Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 306. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 588  —  306. mál.




Frumvarp til laga



um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur ríkissjóðs.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar (GÞÞ, VigH, ÁsmD, HarB, KG, ValG).


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 38/2010, um Íslandsstofu.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      1. tölul. fellur brott.
     b.      Í stað orðanna „tekjum af markaðsgjaldi“ í 5. tölul. kemur: framlagi í fjárlögum.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist: er renna í ríkissjóð.
     b.      Í stað 3. og 4. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Tekjur af strandveiðigjaldi renna í ríkissjóð.

3. gr.

    2. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist: sem renna í ríkissjóð.

5. gr.

    Við 5. mgr. 4. gr. laganna bætist: og rennur gjaldið í ríkissjóð.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 15. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „Fiskistofu gjald“ í 3. málsl. kemur: er rennur í ríkissjóð.
     b.      Við 5. málsl. bætist: er renna í ríkissjóð.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, með síðari breytingum.

7. gr.

    Við 3. málsl. 4. mgr. 14. gr. laganna bætist: og skulu tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, með síðari breytingum.

8. gr.

    Við 5. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tekjur af gjaldtöku samkvæmt ákvæðum þessarar greinar renna í ríkissjóð.

9. gr.

     Við 8. gr. a laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tekjur af gjaldtöku samkvæmt þessari grein renna í ríkissjóð.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 51/1981, um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum, með síðari breytingum.

10. gr.

    Við 2. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tekjur af gjaldtöku samkvæmt þessari grein renna í ríkissjóð.

VII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 55/1998, um sjávarafurðir, með síðari breytingum.

11. gr.

    Við 2. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna bætist: og rennur í ríkissjóð.

12. gr.

    Í stað orðanna „ekki er hærra en raunkostnaður við eftirlit til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við eftirlitið“ í 1. málsl. 1. mgr. 31. gr. a laganna kemur: rennur í ríkissjóð. Gjaldið skal ekki vera hærra en raunkostnaður við eftirlit til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við eftirlitið.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir, með síðari breytingum.

13. gr.

    Í stað orðanna „ekki er hærra en raunkostnaður við eftirlitið til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við eftirlitið“ í 1. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna kemur: rennur í ríkissjóð. Gjaldið skal ekki vera hærra en raunkostnaður við eftirlit til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við eftirlitið.

14. gr.

    Við 1. málsl. 2. mgr. 16. gr. laganna bætist: sem rennur í ríkissjóð.

15. gr.

    Við 17. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Gjöld þessi renna í ríkissjóð.

IX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, með síðari breytingum.

16. gr.

    Við 3. mgr. 11. gr. laganna bætist: og rennur gjaldið í ríkissjóð.

X. KAFLI
Breyting á lögum nr. 93/1995, um matvæli, með síðari breytingum.

17. gr.

    Í stað orðanna „ekki er hærra en raunkostnaður við eftirlitið til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við eftirlitið“ í 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna kemur: rennur í ríkissjóð. Gjaldið skal ekki vera hærra en raunkostnaður við eftirlitið til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við eftirlitið.

18. gr.

    Við 26. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Gjaldið rennur í ríkissjóð.

XI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum.

19. gr.

    3. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Gjald skv. 2. mgr. skal renna í ríkissjóð.

XII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð.

20. gr.

    A-liður 4. gr. laganna fellur brott.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Veiðiréttarhafar skulu greiða 2% gjald af hreinum tekjum af veiði í ám og vötnum á hverju almanaksári og rennur gjaldið í ríkissjóð.
     b.      Í stað orðsins „Fiskræktarsjóði“ í 2. mgr. kemur: ríkissjóði.

XIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, með síðari breytingum.

22. gr.

    Á eftir orðinu „grein“ í 6. málsl. 5. mgr. 13. gr. laganna kemur: renna í ríkissjóð og.

23. gr.

    13. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Póst- og fjarskiptastofnun annast innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein og renna þau í ríkissjóð.

24. gr.

    7. mgr. 14. gr. a laganna orðast svo:
    Póst- og fjarskiptastofnun annast innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein og renna þau í ríkissjóð.

XIV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

25. gr.

    2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Tekjur af bensíngjaldi renna í ríkissjóð.

XV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum.

26. gr.

    Í stað orðanna „renna til Vegagerðarinnar að frádregnum 0,5% sem renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laga þessara“ í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: renna í ríkissjóð.

XVI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 73/2001, um fólksflutninga og farmflutninga á landi, með síðari breytingum.

27. gr.

    4. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Framangreind gjöld skulu renna í ríkissjóð. Samgöngustofu er heimilt að fela þriðja aðila eftirlit samkvæmt lögum þessum.

XVII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 134/2001, um leigubifreiðar, með síðari breytingum.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 12. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „til Samgöngustofu eða eftir atvikum til einstakra sveitarstjórna enda hafi þeim verið falin framkvæmd mála er varða leigubifreiðar innan sveitarfélagsins, sbr. 4. mgr. 2. gr.“ í 1. málsl. kemur: í ríkissjóð.
     b.      2. málsl. fellur brott.

XVIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, með síðari breytingum.

29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Orðin „er renni til Samgöngustofu“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Gjöld samkvæmt ákvæði þessu renna í ríkissjóð.

30. gr.

    Við 15. gr. laganna bætist: og renna í ríkissjóð.

XIX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 132/1999, um vitamál, með síðari breytingum.

31. gr.

    1. málsl. 6. gr. laganna orðast svo: Greiða skal vitagjald af skipum sem sigla við Íslandsstrendur og hafa hér viðkomu og rennur gjaldið í ríkissjóð.

XX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, með síðari breytingum.

32. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Orðin „og skulu þau gjöld standa undir kostnaði Samgöngustofu sem af því hlýst“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Við 2. mgr. bætist: og renna í ríkissjóð.

XXI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum.

33. gr.

    Við 3. mgr. 28. gr. laganna bætist: og skulu gjöldin renna í ríkissjóð.

XXII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 35/2010, um lögskráningu sjómanna, með síðari breytingum.

34. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:
     a.      Orðin „til Samgöngustofu“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Gjöldin renna í ríkissjóð.

XXIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

35. gr.

    Á eftir orðinu „gjald“ í 3. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna kemur: í ríkissjóð.

36. gr.

         Við 1. mgr. 30. gr. laganna bætist: og rennur gjaldið í ríkissjóð.

37. gr.

    Við 34. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Tekjur af gjöldum samkvæmt ákvæðum þessa kafla renna í ríkissjóð.

XXIV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „til stofnunarinnar“ í 1. mgr. kemur: í ríkissjóð.
     b.      Í stað orðanna „óskipt til Þjóðskrár Íslands“ í 3. mgr. kemur: í ríkissjóð.

XXV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 54/1962, um þjóðskrá og almannaskráningu, með síðari breytingum.

