Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 182. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 226  —  182. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um hert viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.


Flm.: Elsa Lára Arnardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Karl Garðarsson, Þorsteinn Sæmundsson, Páll Jóhann Pálsson.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að skipa starfshóp til að endurskoða viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri með það að markmiði að fækka slíkum tilfellum. Sérstaklega skal skoða eftirfarandi leiðir:
     1.      Lækkun refsimarka ölvunaraksturs úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill og samsvarandi mæling öndunarsýnis.
     2.      Námskeið um alvarleika ölvunar- og vímuefnaaksturs.
     3.      Hækkun sektargreiðslna vegna ölvunar- og vímuefnaaksturs og að hluti þeirra renni í forvarnasjóð.
     4.      Ný úrræði í viðurlögum við ölvunar- og vímuefnaakstri.
    Ráðherra leggi frumvarp um hert viðurlög á grundvelli niðurstöðu starfshópsins fyrir Alþingi eigi síðar en á vormánuðum 2014.

Greinargerð.

    Markmið þingsályktunartillögu þessarar er að leitast við að fækka þeim tilfellum þegar ökumenn aka undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna. Það er mat flutningsmanna að til að svo megi verða sé nauðsynlegt að gera breytingar á viðurlögum er snúa að ölvunar- og vímuefnaakstri. Lagt er til að ráðherra komi á fót starfshópi sem fari heildstætt yfir málið og vinni frumvarpsdrög á grundvelli þeirra tillagna sem raktar eru hér.
    Áfengis- og lyfjaakstur er orsök þriðjungs banaslysa í umferðinni og margra alvarlegra umferðarslysa samkvæmt gögnum Samgöngustofu og rannsóknarnefndar samgönguslysa. Það er mat flutningsmanna að breytingar á viðurlagaákvæðum verði til þess að minnka líkur á alvarlegum umferðarslysum sökum ölvunar- og vímuefnaaksturs, og þar af leiðandi forða einstaklingum og fjölskyldum þeirra frá hrikalegum afleiðingum sem slík slys hafa.
    Eftirfarandi eru tillögur sem starfshópur ráðherra þyrfti sérstaklega að skoða og leggja mat á út frá framangreindum markmiðum:
     1. Lækkun refsimarka ölvunaraksturs úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill og samsvarandi mæling öndunarsýnis.
    Mikilvægt er að yfirvöld sendi skýr skilaboð um afstöðu gagnvart ölvunarakstri. Núverandi refsimörk ölvunaraksturs eru 0,5 prómill en það veldur því að sumir ökumenn freistast til þess að telja sig ökufæra eftir neyslu tiltekins magns áfengis. Svíar og Norðmenn hafa nú þegar lækkað refsimörkin úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill.
    Lagt er til að viðurlög við fyrsta broti ökumanns sem mælist með 0,2–0,5 prómill í blóði verði fjársekt og námskeið þar sem farið er yfir alvarleika ölvunar- og vímuefnaaksturs. Ef um endurtekin brot er að ræða hjá einstaklingum innan þessara marka er lagt til að ökumenn séu, auk fjársektar og námskeiðs, sviptir ökuréttindum.
     2. Námskeið um alvarleika ölvunar- og vímuefnaaksturs.
    Lagt er til að allir þeir sem eru teknir fyrir ölvunar- eða vímuefnaakstur skuli sitja námskeið þar sem farið er yfir afleiðingar sem ölvunar- og vímuefnaakstur getur haft. Sambærileg námskeið hafa verið haldin af Samgöngustofu fyrir unga ökumenn og gefið góða raun.
     3. Hækkun sektargreiðslna vegna ölvunar- og vímuefnaaksturs og hluti þeirra renni í forvarnasjóð.
    Sektir vegna ölvunar- og vímuefnaaksturs verða að endurspegla alvarleika brotsins og hafa fælingarmátt. Lagt er til að sektir vegna brotanna verði hækkaðar umtalsvert og hluti þeirra renni til forvarnamála á sviðinu.
     4. Skoðuð verði ný úrræði í viðurlögum við ölvunar- og vímuefnaakstri.
    Rannsóknir hafa sýnt að margir þeirra sem aka undir áhrifum áfengis- eða vímuefna eiga við áfengisvandamál að stríða og hin hefðbundnu úrræði (sektir, svipting réttinda o.s.frv.) duga ekki fyrir þann hóp. Því er lagt til að skoðað verði hvort beita þurfi öðrum úrræðum í slíkum tilfellum, til að mynda meðferðarúrræðum og áfengislásum. Áfengislás er tæki sem sett er í bíla og metur hvort vínandi sé í blóði bílstjóra. Bíllinn fer ekki í gang nema búið sé að blása í tækið og ef vínandi finnst fer hann ekki í gang. Hér er sérstaklega litið til þeirra sem aka ítrekað undir áhrifum áfengis eða vímuefna og láta ekki segjast. Í þeim tilvikum sem ekkert af framangreindum úrræðum dugir verður að beita fangelsisdómi.
    Tillögur þær sem hér eru raktar og lagt er til að starfshópur ráðherra leggi út frá eru hugsaðar sem viðbót við núverandi viðurlög. Í þeim tilfellum þar sem einstaklingar valda umferðarslysum sem rekja má til áfengis- eða vímuefnaneyslu geta gilt önnur íþyngjandi ákvæði og er mikilvægt að nýta þann refsiramma í samræmi við alvarleika brotanna. Hér er á ferðinni vandi sem mikilvægt er að stjórnvöld stemmi stigu við án tafar.