Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 81. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 139  —  81. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um grundvöll hækkunar skrásetningargjalda opinberra háskóla.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða útreikningar liggja til grundvallar hækkun skrásetningargjalda í opinberum háskólum sem boðuð er í nýju fjárlagafrumvarpi? Hafa skólarnir lagt fram sundurgreiningu á þeim kostnaðarþáttum sem eru innifaldir í skrásetningargjöldum? Ef svo er, hvernig skiptast þeir?

    Hækkun skráningargjalda í opinberum háskólum, sem boðuð er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014, tekur mið af sundurliðuðum útreikningum í sameiginlegu erindi frá opinberu háskólunum sem barst ráðuneytinu 26. ágúst 2013. Þar er gerð tillaga um að árleg skráningargjöld verði hækkuð úr 60 þús. kr. í 75 þús. kr. Samkvæmt a-lið 24. gr. laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008, er opinberum háskólum heimilt að innheimta skráningargjöld af nemendum vegna skráningar og þjónustu við nemendur sem ekki telst til kostnaðar við kennslu og rannsóknastarfsemi. Í erindi háskólanna til ráðuneytisins kemur fram að kostnaður Háskóla Íslands við hvern nemanda er ríflega 75 þús. kr. en kostnaður Háskólans á Akureyri er um 80 þús. kr. Kostnaður Háskóla Íslands árið 2012 er sundurliðaður í meðfylgjandi töflu.

Bókfærður kostnaður Háskóla Íslands árið 2012 vegna skráningargjalda (sértekjur dregnar frá).

Kostnaðarliðir Nettógjöld
1. Skráning stúdenta í námskeið og próf 282.324
2. Nemendakerfi 23.880
3. Upplýsingamiðlun og námsráðgjöf 106.146
4. Skipulag kennslu og prófa 46.725
5. Framlög til samtaka og stofnana stúdenta, FS og SHÍ 77.326
6. Skrifstofa kennslusviðs 9.479
7. Þjónusta Alþjóðaskrifstofu 37.986
8. Aðgangur að bókasafni og lesaðstöðu 91.323
9. Aðgangur að tölvum, prenturum o.fl. 133.184
10. Aðstaða og stjórnun 97.005
Samtals kostnaðarliðir skráningargjalds 905.378
– þar af sérstaklega bókfærð gjöld 442.989
– þar af reiknuð hlutdeild í öðrum bókfærðum gjöldum 431.734
Innheimt skráningargjöld 2012 772.482
Mismunur (kostnaðarliðir – innheimt 2012) 132.896
Raunkostnaður á hvern nemenda miðað við kostnað (13 000 nemendur) 69.644
– framreiknað miðað við verðlag 2013 72.430
– framreiknað miðað við áætlað verðlag 2014 75.327

    Þá skal þess einnig getið hér að skráningargjöld hækkuðu síðast árið 2012 úr 45 þús. kr. í 60 þús. kr. Hefðu gjöldin hins vegar fylgt almennu verðlagi (neysluverðsvísitölu) frá árinu 2005, þegar þau námu 45 þús. kr., yrðu þau ríflega 78 þús. kr. á árinu 2014. Hækkunin sem boðuð er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 heldur því ekki fyllilega í við verðlagsþróun undanfarinna ára eins og sjá má nánar í töflu hér að neðan.

Þróun skráningargjalda með tilliti til verðlagsþróunar.

Tímabil Vísitala neysluverðs Skráningargjöld
Janúar 2005 239,2 45.000
Janúar 2013 403,3 75.872
Júlí 2013 412,4 77.584
Ágúst 2013 413,8 77.847
September 2013 415,2 78.110
Janúar 2014 417,3 78.501