39. gr.

    Á eftir orðunum „innheimtu gjalds“ í 3. mgr. 19. gr. laganna kemur: sem rennur í ríkissjóð.

XXVI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

40. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Tekjur af almennu tryggingagjaldi og atvinnutryggingagjaldi renna í ríkissjóð.

41. gr.

    1. málsl. 18. gr. laganna orðast svo: Framlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða skal ákvarðað í fjárlögum hverju sinni.

42. gr.

    23. gr. a laganna orðast svo:
    Framlag til starfsendurhæfingarsjóða, sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, skal ákvarðað í fjárlögum hverju sinni.

43. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum fellur brott.

XXVII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

44. gr.

    3. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Tekjur Fæðingarorlofssjóðs eru árlegt framlag í fjárlögum auk vaxta af innstæðufé sjóðsins.

XXVIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

45. gr.

    1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Atvinnuleysisbætur skulu greiddar úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs eru árlegt framlag í fjárlögum auk vaxta af innstæðufé sjóðsins.

46. gr.

    Í stað orðanna „atvinnutryggingagjaldi þessara stétta, sbr. lög um tryggingagjald“ í 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: árlegu framlagi í fjárlögum.

XXIX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

47. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: sem renna í ríkissjóð.
     b.      2. málsl. 3. mgr. fellur brott.

XXX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

48. gr.

    7. gr. laganna fellur brott.

XXXI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, með síðari breytingum.

49. gr.

    3. mgr. 4. gr. b laganna orðast svo:
    Framlag í lýðheilsusjóð skal ákveðið í fjárlögum hverju sinni.

XXXII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, með síðari breytingum.

50. gr.

    15. gr. laganna fellur brott.

XXXIII. KAFLI
Breyting á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

51. gr.

    Við 2. málsl. 17. mgr. 3. gr. laganna bætist: og renna í ríkissjóð.

XXXIV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 44/2002, um geislavarnir, með síðari breytingum.

52. gr.

    Við 3. málsl. 19. gr. laganna bætist: og skulu tekjur af gjöldunum renna í ríkissjóð.

XXXV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

53. gr.

    Við 2. mgr. 49. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Gjöld þessi renna í ríkissjóð.

54. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 74. gr. laganna:
     a.      Orðin „og af öðrum tekjum hennar“ í 3. mgr. falla brott.
     b.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Gjöld þessi renna í ríkissjóð.

XXXVI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 100/2010, um umboðsmann skuldara, með síðari breytingum.

55. gr.

    Við 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna bætist: sem rennur í ríkissjóð.

XXXVII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

56. gr.

    5. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Gjaldið rennur í ríkissjóð.

XXXVIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum.

57. gr.

    Á eftir orðinu „gjald“ í 6. mgr. 26. gr. laganna kemur: er rennur í ríkissjóð.

XXXIX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

58. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ríkisskattstjóri skal leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sérstakt gjald til að standa undir útgjöldum í samræmi við markmið laganna. Tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                      Tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra eru árlegt framlag í fjárlögum, frjáls framlög, aðrar tekjur er til kunna að falla og vaxtatekjur.
     c.      5. mgr. fellur brott.

XL. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum.

59. gr.

    Við 1. mgr. 17. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Innheimtur á kröfum sjóðsins renna í ríkissjóð.

60. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Greiða skal sérstakt ábyrgðargjald af greiddum vinnulaunum, þóknun og reiknuðu endurgjaldi, hvaða nafni sem nefnist, sem skattskylt er og rennur gjaldið í ríkissjóð.
     b.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Tekjur Ábyrgðasjóðs launa eru árlegt framlag í fjárlögum auk vaxta af innstæðufé sjóðsins.
     c.      Orðin „og skoðast það sem lántaka“ í 2. málsl. 3. mgr. falla brott.

XLI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum.

61. gr.

    Við 147. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Tekjur af gjöldum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar renna í ríkissjóð.

XLII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá, með síðari breytingum.

62. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Tekjur af gjöldum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar renna í ríkissjóð.

63. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Tekjur af gjöldum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar renna í ríkissjóð.

XLIII. KAFLI
Breyting á tollalögum nr. 88/2005, með síðari breytingum.

64. gr.

    Á eftir orðinu „gjöld“ í 1. málsl. 1. mgr. 195. gr. laganna kemur: sem renna í ríkissjóð.

XLIV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála, með síðari breytingum.

65. gr.

    Í stað orðanna „til Ferðamálastofu“ í 1. málsl. 5. mgr. 18. gr. laganna kemur: í ríkissjóð.

XLV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 99/2004, um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa.

66. gr.

    Við 2. mgr. 4. gr. laganna bætist: og renna gjöldin í ríkissjóð.

XLVI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur.

67. gr.

    Við 5. mgr. 5. gr. laganna bætist: og rennur gjaldið í ríkissjóð.

XLVII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

68. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „rekstur Fjármálaeftirlitsins“ í 1. mgr. kemur: opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                      Eftirlitsgjald samkvæmt þessum lögum er innheimt af Fjármálaeftirlitinu og rennur í ríkissjóð.

XLVIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

69. gr.

    Við 3. málsl. 2. mgr. 53. gr. laganna bætist: og rennur gjaldið í ríkissjóð.

XLIX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum.

70. gr.

    4. mgr. 68. gr. laganna orðast svo:
    Einkaleyfastofa leggur á og innheimtir gjöld samkvæmt lögum þessum og renna gjöldin í ríkissjóð.

L. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1997, um vörumerki.

71. gr.

    Á eftir 66. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Einkaleyfastofa leggur á og innheimtir gjöld samkvæmt lögum þessum og renna gjöldin í ríkissjóð.

LI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 46/2001, um hönnun, með síðari breytingum.

72. gr.

    Við 2. málsl. 1. mgr. 36. gr. laganna bætist: sem rennur í ríkissjóð.

73. gr.

    3. mgr. 53. gr. laganna orðast svo:
    Einkaleyfastofa leggur á og innheimtir gjöld samkvæmt lögum þessum og renna gjöldin í ríkissjóð.

LII. KAFLI
Breyting á efnalögum, nr. 61/2013.

74. gr.

    Við 5. málsl. 2. mgr. 54. gr. laganna bætist: og renna þau í ríkissjóð.

LIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

75. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      2. og 3. málsl. 3. mgr. falla brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Tekjur af gjöldum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar renna í ríkissjóð.

76. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Tekjur af gjöldum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar renna í ríkissjóð.

LIV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

77. gr.

    Við 5. málsl. 21. gr. laganna bætist: og renna þau í ríkissjóð.

LV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda.

78. gr.

    Við 5. málsl. 5. mgr. 13. gr. laganna bætist: og renna þau í ríkissjóð.

LVI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, með síðari breytingum.

79. gr.

