum gjöldum, tveggja aðstoðarmanna er áætlaður um 25 millj. kr. á ári.
     c.      Heildarlaunakostnaður vegna tveggja ritara er áætlaður um 15 millj. kr. á ári. Ekki er víst að ráðið verði í þær stöður með tilheyrandi viðbótarkostnaði.
     d.      Ekki er gert ráð fyrir fjölgun bílstjóra umfram núverandi starfslið þótt ráðherrum fjölgi um tvo. Heildarlaunakostnaður bílstjóra helst því óbreyttur.
     e.      Engar áætlanir eru til um ráðningar ráðgjafa eða annarra viðbótarstarfsmanna í tengslum við fjölgun ráðherra.
     f.      Ferðaáætlanir núverandi ráðherra liggja ekki fyrir og óvíst að heildarferðakostnaður aukist þótt ráðherrum fjölgi.
     g.      Í kjölfar ríkisstjórnarskipta í maí síðastliðnum voru framkvæmdar breytingar í húsnæði tveggja ráðuneyta. Kostnaður vegna þeirra er áætlaður um 15 millj. kr.
     h.      Ekki er gert ráð fyrir öðrum kostnaði.

     2.      Hver er þar með áætlaður viðbótarkostnaður á kjörtímabilinu í heild haldist skipan mála óbreytt í fjögur ár?

    Ef ráðherrum fjölgar um tvo, sem hvor um sig hefur einn aðstoðarmann, og haldist sú skipan í fjögur ár nemur áætlaður viðbótarkostnaður um 180 millj. kr.

     3.      Hver yrði viðbótarkostnaður í heild vegna biðlauna ef stjórnarskipti yrðu á kjörtímabilinu eða í lok þess og viðkomandi ráðherrar og þeir starfsmenn sem þeir hafa ráðið sérstaklega hyrfu úr starfi og þægju biðlaun?
    Ráðherra á rétt á biðlaunum er hann lætur af embætti, sbr. 5. gr. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað. Biðlaun jafnhá ráðherralaunum eru greidd í þrjá mánuði frá þeim degi þegar ráðherra lætur af störfum. Eftir ráðherrastörf í samfellt eitt ár eða lengur eru greidd biðlaun í sex mánuði. Taki ráðherra, er nýtur biðlauna, við öðru starfi áður en þriggja eða sex mánaða tímabilið er liðið falla biðlaunagreiðslur niður ef laun í nýja starfinu eru jöfn eða hærri en biðlaunagreiðslur til hans. Ef launin í nýja starfinu eru lægri skal greiða honum launamismuninn til loka þriggja eða sex mánaða tímabilsins. Aðstoðarmenn ráðherra eiga rétt á biðlaunum í þrjá mánuði eftir að þeir láta af starfi, sbr. 22. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Að öðru leyti gilda sömu skilyrði um biðlaun þeirra. Aðrir eiga ekki rétt á biðlaunum. Áætlaður kostnaður vegna biðlauna yrði, samkvæmt framangreindu, rétt rúmar 30 millj. kr.