Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 64. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 212  —  64. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur um lögfestingu
samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra.


     1.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur á Alþingi?
    Unnið hefur verið að fullgildingu sáttmálans í samræmi við ályktun Alþingis frá árinu 2012 og sú vinna mun halda áfram. Á vettvangi samráðsnefndar Stjórnarráðsins, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka hefur verið unnið að fullgildingu sáttmálans á grundvelli frumgreininga sem kynntar voru í apríl 2013. Í því felst undirbúningur nauðsynlegra breytinga á regluverki sem lagðar yrðu fyrir Alþingi eftir því sem við á og þeirri vinnu vindur fram. Sérstaklega var þess getið að huga þyrfti að fjármögnun og framkvæmd á grundvelli endurbætts lagaramma. Þá liggur fyrir endurgerð þýðingar á sáttmálanum.

     2.      Hvaða breytingar þarf að gera á regluverki er varða skyldur ríkis og sveitarfélaga í tengslum við lögfestingu samningsins?
    Eins og áður segir hefur á grundvelli þingsályktunar Alþingis frá árinu 2012 verið unnið að greiningu á íslensku lagaumhverfi með tilliti til ákvæða sáttmálans. Niðurstöður þeirrar vinnu eru öllum aðgengilegar í greinargerð á heimasíðu innanríkisráðuneytisins á slóðinni www.irr.is/crpd. Þar kemur fram að fullgilding sáttmálans krefst tiltekinna breytinga á ís lenskum lögum. Í greinargerðinni segir:
    „Á undanförnum árum hefur íslensku lagaumhverfi verið breytt í samræmi við ákvæði sáttmálans. Frumgreining hefur leitt í ljós að innlend lagagögn séu í samræmi við fjórtán af þrjátíu efnisgreinum sáttmálans sem kveða á um efnisréttindi fatlaðs fólks. Þá er lagaumhverfi að hluta til í samræmi við sjö efnisgreinar sem krefjast frekari breytinga. Eftir stendur að lögum þarf að breyta vegna níu greina sáttmálans svo fullgilda megi hann. Í sumum tilfellum er um að ræða viðkvæma málaflokka og því telur ráðuneytið að undirbúningur allra breytinga þurfi að eiga sér stað með víðtæku samstarfi og samráði við hagsmunaaðila og sérfræðinga.“
    Í greinargerðinni má einnig sjá samanburð á ákvæðum sáttmálans við íslensk lög. Við greininguna hefur innanríkisráðuneytið átt náið samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga sem á fulltrúa í samráðshópi ráðuneytanna. Einnig hefur verið haft samráð við fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Landssamtakanna Geðhjálpar sem komu á framfæri sjónarmiðum sínum.

     3.      Hver er áætlaður kostnaður við fulla innleiðingu samningsins í íslensk lög?

    Áætlaður heildarkostnaður liggur ekki fyrir þar sem innleiðing samningsins kemur inn á verksvið nokkurra ráðuneyta. Það verður því á hendi einstakra ráðuneyta að greina þau kostnaðaráhrif sem leiðir af einstökum lagabreytingum, breytingu á regluverki eða framkvæmd til að tryggja fullgildingu sáttmálans.
    Þá er rétt að geta þess að unnið er að úttekt á framkvæmd á flutningi þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga, m.a. með hliðsjón af fjárhagslegum þáttum.
    Í áðurnefndri greinargerð kemur eftirfarandi fram:
    „Sú frumgreining sem þegar hefur farið fram lýtur einvörðungu að tilheyrandi lagagögnum. Fyrirliggjandi verkefni er skipt í áfanga og eru breytingar á löggjöf aðeins fyrsta skrefið í ferlinu. Mikilvægt er að heildarkostnaðarmat við breytingar á regluverki fari fram en ljóst er að fullgilding sáttmálans felur í sér umtalsverðan kostnað; bæði einskiptiskostnað en einnig rekstrarkostnað. Jafnframt verður að huga að framkvæmd nýrrar eða breyttrar löggjafar, reglugerða á grundvelli þeirra og fjármögnunar. Þá þarf að ráðast í átak til vitundarvakningar til að kynna innihald sáttmálans og þá breyttu samfélagslegu nálgun sem fullgilding hans hefur í för með sér.“