    Við 5. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna bætist: og renna þau í ríkissjóð.

LVII. KAFLI
Breyting á skipulagslögum, nr. 123/2010.

80. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      2.–4. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „innheimtu og ráðstöfun“ í 4. mgr. kemur: og innheimtu.

81. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Skipulagssjóði“ í 2. tölul. og 1. málsl. 3. tölul. kemur: ríkissjóði.
     b.      4. tölul. orðast svo: Ríkissjóður skal árlega greiða sveitarfélagi sem ekki fær framlag skv. 3. tölul. fjárhæð sem nemur helmingi innheimtra skipulagsgjalda í sveitarfélaginu.
     c.      Í stað orðsins „Skipulagssjóðs“ í 6. tölul. kemur: ríkissjóðs.
     d.      Í stað orðanna „sem árlega fá endurgreiddan helming innheimtra skipulagsgjalda, sbr. 4. tölul.“ í 6. tölul. kemur: sem fá framlag skv. 4. tölul.

LVIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 103/2006, um landmælingar og grunnkortagerð.

82. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Orðið „sér“ í 2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tekjur af gjöldum skv. 1. tölul. 1. mgr. renna í ríkissjóð.

LIX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, með síðari breytingum.

83. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Tekjur af gjöldum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar renna í ríkissjóð.

LX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 160/2010, um mannvirki, með síðari breytingum.

84. gr.

    Við 2. málsl. 2. mgr. 26. gr. laganna bætist: og renna í ríkissjóð.

85. gr.

    4. málsl. 1. mgr. 50. gr. laganna orðast svo: Tekjur af byggingaröryggisgjaldi renna í ríkissjóð.

86. gr.

    Við 3. málsl. 52. gr. laganna bætist: og rennur það í ríkissjóð.

LXI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, með síðari breytingum.

87. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Leggja skal árlegt gjald á allar brunatryggðar húseignir sem nemur 0,3‰ af vátryggingarverðmæti. Gjaldið skal innheimt ásamt iðgjaldi til Viðlagatryggingar Íslands og fer um innheimtu þess samkvæmt lögum um viðlagatryggingu, þar á meðal skal gjaldið njóta lögtaksréttar og lögveðréttar í vátryggðri eign. Tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð. Álagning gjalds þessa skal ekki hafa áhrif til hækkunar á innheimtuþóknun til vátryggingafélaga samkvæmt lögum um viðlagatryggingu.
    Sérstakur sjóður ríkisins, ofanflóðasjóður, er í vörslu ráðuneytisins.
    Tekjur sjóðsins eru:
     1.      Árlegt framlag í fjárlögum.
     2.      Vaxtatekjur, sbr. 13. gr.
     3.      Aðrar tekjur.
    Lán til starfsemi sjóðsins, sem eru með ábyrgð ríkissjóðs, skulu háð samþykki hlutaðeigandi ráðherra.

LXII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 60/1998, um loftferðir, með síðari breytingum.

88. gr.

    Við 3. málsl. 6. mgr. 126. gr. c laganna bætist: og rennur gjaldið í ríkissjóð.

LXIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 34/1992, um Jarðasjóð, með síðari breytingum.

89. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Tekjur Jarðasjóðs eru framlag í fjárlögum ár hvert sem nauðsynlegt er talið til þess að sjóðurinn geti gegnt hlutverki sínu.

90. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2015.

Greinargerð.

1.     Tilefni lagasetningar.
    Frumvarp þetta á sér nokkurn aðdraganda, en á undanförnum árum hefur oft komið til umræðu að æskilegt væri að draga úr þeirri víðtæku mörkun ríkistekna sem lengi hefur tíðkast, bæði til að einfalda og styrkja fjárstjórnarvald Alþingis og fjármálastjórn stjórnsýslunnar og til að draga úr ógagnsæi og sveiflum sem þetta fyrirkomulag veldur í fjárreiðum þeirra aðila sem tekjurnar renna til. Það sjónarmið hefur einnig komið fram að mikilvægt sé að allar stofnanir ríkisins sitji við sama borð þegar kemur að ákvörðun fjárheimilda og aðhaldsráðstafana. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur tekið undir þessi sjónarmið og fjárlaganefnd Alþingis hefur margoft tekið undir gagnrýni Ríkisendurskoðunar á núverandi fyrirkomulag vegna markaðra tekna.
    Með mörkuðum tekjum er átt við lögþvingaðar ríkistekjur sem samkvæmt sérlögum eru sérstaklega eyrnamerktar til þess að standa undir kostnaði við tiltekna málaflokka, verkefni eða stofnanarekstur. Markaðar tekjur skiptast í tvo meginflokka. Annars vegar er um að ræða skatttekjur sem ráðstafað er til tiltekinna verkefna, án þess að veitt sé þjónusta á móti tekjunum, og hins vegar aðrar rekstrartekjur ríkissjóðs sem eru einnig lögþvingaðar en þá er skilyrt að á móti komi þjónusta stofnunar.
    Þó að hætt yrði að færa markaðar tekjur og aðrar rekstrartekjur í reikninga stofnana yrðu þessar tekjur eftir sem áður færðar í reikningshaldi ríkissjóðs og þar tiltækar til samanburðar við útgjöld viðkomandi stofnana og málaflokka. Markaðar tekjur eru af margvíslegum toga og eru tilgreindar í fjölda sérlaga. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á mörgum lögum í því skyni að leggja af markaðar tekjur. Þær renni því ávallt í ríkissjóð og séu ekki færðar í bókhaldi stofnana eða fjárlagaliða á gjaldahlið ríkisins.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að viðkomandi fjárlagaliðir fái beint framlag úr ríkissjóði jafnhátt áætluðum tekjum. Þannig felur frumvarpið ekki í sér skerðingu á framlögum til stofnana heldur eingöngu breytingu á framsetningu reikningsskila þeirra. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á reikningshaldi eða öðru fyrirkomulagi vegna sértekna stofnana.
    Ávinning af þessum breytingum má draga saman í eftirfarandi þætti:
          Ákvarðanir um ráðstöfun á ríkistekjum verða einungis teknar í fjárlögum og fjáraukalögum.
          Eftiráheimildir í lokafjárlögum leggjast af.
          Óvissu eytt um það hverjar séu fjárheimildir stofnana á fjárlagaárinu.
          Útgjaldavöxtur í gegnum sjálfvirkt streymi ríkistekna til stofnana leggst af.
          Einfaldar fjárlagagerð og reikningsskil stofnana, gerð ríkisreiknings og lokafjárlaga.
          Styrkir og einfaldar fjármálastjórn ríkisstofnana og ríkisins í heild.
          Styður við útgjaldamarkmið rammafjárlagagerðar.
          Styður við fjárveitingar- og fjárstjórnarvald Alþingis.

