Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 263. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 486  —  263. mál.




Beiðni um skýrslu



frá fjármála- og efnahagsráðherra um Dróma hf.



Frá Jóni Þór Ólafssyni, Birgittu Jónsdóttur, Elsu Láru Arnardóttur,
Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Helga Hrafni Gunnarssyni, Páli Val Björnssyni,
Róberti Marshall, Vilhjálmi Árnasyni, Ásmundi Friðrikssyni,
Jóni Gunnarssyni, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Valgerði Bjarnadóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um allar ákvarðanir sem opinberir aðilar, þ.m.t. stofnanir ríkisins og dómstólar, hafa tekið varðandi Dróma hf. með vísan í heimildir til slíkra ákvarðana.
    Jafnframt skulu í skýrslunni koma fram stjórnunar- og eignatengsl allra aðila sem umræddar ákvarðanir tóku og yfirstjórnar Dróma hf., þ.e. stjórnar og stjórnenda.
    Að auki skal sérstaklega upplýsa um eftirfarandi:
     1.      Hvers vegna tekin var ákvörðun um að stofna Dróma hf. en ekki farin sambærileg leið og gert var með aðra banka og lánastofnanir.
     2.      Kostnað við að skipta inneignum og útlánum, þ.e. kostnað við skuldabréf sem greitt er vegna innlána til Arion banka, hversu mikið Arion banki hefur hagnast á þessari ráðstöfun og hversu mikill kostnaður Dróma hf. er af skuldabréfinu.
     3.      Hvers vegna ríkisábyrgð er á skuldabréfi útgefnu af Dróma hf. til greiðslu til Arion banka og hver sé vaxtamunur á skuldabréfinu til Arion banka og vöxtum á innlánum þeim sem fóru í Arion banka og skuldabréfinu er ætlað að bera kostnað af?
     4.      Slitastjórnir við slitameðferð Frjálsa fjárfestingarbankans og SPRON, hverjir sitji í þeim slitastjórnum og öðrum stjórnum og hver kostnaður hafi verið vegna þessara stjórna, jafnt kostnaður slitastjórna sem annar kostnaður.
     5.      Viðskipti stjórnarmanna í slitastjórnum við eigin fyrirtæki.