Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 45. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 214  —  45. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur um Vestfjarðaveg.

     1.      Hver er staðan á fyrirhuguðum framkvæmdum við Vestfjarðaveg nr. 60 eftir að Skipulagsstofnun hafnaði leið B1 um Teigsskóg?
    Sumarið 2012 kynnti Vegagerðin drög að tillögu um matsáætlun fyrir sveitarfélaginu, umsagnaraðilum og landeigendum. Að fengnum athugasemdum þessara aðila sendi Vegagerðin í júní 2013 tillögu að matsáætlun til yfirlestrar til Skipulagsstofnunar þar sem leið B1 var bætt við að ósk sveitarfélagsins. Óskað var eftir athugasemdum um hvort tillagan væri hæf til kynningar fyrir almenningi hvað varðar form og framsetningu.
    Sem kunnugt er hafnaði Skipulagsstofnun leið B1 en er enn með matsáætlunina í vinnslu. Afstaða um áframhald verkefnisins verður tekin þegar fyrrnefnd matsáætlun liggur fyrir.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við synjun Skipulagsstofnunar?
    Ráðherra telur ekki að svo stöddu ástæðu til að bregðast formlega við þar sem endanleg ákvörðun Skipulagsstofnunar liggur ekki fyrir, sbr. svar við 1. tölul.

     3.      Mun synjun Skipulagsstofnunar hafa þau áhrif að framkvæmdum við veginn muni seinka?
    Sjá svar við 1. tölul. Engin frekari gögn eða afstaða liggur fyrir um málið að svo stöddu.

     4.      Telur ráðherra að fara verði aðra leið en leið B1? Ef svo er, hvaða leið er hagkvæmust með tilliti til fjármagns og tíma?
    Miðað við framangreindar skýringar er ekki hægt að segja til um þessi atriði að svo stöddu.

     5.      Hvenær má búast við að framkvæmdum ljúki á Vestfjarðavegi nr. 60?
    Áætlanir hafa miðast við að framkvæmdum ljúki 2018 og vonast er til að unnt verði að standa við það.