Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 124. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 281  —  124. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur
um nám erlendis.


     1.      Hve margir íslenskir ríkisborgarar sem stunda læknisfræðinám erlendis þiggja lán frá LÍN, flokkað eftir löndum?
    Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna sóttu alls 150 íslenskir ríkisborgarar sem stunda nám í læknisfræði erlendis skólaárið 2013–2014 um lán frá sjóðnum. Flestir þessara námsmanna stunda nám í Ungverjalandi (87), Slóvakíu (42) og Danmörku (16). Nánari skiptingu getur að líta í eftirfarandi töflu:

Land Fjöldi Námsgrein Gráða
Danmörk 16 Læknisfræði Cand. med.
Eistland 1 Læknisfræði Cand. med.
Pólland 2 Læknisfræði Cand. med.
Slóvakía 42 Læknisfræði Cand. med.
Ungverjaland 87 Læknisfræði Cand. med.
Þýskaland 1 Læknisfræði Cand. med.
Tæland 1 Læknavísindi MS
Samtals 150

     2.      Hve hátt hlutfall af ríkisframlagi til LÍN skýrist af lánum til einstaklinga sem stunda nám erlendis?
    Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna voru 34,9% af heildarútlánum sjóðsins skólaárið 2011–2012 til námsmanna erlendis. Nánari skiptingu getur að líta í eftirfarandi töflu:

Millj. kr. Hlutfall Fjöldi Hlutfall

Meðallán (millj. kr.)

Heildarútlán:
16.397 100,0% 12.606 100,0% 1.301
     þar af Ísland 10.674 65,1% 10.220 81,1% 1.044
     þar af erlendis 5.723 34,9% 2.386 18,9% 2.399
Skólagjöld, alls: 2.299 4.001 575
     þar af Ísland 1.144 49,8% 3.028 75,7% 378
     þar af erlendis 1.155 50,2% 973 24,3% 1.187
Lán án skólagjalda, allir: 14.098 100,0% 12.606 100,0% 1.118
     þar af Ísland 9.530 67,6% 10.220 81,1% 932
     þar af erlendis 4.568 32,4% 2.386 18,9% 1.915

    Heildarútlán á þessu tímabili LÍN voru 16.397 millj. kr. og nam framlag ríkisins árið 2012 alls 8.032 millj. kr. eða 49% af heildarútlánum. Miðað við þetta hlutfall var framlag ríkisins til námsmanna erlendis 2.803 millj. kr. á árinu 2012. Nánari skiptingu getur að líta í eftirfarandi töflu:

Millj. kr.

Hlutfall

Framlag ríkisins

Heildarútlán: 16.397 100% 8.032 49,0%
     þar af Ísland 10.674 65,1% 5.229
     þar af erlendis 5.723 34,9% 2.803
    
     3.      Telur ráðherra að skilyrða eigi lán einstaklinga sem stunda nám erlendis þannig að komi þeir ekki heim til starfa að námi loknu hækki vextir á lánum þeirra til samræmis við almenna markaðsvexti?
    Ekki er talið rétt að skilyrða lán til einstaklinga sem stunda nám erlendis þannig að þeir greiði hærri vexti af lánum sínum kjósi þeir ekki að snúa aftur heim til Íslands að loknu námi og fyrir því liggja nokkur veigamikil rök. Hér skulu einungis nokkur þeirra nefnd:
    –        Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur það hlutverk að tryggja tækifæri til náms án tillits til efnahags og með því að skilyrða endurgreiðslu við búsetu myndast ójafnræði milli lántakenda.
    –        Það hefur verið stefna stjórnvalda um langa hríð, hvað varðar Lánasjóð íslenskra námsmanna, að gera ekki greinarmun á því hvar nemendur mennta sig, hvort sem það er heima eða erlends. Nemendur fá lán til framfærslu og skólagjalda burtséð frá því hvar námið er stundað. Þessi stefna veitir íslenskum borgurum tækifæri til að mennta sig í bestu háskólum erlendis. Þetta fólk kemur í miklum mæli aftur heim og auðgar íslenskt menntakerfi og atvinnulíf.
    –        Námsmenn geta þurft að leita erlendis eftir námi sem er ekki í boði hér á landi og gæti reynst erfitt að mennta fólk í þeim greinum ef búseta að loknu námi yrði tengd við endurgreiðslu (hér má nefna greinar eins og dýralækningar og veðurfræði).
    –        Fjölskylduaðstæður námsmanna erlendis geta valdið því að þeir kjósa að snúa ekki aftur til Íslands, til að mynda þeir sem stofna fjölskyldu erlendis.
    –        Staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar getur valdið því að færri kjósa að flytja heim að námi loknu, til að mynda vegna atvinnuleysis í einstökum greinum.
    –        Það getur reynst einstaklingum mikilvægt að afla sér starfsreynslu erlendis að námi loknu, sem nýtist þegar viðkomandi kýs að flytja til Íslands.
    –        Íslenskir háskólar hafa í ríkari mæli gert samninga við erlenda háskóla um skiptinám fyrir nemendur sem hafa skapað tækifæri fyrir íslenska nemendur til að taka hluta af námi sínu erlendis. Slík nemendaskipti skapa ný og spennandi tækifæri fyrir íslenska námsmenn, bæði til þess að auka menntun sína og afla sér starfsreynslu erlendis. Breytingar á lánakjörum Lánasjóðs íslenskra námsmanna í þá átt að miða endurgreiðslur við búsetu gætu haft neikvæð áhrif á eftirspurn eftir slíku skiptinámi.
    –        Viðtökuríki innan EES (nema Bretland) bera stóran hluta af kostnaði við menntun þessara nema þar sem skólagjöld eru að jafnaði ekki til staðar.