Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 89. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 89  —  89. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um mótun geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlunar.


Flm.: Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Katrín Jakobsdóttir, Björt Ólafsdóttir,
Birgitta Jónsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hjörvar,
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Þorsteinn Magnússon.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra, í samvinnu við félags- og húsnæðismálaráðherra, að móta geðheilbrigðisstefnu og gera aðgerðaáætlun þar sem fram komi m.a. greining á núverandi geðheilbrigðisþjónustu, hvar þörfin sé mest fyrir þjónustuna og hvernig megi mæta henni ásamt stefnumótun til framtíðar í geðheilbrigðismálum fyrir alla landsmenn. Ráðherra leggi slíka geðheilbrigðisstefnu fram á vorþingi 2014.

Greinargerð.

    Heilbrigðisráðherrar í aðildarríkjum Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar staðfestu árið 2005 yfirlýsingu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Í yfirlýsingunni vöktu ráðherrarnir sérstaka athygli á tveimur ályktunum stofnunarinnar (EB109.R8 og WHA 55.10) sem báðar hvöttu aðildarríkin að:
          innleiða stefnu í geðheilbrigðismálum, áætlunum og löggjöf, sem byggist á þeirri þekkingu sem er fyrir hendi og almennum mannréttindum, í samráði við alla viðkomandi aðila á geðheilbrigðissviði;
          auka fjárveitingar til geðheilbrigðismála, bæði innan einstakra landa sem og til tvíhliða og fjölþjóðlegs samstarfs, sem lið í velferðarkerfi þjóðanna.
    Þáverandi heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, staðfesti yfirlýsinguna fyrir Íslands hönd.
    Hugtakið geðheilsa á sér enga algilda skýringu. Geðheilsa felst í hugsunum okkar, tilfinningum, líðan og gerðum er við tökumst á við lífið. Geðheilsa líkt og líkamleg heilsa er mikilvæg á öllum æviskeiðum, frá bernsku og unglingsárum til fullorðinsára. Geðheilsu er lýst þannig að einstaklingur búi við vellíðan og sé fær um að nýta vel hæfileika sína, takast á við eðlilegt álag í lífi sínu, sýna af sér viðhlítandi afköst og árangur við vinnu og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Góð geðheilsa og andleg vellíðan er undirstaða lífsgæða og framleiðni meðal einstaklinga, fjölskyldna, samfélaga og þjóða, og gerir fólk fært um að finna tilgang með lífinu og vera virkir og skapandi þjóðfélagsþegnar. Meginmarkmið Íslendinga í geðheilbrigðismálum ætti því að vera að stuðla að vellíðan fólks og starfshæfni með því að beina sjónum að styrkleika fólks og getu, auka sveigjanleika og leggja áherslu á utanaðkomandi forvarnaþætti. Góð geðheilsa er því afar mikilvæg öllum einstaklingum sem og samfélaginu í heild.
    Geðheilsu þjóða má skipta upp í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi geðheilsu allra sem þjóðarhagur liggur í að efla og varðveita með geðræktandi aðgerðum og jafnri og sanngjarnri stefnumótun og aðgerðum í samfélaginu. Í öðru lagi geðheilsu þess stækkandi hóps sem greindur hefur verið með geðröskun og í þriðja lagi geðheilsu þeirra sem búa við geðfötlun af völdum alvarlegra geðraskana en á milli allra flokkanna er ákveðin skörun. Geðraskanir eru annar algengasti heilbrigðisvandi Evrópu, næst á eftir hjarta- og æðasjúkdómum. Talið er að einn af hverjum fjórum Evrópubúum eigi á hverjum tíma við geðraskanir að etja og ríflega tveir þriðju þeirra við kvíða- og þunglyndisraskanir. Ætla má að hlutfallið sé svipað hér á landi og þá er talið að um 2,7% fólks glími við geðfötlun en um þriðjungur af nýgengi örorku er vegna geðfatlana. Í því samhengi er rétt að minna á að með aukinni áherslu á starfsgetu og endurhæfingu fjölgar þeim sem ná samfélagsvirkni að nýju.
    Í dag er skipulag meðferðarþjónustu vegna geðraskana þrískipt. Í fyrsta lagi sinnir heilsugæslan í mörgum tilfellum þeim sjúklingum sem glíma við geðraskanir. Í öðru lagi er almenn og sérhæfð geðheilbrigðisþjónusta utan spítala, bæði í formi göngudeilda, samfélagsteyma og einkarekinna stofa sérfræðinga. Í þriðja lagi er svo um geðdeildir innan sjúkrahúsa að ræða sem sinna jafnt bráðveiku fólki, sérhæfðum vandamálum, eins og samspili geðraskana og misnotkunar á vímuefnum, börnum með geðraskanir og endurhæfingu. Þá má einnig nefna ýmis frjáls félagasamtök sem unnið hafa þarft starf á borð við Rauða krossinn, Geðhjálp, Geysi, Hlutverkasetur og Hugarafl. Þessir aðilar hafa ekki einungis haft áhrif á það hvernig þjónusta er veitt heldur einnig veitt nauðsynlega sálfélagslega þjónustu við skjólstæðinga þar sem hið opinbera hefur ekki verið þess megnugt. Þá hefur hugmyndafræði meðferðar við geðröskunum þróast mikið í gegnum árin og iðulega hraðar en kerfið sem á að endurspegla hana. Hugmyndafræðin um það hvernig best má þjónusta fólk með geðraskanir hefur einkennst annars vegar af meiri þekkingu á meðferð geðraskana og hins vegar af kröfum þeirra sem njóta þjónustunnar um breytt viðhorf, aukna valdeflingu og aukin mannréttindi. Áhersla er lögð á að meðferð færist í auknum mæli í átt að svokallaðri samfélagsnálgun, þ.e. nær notendum og út af stofnunum með aukinni og virkari þátttöku og sjálfsákvörðun notenda sjálfra.
    Það er mat flutningsmanna að nauðsynlegt sé að fara í heildstæða skoðun á geðheilbrigðismálum og þeim þjónustuúrræðum sem nú eru í boði og leggja mat á þörfina fyrir ný og betri úrræði til framtíðar samfara því að fram fari heildstæð stefnumótun í málaflokknum til lengri tíma.

