Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 220. máls.

Þingskjal 293  —  220. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup
(innkaup á sviði öryggis- og varnarmála).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Með fyrirvara um ákvæði 9. gr. gilda ákvæði XIV. og XV. kafla um innkaup á sviði varnar- og öryggismála sem falla undir gildissvið tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013. Að öðru leyti taka lögin ekki til slíkra innkaupa.
    Ráðherra skal í reglugerð mæla fyrir um innkaup á sviði varnar- og öryggismála sem falla undir gildissvið tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB, til samræmis við skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði opinberra innkaupa samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum milliríkjasamningum. Í reglugerð skal jafnframt kveðið nánar á um réttarúrræði vegna slíkra innkaupa.

2. gr.

    Á eftir orðinu „póstþjónusta“ í 2. mgr. 91. gr. laganna kemur: tilskipunar 2009/81/EB um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 102. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Innleidd er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013 frá 14. júní 2013.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Innleiðing.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt fylgiskjal, II, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Breyting á tilskipun 2004/18/EB.

    Í stað 10. gr. tilskipunar 2004/18/EB komi eftirfarandi:
    10. gr. Samningar á sviði varnar- og öryggismála
    Með fyrirvara um [123. gr. EES-samningsins, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006] gildir þessi tilskipun um opinbera samninga, sem gerðir eru á sviði varnar- og öryggismála, að undanskildum samningum sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála gildir um.
    Þessi tilskipun gildir ekki um samninga sem tilskipun 2009/81/EB gildir um skv. 8., 12. og 13. gr. hennar.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um opinber innkaup sem ætlað er að fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála. Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og voru drög að frumvarpinu kynnt Ríkiskaupum og kærunefnd úboðsmála auk þess sem samráð var haft vegna innleiðingar tilskipunarinnar við innanríkisráðuneytið, ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæsluna.
    Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra skuli mæla fyrir um innkaup á sviði varnar- og öryggismála í reglugerð. Gert er ráð fyrir því að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/ 81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB verði innleidd með reglugerð á grundvelli heimildarinnar.
    Ákvæði tilskipunar 2009/81/EB miða að því að samræma evrópska löggjöf um innkaup á samningum á sviði varnar- og öryggismála. Þá er tilskipuninni ætlað að stuðla að aukinni samkeppni og koma á skilvirkum evrópskum markaði fyrir varnar- og öryggisbúnað og stuðla að auknu gagnsæi og opnari markaði um innkaup á þessu sviði. Tilskipuninni var breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1177/2009 frá 30. nóvember 2009 um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2004/17/EB, 2004/18/EB og 2009/81/EB að því er varðar beitingu viðmiðunarfjárhæða við útboð og gerð samninga, eins og hún var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 83/2011 frá 1. júlí 2011.

II.     Meginefni frumvarpsins.
    Innkaup á varnar- og öryggisbúnaði geta fallið undir almennu innkaupatilskipunina 2004/18/EB sem innleidd var með lögum nr. 84/2007 og efnislega eru ákvæði tilskipunar 2009/81/EB að mestu sambærileg ákvæðum tilskipunar 2004/18/EB. Í lögunum er þó tilgreint að útboðsskylda sé ekki fyrir hendi ef um er að ræða samninga á sviði varnarmála eða samninga sem krefjast sérstakra öryggisráðstafana, sbr. 5. og 9. gr. laganna.
    Vegna þess hvað innkaupaferlið í almennu tilskipuninni er opið hefur verið lítið um útboð á samningum á sviði varnar- og öryggismála innan Evrópska efnahagssvæðisins og er tilskipuninni ætlað að auðvelda samningsstofnunun að fara í útboð á vöru-, þjónustu- og verksamningum á þessu sviði.
    Tilskipunin gildir um innkaup opinberra aðila sem falla undir 3. gr. laga um opinber innkaup og stofnana sem falla undir 7. gr. sömu laga, að því er varðar vöru-, þjónustu- og verksamninga sem tilgreindir eru í tilskipun 2009/81/EB.
    Í tilskipuninni er kveðið á um samræmingu á reglum er varða útboð á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála, en undir þessa málaflokka falla landamæravarsla, landhelgisgæsla, löggæsla og hættustjórnun. Eftir sem áður munu samningar sem krefjast sérstaklega strangrar þagnarskyldu vera undanþegnir útboðsskyldu, ef það er réttlætanlegt á grundvelli almannaöryggis eða nauðsynlegt til að gæta mikilvægra öryggishagsmuna ríkisins. Þetta geta t.d. verið samningar er tengjast baráttu gegn hryðjuverkum og skipulagðri afbrotastarfsemi og innkaup í tengslum við dulkóðun.
    Þrátt fyrir að tilskipunin sé að mestu leyti hliðstæð hinni almennu innkaupatilskipun, sem var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup, er í nokkrum atriðum vikið frá þeim reglum sem almennt gilda um innkaup á sviði varnar- og öryggismála. Helstu nýmæli tilskipunarinnar eru annars vegar að samningskaup, að undangenginni auglýsingu, skuli vera það innkaupaferli sem að jafnaði skal nota við innkaup á varnar- og öryggisbúnaði en almenna reglan í lögum um opinber innkaup er almennt opið útboð, hins vegar að reglur tilskipunarinnar heimila að í útboðinu séu gerðar ítarlegar kröfur um afhendingar- og upplýsingaöryggi. Viðmiðunarfjárhæðir vegna innkaupa sem falla undir þessa tilskipun eru sambærilegar og hjá stofnunum sem falla undir reglugerð nr. 755/2007 um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti.
    Í tilskipun 2009/81/EB er kveðið á um breytingu á 10. gr. tilskipunar 2004/18/EB. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/18/EB frá 31. mars 2004 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga var birt sem fylgiskjal með lögum um opinber innkaup. Því er lagt til að breyting á 10. gr. tilskipunarinnar verði einnig fylgiskjal með lögunum.
    Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB er, eins og fullt heiti hennar ber með sér, einnig kveðið á um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/17/EB. Sú tilskipun var innleidd í íslenskan rétt með reglugerð nr. 755/2007 um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti.

III. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá né alþjóðlegar skuldbindingar.

IV. Samráð og mat á áhrifum.
    Við undirbúning á innleiðingu á tilskipuninni var hún send til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu, ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunni. Verði frumvarpið að lögum mun það hafa áhrif á innkaup á sviði varnar- og öryggismála hjá kaupendum búnaðar og þjónustu á Íslandi er fellur undir þessa málaflokka, en kaupendur eru ríkislögreglustjóri og Landhelgisgæslan. Gert er ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins geri þessum aðilum kleift að fara í auknum mæli í útboð á vöru-, þjónustu- og verksamningum á þessu sviði. Auk þess mun innleiðing tilskipunarinnar í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið fjölga tækifærum fyrir íslensk fyrirtæki sem starfa á þessu sviði til að taka þátt í útboðum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði að ráðherra verði heimilt að mæla fyrir um innkaup á sviði varnar- og öryggismála í reglugerð. Lagt er upp með að innleiðing tilskipunar 2009/ 81/EB (varnar- og öryggismálatilskipun) með reglugerð verði með sambærilegu sniði og innleiðing tilskipunar 2004/17/EB (veitutilskipun). Síðarnefnda reglugerðin er innleidd með reglugerð sem á sér stoð í 7. gr. laganna. Þannig er mælt fyrir um það í 1. mgr. að lögin taki ekki til samninga sem falla undir tilskipun 2009/81/EB að öðru leyti en því að ákvæði XIV. og XV. kafla gildi um innkaup sem falla undir tilskipunina.
    Í 2. mgr. er lagt til að um innkaup sem falla undir gildissvið tilskipunar 2009/81/EB verði mælt fyrir í reglugerð ráðherra. Í þeirri reglugerð verði jafnframt nánar kveðið á um gildi samninga og önnur réttarúrræði og meðferð kærumála vegna slíkra innkaupa.
    Í gildandi 5. gr. laganna er kveðið á um að lögin gildi um samninga á sviði varnarmála skv. 123. gr. EES-samningsins nema kveðið sé á um annað í lögum. Hér er því lögð til nánari útfærsla á því með hvaða hætti innkaup opinberra aðila, sem lögin taka til, á sviði bæði varnar- og öryggismála skuli eiga sér stað.

Um 2. gr.

    Með breytingunni er tekin af allur vafi í lögunum um að kærunefnd útboðsmála fjalli um kærur vegna brota á reglugerð um innkaup á varnar- og öryggisbúnaði sem sett er á grundvelli tilskipunar 2009/81/EB.

Um 3.–5. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup (innkaup á sviði öryggis- og varnarmála).

    Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra skuli mæla fyrir um innkaup á sviði varnar- og öryggismála í reglugerð. Gert er ráð fyrir því að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB, verði innleidd með reglugerð á grundvelli heimildarinnar.
    Tilskipun 2009/81/EB ætlað að auðvelda samningsstofnunun að fara í útboð á vöru-, þjónustu- og verksamningum á sviði varnar- og öryggismála innan EES-svæðisins, en hingað til hafa slíkir samningar að miklu leyti fallið utan gildissviðs laga um opinber innkaup. Nýja tilskipunin er að mestu leyti hliðstæð hinni almennu innkaupatilskipun 2007/18/EB, en þó er í nokkrum atriðum vikið frá þeim reglum sem almennt gilda að því er varðar innkaup á sviði varnar- og öryggismála, annars vegar varðandi það innkaupaferli sem að jafnaði skal nota við innkaup á slíkum búnaði og hins vegar varðandi kröfur er varða afhendingar- og upplýsingaöryggi.
    Verði frumvarpið að lögum mun það hafa áhrif á innkaup á sviði varnar- og öryggismála hjá kaupendum búnaðar og þjónustu á Íslandi er fellur undir þessa málaflokka, en það eru einkum ríkislögreglustjóri og Landhelgisgæslan. Innkaup á öryggis- og varnarbúnaði hafa verið óveruleg á Íslandi en hjá ríkislögreglustjóra hafa þau numið um 5–10 m.kr. á ári. Landhelgisgæslan kaupir allar öryggisvörur í gegnum innkaupasamband NATO og mun innleiðing tilskipunarinnar ekki hafa áhrif á það fyrirkomulag. Innkaup á almennum lögreglubúnaði og stærri fjárfestingar, svo sem varðskip og þyrlur, falla undir lögin um opinber innkaup og verða því boðin út á sama hátt og áður. Aftur á móti gæti sérstakur öryggisbúnaður í varðskipum eða þyrlum flokkast undir nýju tilskipunina.
    Verði frumvarpið að lögum er erfitt að meta hvort fram komi aukin samkeppni við innkaup á öryggis- og varnarbúnaði eða hvort útboðum muni fjölga á sviði varnar- og öryggismála. Aukin samkeppni og fjölgun útboða gætu leitt af sér lægra verð við innkaup á slíkum búnaði. Það er því erfitt að segja fyrir um hvaða áhrif frumvarpið muni hafa á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum en að öllum líkindum verða þau minni háttar.