2.     Rökstuðningur fyrir framlagningu frumvarpsins.
    Í ýmsum sérlögum er mælt fyrir um skyldu eða heimild til að leggja á og innheimta sérstaka skatta og gjöld til að standa undir kostnaði við tiltekna málaflokka, verkefni eða stofnanarekstur. Sem dæmi má nefna ýmis leyfis-, eftirlits- og skoðunargjöld Fiskistofu, Matvælastofnunar, Lyfjastofnunar og Neytendastofu og tekjur Þjóðskrár og ríkisskattstjóra fyrir aðgang og afnot af opinberum skrám. Í lögum sem beinlínis snúa að tekjuöflun ríkissjóðs getur einnig verið kveðið á um til hvaða verkefna tekjunum skuli varið. Sem dæmi má nefna lög um olíugjald og kílómetragjald og lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. þar sem tiltekið er að tekjunum skuli varið til vegagerðar og lög um tryggingagjald þar sem kveðið er á um að tekjurnar skuli skiptast í tilteknum hlutföllum milli Atvinnuleysistryggingasjóðs, Fæðingarorlofssjóðs og fleiri aðila. Í fjárlögum eru tekjur sem þannig er kveðið á um í lögum settar fram sem markaðar tekjur eða aðrar rekstrartekjur stofnana sem varið er til að fjármagna fjárheimildir viðkomandi stofnana og verkefna. Markaðar tekjur og aðrar rekstrartekjur stofnana eru því á sama hátt í flokki ríkistekna sem innheimtar eru með lögþvingun. Nánar tiltekið eru markaðar tekjur skatttekjur sem aflað er samkvæmt sérlögum þar sem kveðið er á um að þeim skuli varið til að fjármagna útgjöld tiltekinna málaflokka, stofnana eða verkefna. Aðrar rekstrartekjur stofnana eru tekjur sem verja ber til að fjármagna útgjöld stofnana eða verkefna samkvæmt sérlögum en teljast ekki vera skatttekjur.
    Þótt tekna til að standa undir útgjöldum tiltekinna málaflokka eða verkefna sé aflað samkvæmt sérlögum hlýtur það jafnan að vera sjálfstæð ákvörðun Alþingis fyrir fram við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni hvort og þá hversu mikið fé er veitt til viðkomandi verkefna á fjárlagaárinu. Í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“ Hvernig svo sem fjármögnun verkefna ríkisins er háttað ætti að vera ljóst að samkvæmt stjórnarskránni liggur fjárveitingarvaldið hjá Alþingi og að heimild til greiðslu gjalda úr ríkissjóði verður aðeins sótt þangað. Tekjur geta hins vegar verið mismiklar frá ári til árs og taka breytingum í takt við hagsveiflur, eftirspurn eða aðra hagræna þætti án þess að það þurfi ávallt að vera í beinu sambandi við árlega fjárþörf viðkomandi stofnunar eða ákvörðun fjárveitingavaldsins um framlög til verkefnis. Nægir í því sambandi að nefna tekjur af bensíngjaldi og ákvörðun í fjárlögum um framlög til framkvæmda í vegamálum, svo sem stórframkvæmda á borð við jarðgöng, eða tekjur af tryggingagjaldi og útgjöld Fæðingarorlofssjóðs eða sveiflukenndar tekjur fyrir skráningu ökutækja og rekstrarkostnað Samgöngustofu. Við skoðun á því hvort ríkisaðilar fylgi fyrirmælum fjárlaga hlýtur því fremur að vera horft til þess hvort útgjöld séu innan settra fjárheimilda fremur en hvort markaðar tekjur hafa skilað meiru eða minna en áætlað var í fjárlögum.
    Það samræmist ekki fjármálastjórn rammafjárlagagerðar, sem miðar að því að halda útgjöldum innan fyrir fram ákveðins útgjaldaramma, að fjárheimildum stofnana sé breytt eftir á í lokafjárlögum út frá reikningsuppgjöri markaðra tekna liðins árs fremur en að þær haldist við þá áætlanagerð og forgangsröðun sem ákveðin hefur verið í fjárlögum. Alþjóðastofnanir, svo sem OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, hafa bent á að umfang markaðra tekna hérlendis sé mun meira en almennt gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með tillögum um nýja rammalöggjöf um opinber fjármál kemur fram að um 17% af ríkisútgjöldum eru fjármögnuð með sértekjum eða mörkuðum tekjum sem er næst hæsta hlutfallið meðal fjölmargra ríkja samkvæmt könnun sjóðsins. Aðeins á Írlandi er hlutfallið hærra.
    Færsla markaðra skatttekna og annarra rekstrartekna í reikninga stofnana án tillits til þeirrar heimildar sem viðkomandi hefur í fjárlögum og fjáraukalögum til að ráðstafa tekjunum hefur valdið ýmsum vandkvæðum og flækjum í reikningsuppgjöri stofnana og tafið mjög fyrir framlagningu árlegra lokafjárlaga. Má þar nefna óvissu í viðskiptastöðu innan ársins gagnvart ríkissjóði, óskýra stöðu gagnvart fjárheimildum og myndun svonefnds bundins eigin fjár í reikningum stofnana. Það má einnig telja rekast á við fjárveitingarvaldið að færa ríkisaðila til tekna og eignar í uppgjöri ríkisreiknings meira af tekjum ríkissjóðs en heimilað hefur verið í fjárlögum og fjáraukalögum. Núverandi fyrirkomulag kallar auk þess á verulega vinnu við sérstakt utanumhald um þessar tekjur og ráðstöfunarrétt á þeim bæði í fjárlögum og ríkisreikningi og í lokafjárlögum sem felur í sér umtalsverðan kostnað og óhagræði hjá fámennri stjórnsýslu.
    Taka má Vegagerðina sem dæmi um stofnun sem lengi hefur verið gert ráð fyrir að væri fjármögnuð alfarið með mörkuðum tekjum. Reyndin hefur hins vegar verið sú að útgjaldaheimildir stofnunarinnar í fjárlögum hafa farið algerlega úr takti við markaðar tekjur málaflokksins. Samkvæmt lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., renna tekjur af vörugjöldum á ökutæki og tekjur af almennu vörugjaldi á bensín í ríkissjóð en tekjum af sérstöku vörugjaldi á bensín skal varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun. Tekjur samkvæmt lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, renna til Vegagerðarinnar. Tekjur samkvæmt lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, renna til ríkissjóðs. Í öllum þessum tilvikum er um að ræða álögur á eigendur eða rekstraraðila ökutækja en tekjunum er ýmist ætlað að fjármagna útgjöld vegamála eða renna í ríkissjóð. Í fjárlögum eru öll framlög til vegamála talin vera fjármögnuð með mörkuðum skatttekjum nema annað hafi sérstaklega verið ákveðið. Nægi tekjur viðkomandi árs ekki til að fjármagna fjárveitingar hefur í reynd verið gert ráð fyrir að ríkissjóður veiti stofnuninni vaxtalaust lán fyrir því sem upp á vantar og að það verði endurgreitt af framtíðartekjum sem markaðar eru vegamálum og Vegagerðinni. Uppsöfnuð áhrif þessa fyrirkomulags eru m.a. þau að samkvæmt ríkisreikningi 2012 er höfuðstóll Vegagerðarinnar í árslok jákvæður um rúmar 400 millj. kr. en bundið eigið fé neikvætt um 16,1 milljarð kr. Þetta þýðir að reikningsfærð útgjöld hafa verið 400 millj. kr. innan fjárheimilda en fjárveitingar fjármagnaðar með mörkuðum tekjum 16,1 milljarði kr. umfram tekjurnar. Vandséð er að þetta fyrirkomulag markaðra tekna í vegamálum þjóni nokkrum tilgangi lengur. Mun gagnsærra og einfaldara fyrirkomulag væri að láta þessa tekjustofna renna í ríkissjóð og veita í þess stað bein framlög til reksturs og framkvæmda í vegamálum í samræmi við ákvarðanir og forgangsröð stjórnvalda um umsvifin á hverju fjárlagaári. Þó svo að þessum bókhaldstilfæringum við að sýna fjármögnun útgjalda í fjárlögum yrði hætt mundi eftir sem áður vera jafnauðvelt að bera saman fjárveitingar til framkvæmda í vegamálum og tekjur af bifreiðum og umferð því tekjurnar verða eftir sem áður færðar í bókhaldi ríkisins og upplýsingar um tekjur, fjárheimildir og gjöld þar jafnaðgengilegar og tiltækar og verið hefur. Alþingi hefur ákveðið bæði fjárheimildirnar og mörkun teknanna sem þessi staða er reist á en getur einnig gert þær breytingar með lagasetningu sem þarf til að setja þessa framsetningu fjármála ríkisins á annan og skýrari grundvöll.
    Annað dæmi er ráðstöfun á mörkuðum tekjum af tryggingagjaldi til lífeyristrygginga. Tilgangurinn hefur upphaflega verið að mörkuðu tekjunar fjármögnuðu að fullu útgjöld lífeyristrygginga. Sú hefur þó ekki verið raunin þar sem ríkissjóði ber að greiða fyrir þau lífeyrisréttindi sem ákvörðuð eru í lögum óháð því hvort tryggingagjaldsstofninn hækki eða lækki milli ára. Á undanförnum árum hefur fjármögnun útgjalda lífeyristrygginga með tryggingagjaldinu farið stöðugt minnkandi. Það skýrist m.a. af ákvörðunum stjórnvalda um aukin réttindi án þess að tryggingagjaldið hafi verið hækkað til samræmis og kemur glögglega fram í eftirfarandi línuriti þar sem sést að árið 2006 námu mörkuðu tekjurnar tæpum 26 milljörðum kr. eða 77% af útgjöldunum en það hlutfall lækkaði niður í rúmlega 50% árið 2012.

