Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 214. máls.

Þingskjal 276  —  214. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál,
með síðari breytingum (fjárhæð losunargjalds).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Í stað orðanna „2013 skal vera 1.338 kr.“ í 4. mgr. 14. gr. laganna kemur: 2014 skal vera 892 kr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í frumvarpinu er lögð til breyting á fjárhæð losunarheimilda skv. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 70/2012, um loftslagsmál. Í 14. gr. laganna er kveðið á um losunargjald sem lagt er á rekstraraðila starfsstöðva sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir samkvæmt greininni. Í ljósi þess að losunargjaldið hefur einkenni skatts, sbr. 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, er mælt fyrir um fjárhæð losunargjaldsins í frumvarpinu. Lagt er til að fjárhæð losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar sem á sér stað árið 2014 skuli vera 892 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar. Nauðsynlegt er að lögfesta fjárhæð losunargjalds vegna losunar á árinu 2014 í síðasta lagi 31. desember 2013 svo að rekstraraðilum starfsstöðva sem hafa verið undanskildar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir verði fyrir upphaf árs 2014 ljós upphæð losunargjalds sem lagt verður á vegna losunar 2014.
    Í athugasemdum við 14. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 70/2012 var lagt til að við ákvörðun losunargjaldsins yrði byggt á upplýsingum um markaðsverð losunarheimilda frá Intercontinental Exchange markaðnum í London (ICE) en þar fóru fram þegar frumvarpið var lagt fram rúmlega 90% af viðskiptum með losunarheimildir í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Til að fá traustar og hlutlægar upplýsingar um markaðsverðið var samið við KPMG ehf. um að útbúa skýrslu um meðalverð losunarheimilda á tímabilinu 1. september 2012 – 31. ágúst 2013. Í skýrslu KPMG, dags. 12. september 2013, kemur fram að meðalverð losunarheimilda á fyrrgreindu tímabili hafi verið 5,44 evrur á hvert tonn af koldíoxíði eða ígildi þess, þ.e. 891,81 ísl. kr. miðað við meðaltal af miðgengi evru hjá Seðlabanka Íslands á tímabilinu. Viðskipti innan ICE-kauphallarinnar höfðu tæplega 88% vægi við útreikninga KPMG, viðskipti EEX-uppboðsvettvangsins höfðu rúmlega 8% vægi og viðskipti Nordpool og Nymex námu tæplega 4% samanlagt. Í skýrslunni var stuðst við gögn af frummarkaði og eftirmarkaði til að fá sem besta mynd af meðalverði losunarheimilda.
    Lagt er til að framangreindir útreikningar KPMG verði lagðir til grundvallar við ákvörðun losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar sem á sér stað árið 2014. Starfsstöðvar sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfisins skv. 14. gr. laganna skulu samkvæmt því greiða 892 kr. fyrir hvert tonn losunar gróðurhúsalofttegunda frá viðkomandi starfsstöð á tímabilinu 1. janúar 2014 – 31. desember 2014. Eins og fram kemur í athugasemdum við 14. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 70/2012 er gert ráð fyrir að gjaldið verði endurskoðað á hverju ári miðað við nýjar upplýsingar. Það þarf því fyrir lok hvers árs að breyta því ártali og þeirri fjárhæð sem fram kemur í 4. mgr. 14. gr. laganna. Með þeim hætti verður losunargjaldið sem lagt verður á vegna losunar hvers almanaksárs ljóst fyrir upphaf viðkomandi árs.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, með síðari breytingum (fjárhæð losunargjalds).

    Meginefni frumvarpsins er að lagðar eru til breytingar á fjárhæð losunarheimilda skv. 4. mgr. 14. gr. laganna. Um er að ræða losunargjald sem lagt er á rekstraraðila starfsstöðva sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Í núgildandi lögum er kveðið á um að gjaldið fyrir árið 2013 sé 1.338 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar. Í lögunum er tilgreint að gjald fyrir hvert tonn losunar skuli jafngilda meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. ágúst árið áður en hin gjaldskylda losun á sér stað og skal það ákveðið með lögum. Jafnframt er kveðið á um að gjaldið skuli renna í ríkissjóð.
    Í frumvarpinu er lagt til að gjaldið fyrir árið 2014 verði 892 kr. Er það miðað við meðalverð losunarheimilda á tímabilinu 1. september 2012 til 31. ágúst 2013. Gjaldið er reiknað út af KPMG ehf., en fyrirtækið var fengið til að útbúa skýrslu um meðalverð á tímabilinu. Fyrirtækin sem gjaldskyldan nær til fá úthlutað losunarheimildum og gjaldið er lagt á hvert tonn losunar umfram heimildir. Umhverfisstofnun skal skila skýrslu um magn gjaldskyldrar losunar til viðkomandi innheimtumanns fyrir 31. maí ár hvert vegna almanaksársins á undan. Þrjár fiskmjölsverksmiðjur og Steinullarverksmiðjan greiða losunargjaldið skv. 14. gr. en gera má ráð fyrir að á næstu árum muni fiskmjölsverksmiðjur rafvæðast í auknum mæli sem mun hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs af gjaldinu. Áætlað er að gjaldskyld losun umfram heimildir verði 5.000–6.000 tonn af koldíoxíð árið 2014 sem koma mun til greiðslu á árinu 2015. Því má ætla að gjaldið gæti skilað um 5 m.kr. í tekjur fyrir ríkissjóð árið 2015, sem er tæplega 2,5 m.kr. lægra en ef miðað er við óbreytt gjald.