Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 141. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 254  —  141. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Gunnarsdóttur
um lóðarleigusamninga innan þjóðgarðsins á Þingvöllum.


    Upplýsinga var aflað frá Þingvallanefnd til að svara fyrirspurninni.

     1.      Hversu margir lóðarleigusamningar eru við eigendur sumarhúsa innan þjóðgarðsins á Þingvöllum? Óskað er eftir að samningarnir verði flokkaðir í 5–10 hópa eftir fjárhæð leigu þar sem fram komi fjöldi samninga í hverjum hópi.
    Það eru 82 undirritaðir leigusamningar við eigendur sumarhúsa innan þjóðgarðsins á Þingvöllum.
    Sé leigugjaldið flokkað í sex flokka skiptist það á eftirfarandi hátt:

Leigugjald Fjöldi leigusamninga
< 100.000 kr. 6
101.000–125.999 kr. 12
126.000–150.999 kr. 19
151.000–175.999 kr. 23
176.000–200.999 kr. 11
200.000 kr. > 11

     2.      Hver er upphæð ársleigu hjá þeim tíu sumarhúsaeigendum sem greiða hæsta lóðarleigu?
    Upphæð ársleigu hjá þeim tíu sumarhúsaeigendum sem greiða hæsta lóðarleigu skiptist þannig að sá sem greiðir hæstu lóðarleiguna greiðir 259.600 kr. á ári, sá sem greiðir næsthæstu lóðarleiguna greiðir 227.200 kr. á ári og næstu átta greiða 205.000 kr. á ári.

     3.      Hvert er leiguverð á fermetra innan þjóðgarðsins? Óskað er eftir verðsamanburði við lóðarleigu á vinsælum sumarhúsasvæðum sem ráðuneytið telur sambærileg við þjóðgarðinn á Þingvöllum.
    Leiguverð er ekki reiknað út frá fermetratölu lóðar. Lóðarleigan er 6% af fasteignamati lóðarinnar, eins og það er hverju sinni á gjalddaga, auk árlegs gjalds sem er 40.000 kr. Leigugjald skal þó aldrei vera lægra en 80.000 kr., miðað við byggingarvísitölu í janúar 2011, en gjaldið/lágmarksleigan skal taka breytingum eftir vísitölu miðað við marsmánuð ár hvert.
    Ráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um núverandi lóðarleiguverð á öðrum sumarbústaðasvæðum. Lóðarleiguverð á öðrum svæðum var þó skoðað af hálfu Þingvallanefndar og haft til hliðsjónar þegar tekin var ákvörðun um leigufjárhæð við endurnýjun lóðarleigusamninga á árinu 2010.