    Mörkun eftirstöðva tryggingargjalds til lífeyristrygginga, í millj. kr.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Meiri hluti fjárlaganefndar telur að framangreint fyrirkomulag um mörkun tekna þjóni engum tilgangi lengur þar sem réttindin eru ákvörðuð samkvæmt lögum án þess að tryggð sé tekjuöflun á móti.

3.     Samráð og mat á áhrifum.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að beiðni fjárlaganefndar Alþingis. Nefndin hefur kynnt ráðuneytunum áform sín um framlagningu frumvarpsins og hafa flest ráðuneytin komið athugasemdum á framfæri við nefndina. Í mörgum tilvikum lögðust ráðuneytin gegn frumvarpinu og má flokka athugasemdir þeirra í þrennt.
    Í fyrsta lagi var talið að oft væru tengsl á milli kostnaðar stofnunar og tekjuöflunar, þ.e. aukin tekjuöflun markaðra tekna eða rekstrartekna kallar jafnframt á aukin útgjöld. Í öðru lagi hefur verið vísað til þess að mörkun tekna byggist á samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins eða samræmdu evrópsku regluverki. Loks hefur verið bent á að markaðar tekjur byggist á áralangri hefð og að almennt sátt ríki um núverandi fyrirkomulag.
    Meiri hluti fjárlaganefndar telur að með þeim röksemdum sem raktar eru hér að framan sé athugasemdum ráðuneytanna svarað og að ekki sé ástæða til þess að taka undir athugasemdirnar, nema í þeim algeru undantekningartilvikum þegar um er að ræða að ríkið leggur á skatta eða gjöld og innheimtir fyrir aðra en ríkisaðila, t.d. höfundarréttargjöld sem renna til samtaka höfundarréttarfélaga og búnaðargjald sem er varið til verkefna á vegum samtaka bænda. Ekki eru lagðar til lagabreytingar í þessum tilfellum.
    Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt lækka markaðar tekjur úr 106,4 milljörðum kr. í tæpa 5 milljarða kr. eða um 95%. Ekki er ráðgert að frumvarpið feli í sér skerðingu á rekstrarumfangi stofnana.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Íslandsstofa tók við verkefnum og efnahag Útflutningsráðs Íslands, þar með líka mörkuðum tekjustofni í formi markaðsgjalds sem er 0,05% af gjaldstofni tryggingagjalds sem er áætlað 486 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013. Hér er um ríkisstofnun að ræða og lagt er til að fjármögnun hennar verði með sama hætti og annarra stofnana, þ.e. með framlagi í fjárlögum í stað markaðra tekna.

Um 2.–5. gr.

    Í lögum um veiðieftirlitsgjald er kveðið á um þrenns konar gjaldtöku. Í fyrsta lagi er gjald fyrir almennt leyfi til veiða í atvinnuskyni og veiðileyfi, í öðru lagi er gjald fyrir staðfestingu Fiskistofu á flutningi sóknardaga eða aflahlutdeildar milli skipa og í þriðja lagi gjald vegna eftirlitsmanna um borð í skipum. Þessi innheimta er samtals áætluð 66,9 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013. Í öllum tilfellum er lagt til að viðkomandi ríkistekjur renni í ríkissjóð en útgjöld Fiskistofu verði þess í stað fjármögnuð í fjárlögum.

Um 6. gr.

    Í lögum um stjórn fiskveiða er m.a. kveðið á um heimildir til þess að flytja aflamark milli skipa og gjaldtöku í því sambandi. Lagt er til að gjaldið renni í ríkissjóð.

Um 7. gr.

    Í lögum um fiskeldi er m.a. fjallað um eftirlit og skýrslugjöf og Fiskistofu falið að hafa eftirlit með fiskeldisstöðvum. Fiskeldisstöðvar skulu greiða árlegt eftirlitsgjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. Gjaldið er áætlað 0,4 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013 og nú er lagt til að það renni í ríkissjóð.