Mikilvægi sérstakrar geðheilbrigðisstefnu.
    Geðheilbrigðismál hafa verið að koma sífellt meira upp á yfirborðið í þjóðfélagsumræðu síðustu ára og samfara því eykst þekking almennings á málaflokknum. Um vitund almennings um mikilvægi málaflokksins má m.a. benda á nýlega söfnun átaksins Á allra vörum sem safnar þessa dagana fyrir bráðnauðsynlegri geðgjörgæsludeild á Landspítalanum. Nauðsynlegt er að halda áfram að auka þekkingu og vitund almennings og vinna þannig á fordómum, mismunun og vanþekkingu sem hefur því miður einkennt málaflokkinn til langs tíma.
    Málaflokkurinn hefur búið við það að fjárveitingar til hans hafa hvorki verið í hlutfalli við þann fjölda einstaklinga sem falla undir hann né þörf á þjónustunni. Þar af leiðandi hefur uppbygging og þróun sviðsins ekki verið í samræmi við mörg önnur svið heilbrigðisþjónustu. Þá hefur nú þegar verið bent á að frjáls félagasamtök hafa sinnt uppbyggingu þjónustu þar sem hið opinbera hefur ekki verið þess megnugt.
    Ekki hefur áður verið mótuð sérstök geðheilbrigðisstefna heldur hafa geðheilbrigðismál iðulega haft lítið vægi í heilbrigðisáætlunum stjórnvalda til lengri tíma. Flestir eru þó nú sammála um að þörf er fyrir sérstaka geðheilbrigðisstefnu. Þess ber að geta að í tillögu til þingsályktunar um velferðarstefnu – heilbrigðisáætlun til ársins 2020 – sem lögð var fram á 141. löggjafarþingi (þskj. 604) var lagt til að mótuð yrði geðheilbrigðisstefna sem tæki til allra aldurshópa en tillagan náði ekki afgreiðslu.
    Geðheilbrigðismál eru á mörkum heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu og þarf áætlun í geðheilbrigðismálum að taka mið af því en heilbrigðisáætlun fjallar eðli málsins samkvæmt að mestu leyti aðeins um heilbrigðisþjónustu. Þörf er á samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu fyrir þann hóp fólks sem þarf á þjónustunni að halda svo skapa megi eðlilega samfellu í þjónustunni en í núverandi kerfi er hætta á því að fólk lendi milli kerfa.
    Ýmsar stofnanir ríkisins hafa á síðustu árum sett sér eigin geðheilbrigðisstefnu þar sem ekki hefur verið til staðar opinber geðheilbrigðisstefna. Það er mat flutningsmanna að þessu þurfi að breyta sem fyrst með framlagningu faglegrar, markvissrar og ítarlegrar geðheilbrigðisstefnu þar sem vikið er að öllum helstu þáttum geðheilbrigðis og geðheilbrigðisþjónustu líkt og vikið er að hér að aftan.

Helstu þættir sem þurfa að koma fram í geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun.
    Að mati flutningsmanna eru ákveðin atriði sem víkja þarf að í þeirri geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun sem lagt er til að ráðherra leggi fram samkvæmt þingsályktunartillögu þessari. Þessi atriði verða ekki öll upp talin hér en eru m.a. að:
          efla heilsugæsluna sem fyrsta stig geðheilbrigðisþjónustu í samvinnu við aðra velferðarþjónustu og að heilsugæslan sé almennt fyrsti viðkomustaður vegna geðraskana og sinni meðferð og eftirfylgd,
          efla geðrækt og forvarnir,
          aðlaga markvisst sérhæfða geðþjónustu innan stofnana að samfélagsnálgun,
          vinna markvisst gegn fordómum, mismunun og félagslegri einangrun innan heilbrigðisstofnana sem utan,
          tryggja rétt nauðungarvistaðra og leita leiða til að binda enda á nauðungarvistanir eða bæta framkvæmd þeirra þannig að hinir nauðungarvistuðu og aðstandendur þeirra hljóti ekki skaða af og réttur þeirra sé tryggður,
          samþætta bataferli og valdeflingu í geðheilbrigðisþjónustu,
          bæta geðheilbrigði jaðarhópa og viðkvæmra lífsskeiða,
          bæta hag ungs fólks í geðrofi og auka þjónustu við það,
          bæta hag vaxandi fjölda ungs fólks með flóknar þarfir, sérstaklega fólks með þroskaskerðingu og á einhverfurófi,
          tryggja samfellu í þjónustu frá fyrstu einkennum til meðferðar og annarra úrræða,
          tryggja þjónustu- og búsetuúrræði við hæfi fyrir fólk með geðfötlun,
          bæta þjónustu við aðstandendur,
          tryggja réttindi einstaklinga með geðfötlun til sjálfstæðs lífs með viðeigandi stuðningi,
          tryggja að fjárveitingar séu á grundvelli þeirra þarfa sem hafa verið skilgreind sem viðmið.