Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 261. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 555  —  261. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um fjármögnun öryggissveita í Írak.


     1.      Hve miklum fjármunum hefur íslenska ríkið varið í þjálfunarverkefni NATO í tengslum við Írak? Fjárhæðin óskast sundurliðuð eftir árum og verkefnum.
    Ísland studdi þjálfunaráætlun Atlantshafsbandalagsins í Írak (NATO Training Mission – Iraq, NTM-I) með tvennum hætti, annars vegar með framlagi í sjóð sem greiddi ferðakostnað og uppihald Íraka sem fengu þjálfun utan heimalands síns á vegum bandalagsins, um 150.000 evrur hvort ár, 2005 og 2006, samtals um 300.000 evrur, og hins vegar lagði Ísland til upplýsingafulltrúa á árunum 2005–2007. Kostnaður vegna upplýsingafulltrúa nam 8.302.544 kr. árið 2005, 4.851.945 kr. árið 2006 og 13.493.791 kr. árið 2007, alls 26.647.280 kr.

     2.      Hvaða upplýsingar fengu íslensk stjórnvöld um það hvernig fjárframlögum í NTM-I- verkefnið yrði varið og í hverju þjálfun og störf öryggissveitanna fælust?
    Þjálfunaráætlun Atlantshafsbandalagsins var komið á fót að beiðni bráðabirgðastjórnvalda í Írak með lagastoð í ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1546 frá 8. júní 2004 um uppbyggingu Íraks. Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins í Istanbúl í júní 2004 samþykkti að styðja uppbyggingu öryggissveita í Írak. Aðgerðaáætlun (e. operational plan) fyrir þjálfunarverkefnið var samþykkt af fastaráði Atlantshafsbandalagsins í nóvember 2004. Í áætluninni kemur fram að verkefnið feli í sér þjálfun liðsmanna hers og lögreglu til að sinna þjálfunar- og kennslustörfum fyrir her- og lögreglulið í Írak (e. train the trainer) innan Íraks og í aðildarríkjum bandalagsins. Meginmarkmið þjálfunarverkefnisins var að efla þekkingu og getu hers og lögreglu í Írak til að tryggja öryggi almennra borgara og stjórnvalda. Einnig kom skýrt fram í aðgerðaáætluninni að verkefnið yrði framkvæmt í samræmi við alþjóðalög og mannréttinda- og mannúðarlög. Öll aðildarríki bandalagsins auk samstarfsríkja studdu verkefnið með fjárframlögum og/eða starfsliði. Þjálfunarverkefni Atlantshafsbandalagsins lauk í árslok 2011.

     3.      Er ráðherra kunnugt um efni heimildarmyndar Guardian og BBC um öryggissveitirnar frá 6. mars 2013 sem byggist m.a. á skjölum um Íraksstríðið sem birt voru á vef Wikileaks árið 2010?
    Já. Heimildarmyndin virðist fyrst og fremst fjalla um aðkomu bandarískra stjórnvalda að þjálfun íraskra öryggissveita fljótlega eftir lok Íraksstríðsins. Bandarísk stjórnvöld ráku eigin þjálfunaráætlun, MNSTC-I (Multi-National Security Transition Command – Iraq), í samstarfi við írösk stjórnvöld. MNSTC-I verkefnið laut ekki stjórn NATO og var sett á laggirnar áður en þjálfunarverkefni Atlantshafsbandalagsins hóf starfsemi í Írak. Eftir að þjálfunarverkefnið hóf starfsemi síðla árs 2005 sinnti yfirmaður MNSTC-I, sem ávallt var bandarískur hershöfðingi, yfirmannsstöðu í báðum verkefnunum enda þótt forræðið væri annars vegar hjá Atlantshafsbandalaginu í tilfelli þjálfunarverkefnis bandalagsins og hins vegar hjá bandarískum stjórnvöldum í tilfelli MNSTC-I. Ísland tók ekki þátt í starfsemi MNSTC-I.

     4.      Er ráðherra kunnugt um uppljóstranir á vef Wikileaks um starfsemi öryggissveitanna, þ.e. um:
              1.      rekstur öryggissveitanna á svokölluðum pyndingafangelsum í Írak,
              2.      að yfirmaður NTM-I-verkefnisins kom að uppbyggingu fangelsa, t.d. með ráðgjöf við uppsetningu,
              3.      að opinber stefna bandarískra yfirvalda og NATO hafi verið að bregðast ekki við grunsemdum og vitneskju um pyndingar í fangelsum öryggissveitanna,
              4.      að sjía-múslímar í Írak voru teknir inn í svonefndar SPC-sveitir, sem heyrðu undir fyrrnefnt NTM-I-verkefni, til að beita súnní-múslíma hörku í kjölfar uppreisnartilburða þeirra gegn Bandaríkjaher og veru NATO í landinu?

    Ráðherra er kunnugt um fréttir sem unnar hafa verið upp úr gögnum frá Wikileaks. Mikið magn af gögnum frá Wikileaks hefur komið fram og ekki víst að ráðuneytið þekki til þeirra allra. Þjálfunarverkefni Atlantshafsbandalagsins kom ekki að aðgerðum eða stjórnun íraskra öryggissveita sem voru á forræði stjórnvalda í Írak. Íslensk stjórnvöld geta ekki svarað fyrir upplýsingastefnu bandarískra stjórnvalda en Atlantshafsbandalagið hefur almennt ekki tjáð sig um óstaðfest trúnaðargögn sem lekið hefur verið.

     5.      Hafa íslensk stjórnvöld brugðist á einhvern hátt við, eða hafa þau ráðgert að bregðast við, framkomnum upplýsingum um starfsemi öryggissveitanna sem Ísland tók þátt í að fjármagna? Hafa þau krafist skýringa innan NATO á þeim? Ef svo er, með hvaða hætti?
    Ísland tók ekki þátt í að fjármagna öryggissveitir heldur studdi við þjálfunarverkefni Atlantshafsbandalagsins fyrir her og lögreglu í Írak ásamt öðrum aðildarríkjum bandalagsins. Ekki hefur verið óskað eftir frekari upplýsingum frá Atlantshafsbandalaginu um starfsemi írösku öryggissveitanna þar sem engar upplýsingar hafa komið fram, sem ráðuneytinu er kunnugt um, sem benda til þess að þjálfunarverkefni Atlantshafsbandalagsins hafi stutt við pyndingar eða önnur mannréttindabrot á vegum íraskra öryggissveita.

     6.      Telur ráðherra ásættanlegt að íslenska ríkið liggi undir ámæli fyrir að hafa tekið þátt í að fjármagna þjálfun öryggissveita sem hafa orðið uppvísar að afar grófum pyndingum, limlestingum og manndrápum?
    Íslensk stjórnvöld leggja þunga áherslu á að mannréttinda- og mannúðarlög séu að fullu virt af öllum alþjóðastofnunum sem Ísland á aðild að, þar á meðal í öllu starfi Atlantshafsbandalagsins. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að upplýsingar hafi komið fram sem gefa tilefni til að ætla að verkefnið hafi gengið gegn þeirri grundvallarstefnu og áherslu Íslands. Markmið verkefnisins var þvert á móti að styrkja þekkingu og getu lögreglu og hers í Írak til að standa vörð um öryggi almennra borgara og stjórnvalda. Starfsemi íraskra öryggissveita var og er á ábyrgð stjórnvalda í Írak.