Um 8. og 9. gr.

    Greinarnar fjalla um eftirlitsgjald vegna fóðurs, áburðar og sáðvöru. Gjaldið skal greiða samkvæmt reikningi Matvælastofnunar sem aftur byggist á gjaldskrá sem ráðherra gefur út. Lagt er til að tekjurnar renni í ríkissjóð og að allur kostnaður fyrir eftirlit samkvæmt lögunum greiðist úr ríkissjóði. Í fjárlögum fyrir árið 2013 er áætlað að samtals skili þessi gjöld um 23 millj. kr. tekjum.

Um 10. gr.

    Til að standa straum af kostnaði við eftirlit með plöntum er ráðherra heimilt að láta innheimta eftirlitsgjald vegna innflutnings á plöntum og vegna dreifingar innan lands og útflutnings á innlendum plöntum. Í fjárlögum fyrir árið 2013 er áætlað að innheimtan nemi um 22 millj. kr. og eru tekjurnar markaðar til reksturs Matvælastofnunar. Lagt er til að þess í stað renni þær í ríkissjóð gegn jafnháu framlagi úr ríkissjóði til stofnunarinnar.

Um 11. og 12. gr.

    Í lögum um sjávarafurðir kemur fram í 31. gr. að ráðherra er heimilt að setja gjaldskrá um framkvæmd og inntak eftirlits Matvælastofnunar auk þess sem stofnunin getur framkvæmt viðbótareftirlit með sjávarafurðum. Lagt er til að tekjurnar renni í ríkissjóð.

Um 13.–15. gr.

    Í lögum um slátrun og sláturafurðir er fjallað um heilbrigðisskoðun í sláturhúsum og eftirlitsgjald sem sláturleyfishafar greiða vegna skoðunarinnar og eru ákvæði um gjaldið sambærileg og í lögum um sjávarafurðir. Í fjárlögum fyrir árið 2013 eru tekjurnar áætlaðar 115,5 millj. kr. og nú er lagt til að þær renni í ríkissjóð. Kostnaður vegna samræmingar á mati og flokkun sláturafurða nemur 0,55 kr. á hvert kíló kjöts sem innvegið er í sláturhúsi og eru þessar tekjur áætlaðar 10,4 millj. kr. árið 2013. Í lögunum er einnig kveðið á um gjaldskrá Matvælastofnunar vegna leyfisgjalda kjötvinnslustöðva og uppruna- og heilbrigðisvottorða fyrir sláturafurðir sem áætlaðar eru samtals 4,1 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013. Lagt er til að allar tekjurnar renni í ríkissjóð.

Um 16. gr.

    Í lögum um dýralækna er m.a. fjallað um störf héraðsdýralækna, þar á meðal að þeir sinni eingöngu opinberum eftirlitsstörfum og að fengnum tillögum Matvælastofnunar setji ráðherra reglur um eftirlitsgjald og skoðanir héraðsdýralækna og annarra dýralækna og eftirlitsmanna sem starfa við umdæmisskrifstofur stofnunarinnar. Hér er lagt til að eftirlitsgjöldin renni í ríkissjóð.

Um 17. og 18. gr.

    Í lögum um matvæli er í 25. gr. fjallað um rekstrarkostnað og gjaldtöku vegna matvælaeftirlits og útgáfu starfsleyfa og vottorða sem Matvælastofnun gefur út. Þessar tekjur ásamt tekjum af eftirliti með sjávarafurðum eru samtals áætlaðar um 75,5 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013 og er lagt til að allar tekjurnar renni í ríkissjóð.

Um 19. gr.

    Hér er lagt til að tekjur ríkisins af gjaldi vegna ólögmæts sjávarafla renni í ríkissjóð í stað Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Eftir sem áður eru tekjur sjóðsins að mestu flokkaðar sem sértekjur og renna áfram til hans. Lagt er til að eingöngu andvirði ólögmæts afla, sem áætlað er í fjárlögum fyrir árið 2013 að nemi 35 millj. kr., renni í ríkissjóð.

Um 20. og 21. gr.

    Fiskræktarsjóður hefur það hlutverk að veita lán eða styrki til verkefna til eflingar fiskrækt og til að styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti úr þeim. Lagt er til að gjald af veiðitekjum renni í ríkissjóð en þess í stað komi framlag í fjárlögum til sjóðsins. Í fjárlögum fyrir árið 2013 er áætlað að gjaldið nemi 11 millj. kr.

Um 22.–24. gr.

    Í 13. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun er fjallað um úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála og gjaldtöku vegna hennar. Í 14. gr. laganna er fjallað um rekstrargjald sem fjarskiptafyrirtæki og póstrekendur greiða til reksturs Póst- og fjarskiptastofnunar og er gjaldið ákvarðað sem hlutfall af veltu fyrirtækjanna. Þá er í 14. gr. a fjallað um gjald fyrir tíðninotkun. Lagt er til að öll gjaldtaka samkvæmt þessum lögum renni í ríkissjóð.

Um 25.–28 gr.

    Bensíngjald sem í fjárlögum fyrir árið 2013 er áætlað 7.567 millj. kr. hefur verið markað til vegagerðar að frádreginni 0,5% innheimtuþóknun til ríkissjóðs. Nú er lagt að allar markaðar tekjur Vegagerðarinnar sem samtals nema um 15,4 milljörðum kr. renni í ríkissjóð en stofnunin verði alfarið fjármögnuð með beinu ríkisframlagi. Olíugjald sem innheimt er samkvæmt lögum nr. 87/2004 er áætlað 7.016 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013 og þungaskattur er áætlaður 760 millj. kr. Vegagerðin innheimtir einnig leyfisgjöld, svo sem atvinnuleyfi leigubílstjóra, en þau vega mun minna. Rökstuðningur fyrir þessari tillögu kemur fram í almennum athugasemdum þar sem sérstaklega er bent á að útgjaldaheimildir Vegagerðarinnar hafa ekki verið í neinum takti við innheimtu markaðra tekna um árabil.

Um 29.–30. gr.

    Í III. kafla laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála er fjallað um stjórnsýslu samgöngumála er lýtur að flugmálum, hafnamálum, siglingamálum, umferðarmálum og vegamálum og margvíslega gjaldtöku samkvæmt lögunum sem samtals er áætlað að nemi 265 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013. Lagt er til að allar markaðar tekjur Samgöngustofu renni í ríkissjóð.

Um 31.–34. gr.

    Vitagjald er reiknað sem hlutfall af stærð skipa sem taka höfn hér á landi og hafa tekjurnar runnið til Samgöngustofu til að standa undir kostnaði við rekstur og framkvæmdir. Áætlað er að 255,6 millj. kr. innheimtist á yfirstandandi ári og lagt er til að framvegis renni það í ríkissjóð. Samgöngustofa innheimtir líka ýmis lögskráningar-, vottorða- og prófgjöld sem hafa flokkast sem aðrar rekstrartekjur og er einnig lagt til að þær renni í ríkissjóð. Samtals nema þær 11,1 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013.

