Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 48. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 138  —  48. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur
um stöður náms- og starfsráðgjafa.


     1.      Hefur ráðherra kynnt sér þann vanda sumra sveitarfélaga að engir náms- og starfsráðgjafar sækja um auglýstar stöður?
    Ráðherra hefur ekki sérstaklega kynnt sér málið, enda fara sveitarfélög með ráðningarmál náms- og starfsráðgjafa á því skólastigi sem hér um ræðir. Rétt er þó að taka fram að ráðuneytinu barst á síðasta ári erindi frá Félagi náms- og starfsráðgjafa um eitt tiltekið mál þar sem gerð var athugasemd við að ráðinn hefði verið ófaglærður einstaklingur í auglýsta stöðu náms- og starfsráðgjafa í grunnskóla.
    Í 13. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, er kveðið á um að nemendur eigi rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar af til þess bærum sérfræðingum. Ráðuneytið hefur fylgst með innleiðingu laga um grunnskóla og í þeim efnum látið gera kannanir á því hvernig sveitarfélögum og skólum hefur tekist að innleiða einstök ákvæði laganna.
    Í könnun á innleiðingu grunnskólalaga sem gerð var árið 2010 kom í ljós að í 54 skólum af þeim 174 sem svöruðu könnuninni hefðu ekki allir nemendur aðgang að náms- og starfsráðgjafa. Ástæður, sem skólastjórar nefndu fyrir því að svo væri ekki, voru m.a. smæð skóla, að ekki væri þörf á slíkri þjónustu eða að enginn með þessa menntun byggi á svæðinu.

     2.      Hvaða kosti og ókosti telur ráðherra að því kunni að fylgja að ráða tímabundið ófaglærðan einstakling í starf náms- og starfsráðgjafa þegar enginn með tilskilda menntun sækir um stöðu?
    Náms- og starfsráðgjöf er lögbundinn hluti af skólaþjónustu skóla. Náms- og starfsráðgjöf felst í því að liðsinna nemendum við að finna hæfileikum sínum, áhugasviðum og kröftum farveg, m.a. með notkun sérhæfðra áhugasviðsgreininga.
    Náms- og starfsráðgjöf felst í því að vinna með nemendum, foreldrum, kennurum, skólastjórnendum og öðrum starfsmönnum skólans að ýmiss konar velferðarstarfi er snýr að námi, líðan og framtíðaráformum nemenda.
    Náms- og starfsráðgjafar geta aðstoðað nemendur við að vinna úr upplýsingum um nám sitt og leiðbeint þeim við áframhaldandi nám og starf. Náms- og starfsráðgjöfum ber að hafa jafnrétti að leiðarljósi með því að kynna piltum og stúlkum fjölbreytt námsframboð að loknum grunnskóla og störf af ýmsu tagi og skal áhersla lögð á að kynna báðum kynjum störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla- eða kvennastörf. Þá er einnig nauðsynlegt að kynna fyrir nemendum ný störf og þróun starfa sem fylgja breytingum í nútímasamfélagi.
    Framangreindir þættir sýna megináherslur sérhæfingar í meistaranámi í náms- og starfsráðgjöf í Háskóla Íslands og sýna rannsóknir að nemendur, sem fá náms- og starfsráðgjöf frá upphafi skólagöngu sinnar, bæta árangur sinn í skóla, verða færari í samskiptum og samvinnu og eru betur undirbúnir fyrir væntanleg störf.
    Lögverndun starfsheitisins er ætlað að tryggja fagmennsku í starfi og því má gera ráð fyrir að takist ekki að ráða einstakling með tilskilda menntun verði óhægt um vik að ná markmiðum náms- og starfsráðgjafar.
    Í lögum um náms- og starfsráðgjafa var í 4. gr. sett inn heimild ráðherra til að veita þeim sem voru í starfi þegar lögin öðluðust gildi leyfi til að kalla sig náms- og starfsráðgjafa enda þótt þeir uppfylltu ekki skilyrði um tilskilda menntun. Það leyfi var þó ekki veitt án umsagnar matsnefndar.

     3.      Hefur ráðherra í hyggju að bregðast við framangreindum vanda og gera skólastofnunum kleift að ráða tímabundið ófaglærða einstaklinga í starf náms- og starfsráðgjafa?
    Réttur til að kalla sig náms- og starfsráðgjafa og starfa sem slíkur hefur sá einn sem til þess hefur leyfi mennta- og menningarmálaráðherra, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um náms- og starfsráðgjafa. Leyfið skal veitt umsækjanda sem lokið hefur námi í náms- og starfsráðgjöf frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra samkvæmt lögum um háskóla, nr. 63/ 2006. Með lögverndun starfsheitisins er leitast við að tryggja að einungis þeir sem uppfylla skilyrði laganna sinni náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum landsins.
    Í lögunum er ekki að finna ákvæði um undanþágu frá skilyrði laganna um lögverndun starfsheitisins og því er ekki unnt að bregðast tímabundið við þeim vanda sem lýst er í fyrirspurn þessari. Ef ekki fæst einstaklingur með tilskilda menntun í auglýst starf náms- og starfsráðgjafa við grunn- og framhaldsskóla þá verður starfsheitið að vera annað og getur viðkomandi ekki starfað sem náms- og starfsráðgjafi þó svo að viðkomandi starfsmanni sé ætlað að sinna því starfssviði.
    Lögin hafa ekki að geyma ákvæði um hvernig bregðast skuli við ef skólar ná ekki að uppfylla þessa kröfu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um til hvaða ráða eigi að grípa í þeim tilvikum þegar sveitarfélög standa frammi fyrir framangreindum vanda.
    Ráðuneytið sendi þeim skólum, þar sem nemendur höfðu ekki aðgang að náms- og starfsráðgjafa, bréf þar sem áréttaður var lagalegur réttur nemenda til náms- og starfsráðgjafar af aðilum sem uppfylla skilyrði laga um náms- og starfsráðgjafa, nr. 35/2009. Ráðuneytið mun í næstu innleiðingarkönnun sinni sem verður vorið 2014 fylgja þessu máli sérstaklega eftir.