Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 210. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 373  —  210. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór Runólfsson og Rebekku Hilmarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Sindra Sigurgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Sif Traustadóttur frá Dýraverndarsambandi Íslands og Jón Gíslason og Sigurborgu Daðadóttur frá Matvælastofnun. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands og Ólafi Dýrmundssyni.
    Með frumvarpinu er lagt til að eftirlit skv. 13. gr. laga um velferð dýra byggist á áhættuflokkun í stað þess sem kveðið er á um í gildandi lögum, að eftirlitsheimsóknir eigi sér stað ekki sjaldnar en annað hvert ár.
    Fram kom við umfjöllun um málið í nefndinni að með því að miða við ákveðið lágmark heimsókna, t.d. hvert ár eða annað hvert ár, hyrfi sveigjanleikinn úr því eftirlitskerfi sem byggist á áhættuflokkun. Matvælastofnun hefur unnið kerfi fyrir áhættu- og frammistöðuflokkun matvæla- og fóðurfyrirtækja og hefur nú verið unnið að sambærilegri flokkun aðila í frumframleiðslu, þ.e. aðila í landbúnaði. Meiri hlutinn telur mikilvægt að vinnu við gerð áhættumats fyrir frumframleiðslu verði hraðað, að það verði unnið í samvinnu við bændur og að það liggi fyrir sem fyrst. Fram kom við umfjöllun um málið að með hliðsjón af áhættumatinu verði eftirlitsheimsóknir færri til þeirra sem staðið hafa vel að málum en fleiri til þeirra sem sýnt þykir að þurfi frekara aðhalds við. Eftirlit með þeim aðilum sem munu þurfa aukið aðhald og eftirlit verður því aukið frá því sem tíðkast hefur. Við gerð á áhættumati verður beitt flokkun eftir búgreinum og afurðanýtingu og mun eftirlit því endurspegla álag á búfé.
    Bent var á við umfjöllun um málið að þar sem grunur leikur á um vanrækslu dýra búi oft erfiðleikar að baki, svo sem veikindi. Rætt var um á fundum nefndarinnar að ef til vill þyrfti að huga að því að grípa fyrr inn í slík tilvik með félagslegum úrræðum.
    Björt Ólafsdóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara þar sem áhættuflokkun liggur ekki fyrir.
    Kristján L. Möller skrifar undir álit þetta með fyrirvara.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 10. desember 2013.



Jón Gunnarsson,


form., frsm.


Haraldur Benediktsson.


Ásmundur Friðriksson.



Björt Ólafsdóttir,


með fyrirvara.


Kristján L. Möller,


með fyrirvara.


Páll Jóhann Pálsson.



Þorsteinn Sæmundsson.


Þórunn Egilsdóttir.