Um 35.–37. gr.

    Í lögum um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn er að finna nokkur ákvæði um gjaldtöku Neytendastofu, m.a. prófgjöld vegna löggildingar vigtarmanna, faggildingar á kvörðunarþjónustu, löggildingargjald og ýmis eftirlitsgjöld. Samtals er áætluð 24 millj. kr. innheimta vegna þessa í fjárlögum fyrir árið 2013 og er lagt til að tekjurnar renni alfarið í ríkissjóð.

Um 38. gr.

    Í 24. gr. laga um skráningu og mat fasteigna er heimild til að setja gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og þar kemur fram að sveitarfélög greiða gjald vegna fasteignaskrár og vátryggingafélög greiða fyrir afnot af brunabótamati, auk þess að einnig er almenn heimild til innheimtu vegna úrvinnslu úr fasteignaskrá og úr þinglýsingabókum. Lagt er til að tekjur þessar, sem í fjárlögum fyrir árið 2013 er áætlað að nemi 419,5 millj. kr., renni í ríkissjóð.

Um 39. gr.

    Í 19. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu er m.a. fjallað um vottorðaútgáfu stofnunarinnar, reglugerðarheimild um setningu gjaldskrár. Í fjárlögum fyrir árið 2013 eru þessar tekjur áætlaðar samtals 314,5 millj. kr. og lagt er til að þær renni í ríkissjóð.

Um 40.–47. gr.

    Tryggingagjald eða gjaldstofn tryggingagjalds er stofn fyrir mörkun ríkistekna í nokkrum tilvikum sem talin eru upp í 3. gr. laga um tryggingagjald. Atvinnutryggingagjald er markað til Atvinnuleysistryggingasjóðs, framlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða er reiknað sem hlutfall af gjaldstofni tryggingagjalds sem og hlutdeild starfsendurhæfingarsjóða og tekjur Fæðingarorlofssjóðs. Loks hefur afgangurinn af innheimtu tryggingagjalds verið markaður til lífeyris- og slysatrygginga, jafnvel þó að þær tekjur standi aðeins undir rúmum helmingi útgjalda lífeyristrygginga. Lagt er til að mörkun þessara tekna verði aflögð og fyrrgreind verkefni fjármögnuð með beinu framlagi úr ríkissjóði. Mörkun samkvæmt þessum greinum er langveigamesta mörkun ríkistekna. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2013 er áætlað að hlutdeild Atvinnuleysistryggingasjóðs nemi 18.744 millj. kr., til Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga renni 141 millj. kr., 12.192 millj. kr. sé hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs, 2.884 millj. kr. fari til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða og loks sé hlutdeild lífeyristrygginga 35.024 millj. kr. Samtals nemur því mörkun þessara tekna 68.985 millj. kr. sem er um 2/ 3 af heildarfjárhæð markaðra tekna.

Um 48.–50. gr.

    Í þrennum lögum er fjallað um tekjur lýðheilsusjóðs. Í lögum um gjald af áfengi og tóbaki er tilgreint að 1% af innheimtu áfengisgjaldi skuli renna í lýðheilsusjóð. Innheimtan er áætluð um 118 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013 og nú er lagt til að hún renni í ríkissjóð. Í lögum um tóbaksvarnir er einnig að finna mörkun tekna sem miðast við að 0,9% af brúttósölu tóbaks skuli renna í lýðheilsusjóð. Loks er umfjöllun um lýðheilsusjóð í lögum um landlækni og lýðheilsu og kveðið á um áðurnefnda mörkun áfengisgjalds og hlutfall af brúttósölu tóbaks. Lagt er til að mörkunin verði aflögð og tekjur lýðheilsusjóðs ákveðnar í fjárlögum hverju sinni.

Um 51. gr.

    Í lyfjalögum eru hlutverk og verkefni Lyfjastofnunar skilgreind. Í 3. gr. laganna er einnig fjallað um gjaldtökuheimildir, en þar er ráðherra gert að setja gjaldskrá vegna margvíslegrar starfsemi stofnunarinnar. Að auki leggur Lyfjastofnun á árlegt eftirlitsgjald. Samtals nemur þessi innheimta stofnunarinnar um 455,6 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013 og flokkast ýmist sem markaðar tekjur eða aðrar rekstrartekjur. Nú er lagt til að allar tekjur stofnunarinnar fyrir utan sértekjur renni í ríkissjóð.

Um 52. gr.

    Í lögum um geislavarnir kemur fram að skráðir leyfishafar geislavirks efnis eða geislatækis skuli greiða gjald fyrir eftirlit Geislavarna ríkisins. Ráðherra setur gjaldskrá vegna eftirlitsins að fengnum tillögum Geislavarna ríkisins. Lagt er til að tekjur samkvæmt gjaldskránni renni í ríkissjóð og er áætlað að þær nemi um 5,2 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013. Engin breyting verður á reikningshaldi vegna sértekna sem myndast vegna þjónustumælinga stofnunarinnar.

Um 53. og 54 gr.

    Í 49. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er kveðið á um að ráðherra setji gjaldskrá að fengnum tillögum frá forstjóra Vinnueftirlits ríkisins og umsögn stjórnar þess um skráningu og skoðun margs konar vinnuvéla og tækjabúnaðar. Ráðherra setur einnig reglur um próf vegna þeirra sem óska eftir leyfi til að stjórna tilteknum vélum. Samtals er áætluð 192,9 millj. kr. innheimta vegna þessa í fjárlögum fyrir árið 2013. Lagt er til að þessar tekjur renni í ríkissjóð.

Um 55. og 56. gr.

    Í 5. gr. laga um umboðsmann skuldara er kveðið á um fjármögnun stofnunarinnar og í 4. og 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara kemur fram að aðilar sem hafa leyfi til starfsemi sem fellur undir 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki greiði sérstakt gjald sem nemur 0,0343% af útlánum til reksturs stofnunarinnar. Gjaldið er áætlað 1.192 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013. Nú er lagt til að gjaldið renni í ríkissjóð.

Um 57. gr.

    Í 26. gr. laga um heilbrigðisþjónustu eru talin upp skilyrði fyrir starfrækslu heilbrigðisþjónustu og eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu. Þar kemur fram að heimilt er að taka gjald fyrir úttekt landlæknis samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Nú er lagt til að gjaldið renni í ríkissjóð. Ekki er áætlað fyrir því í fjárlögum.

Um 58. gr.

    Í lögum um málefni aldraðra er m.a. fjallað um Framkvæmdasjóð aldraðra og í 10. gr. laganna segir m.a. að sjóðurinn fái tekjur af sérstöku gjaldi sem lagt er á þá sem eru skattskyldir skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Nú er lögð til sú breyting að gjaldið renni í ríkissjóð en innheimtan er áætluð 1.700 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013.

Um 59. og 60. gr.

    Í lögum um Ábyrgðasjóð launa er ekki fjallað um innheimtu hans á kröfum sem gerðar eru á bú vinnuveitanda, en þessi innheimta hefur verið færð undir aðrar rekstrartekjur og verða áfram markaðar til sjóðsins. Þær eru áætlaðar 74,7 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013. Megintekjustofn sjóðsins er hins vegar ábyrgðargjald sem reiknað er af sama gjaldstofni og tryggingagjald og nemur áætluð innheimta þess um 2.787 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013. Lagt er til að báðir tekjustofnarnir greiðist í ríkissjóð.

Um 61.–63. gr.

    Í lögum um hlutafélög er í 147. gr. veitt heimild til ráðherra að setja reglugerð um skráningu hlutafélaga, aðgang að hlutafélagaskrá og gjaldtöku fyrir vottorð o.fl. Í lögum um fyrirtækjaskrá er kveðið á um innheimtu skráningargjalds í skrána auk heimildar fyrir ráðherra til að setja nánari ákvæði í reglugerð um aðgang og gjaldtöku vegna fyrirtækjaskrár. Innheimta vegna þessa er samtals áætluð nema 129 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013 og hefur fram til þessa verið færð hjá embætti ríkisskattstjóra sem hefur umsjón með allri skráningu, bæði vegna hlutafélagaskrár og fyrirtækjaskrár. Lagt er til að innheimtan renni í ríkissjóð.

Um 64. gr.

    Í tollalögum er í 195. gr. kveðið á um gjaldaheimildir vegna þjónustu tollstjóra. Gjöldin eru áætluð 282 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013 og nú er lagt til að þau renni í ríkissjóð.

Um 65. gr.

    Í 18. gr. laga um skipan ferðamála er kveðið á um að Ferðamálastofa leggi mat á tryggingar vegna leyfa til reksturs ferðaskrifstofu og heimild til handa stofnuninni að taka gjöld til að standa straum af eftirliti samkvæmt lögunum. Í fjárlögum fyrir árið 2013 er gjaldið áætlað 0,9 millj. kr. og nú er lagt til að það renni í ríkissjóð.

Um 66. gr.

    Í lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa er kveðið á um heimild ráðherra til innheimtu kennslu- og prófgjalda fasteignasala til að standa straum af kostnaði við prófin. Tekjur af prófgöldum fasteignasala voru áætluð 2,5 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2012 en í samræmi við áætlun fagráðuneytis um ríkistekjur stofnana er ekki áætlað fyrir þessum tekjum í fjárlögum fyrir árið 2013. Nú er lagt til að þessar tekjur renni í ríkissjóð.

Um 67. gr.

    Í lögum um endurskoðendur er í 5. gr. fjallað um próf og prófnefnd þar sem fram kemur að kostnaður vegna prófa greiðist með próftökugjaldi sem ráðherra ákveður að fengnum tillögum endurskoðendaráðs. Þá er í 18. gr. laga sömu laga kveðið á um árlegt gjald sem allir endurskoðendur greiða til að standa straum af kostnaði við störf endurskoðendaráðs. Lagt er til að innheimta beggja gjaldanna renni í ríkissjóð. Í fjárlögum fyrir árið 2013 eru tekjur af eftirlitsgjaldi áætlaðar 15,5 millj. kr. og tekjur af prófgjöldum 5,5 millj. kr.

Um 68. gr.

    Í lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er kveðið á um fjármögnun Fjármálaeftirlitsins. Í 1. gr. er tiltekið að eftirlitsskyldir og aðrir gjaldskyldir aðilar skuli standa straum af kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Í fjárlögum er þessi innheimta áætluð 1.696 millj. kr. fyrir árið 2013. Lagt er til að innheimtan renni í ríkissjóð.

Um 69. gr.

    Í lögum um fjármálafyrirtæki kemur fram í 53. gr. að prófnefnd verðbréfaviðskipta hafi umsjón með prófum í verðbréfaviðskiptum og að til að standa straum af kostnaði við framkvæmd prófa skuli próftakar greiða gjald sem ráðherra ákveður. Lagt er til að innheimtan renni í ríkissjóð. Ekki er áætlað fyrir gjaldinu í fjárlögum.

Um 70.–73. gr.

    Einkaleyfastofan leggur á og innheimtir gjöld samkvæmt þrennum lögum. Í 68. gr. laga um einkaleyfi er kveðið á um að ráðherra skuli setja reglugerð um gjaldskrá. Sams konar ákvæði er í 65. gr. a laga um vörumerki þar sem kveðið er á um reglugerð sem ráðherra setur um gjöld samkvæmt lögunum og þóknun fyrir þjónustu Einkaleyfastofunnar. Loks er í lögum um hönnun kveðið á um áfrýjunargjald sem skal ákveðið sem hámarksgjald vegna kostnaðar eða hluta kostnaðar við áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda. Lagt er til að gjöld samkvæmt ákvæðum þessara þrennra laga renni í ríkissjóð. Í fjárlögum fyrir árið 2013 eru þau samtals áætluð 250 millj. kr.

Um 74.–79. gr.

    Umhverfisstofnun innheimtir gjöld samkvæmt fimm lögum. Í efnalögum er kveðið á um heimildir stofnunarinnar til gjaldtöku samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur. Gjaldskráin tekur m.a. til veittrar þjónustu, eftirlits og verkefna sem stofnuninni er falið að annast eða hún tekur að sér. Í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum er kveðið á um veiðikort og veiðar á hreindýrum. Í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram að ráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnunin framkvæmir samkvæmt lögunum. Þau felast m.a. í yfirumsjón og samræmingu með heilbrigðiseftirliti. Í lögum um losun gróðurhúsalofttegunda er ákvæði um úthlutun losunarheimilda til atvinnurekstrar og gjaldskrá fyrir yfirferð skýrslna um losun koldíoxíðs sem skila ber til stofnunarinnar. Í lögum um loftslagsmál er kveðið á um að ráðherra setji, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir þau gjöld sem rekstraraðilar, flugrekendur, vottunaraðilar og aðrir aðilar skulu greiða. Nú er lagt til að allar þær tekjur sem flokkast sem markaðar tekjur og aðrar rekstrartekjur ríkissjóðs renni í ríkissjóð. Í fjárlögum fyrir árið 2013 eru þær áætlaðar 165 millj. kr. Hins vegar verði bókhald sértekna óbreytt, þ.e. sértekjur verði áfram tekjufærðar í bókhaldi stofnunarinnar.

Um 80. og 81. gr.

    Í skipulagslögum er m.a. kveðið á um álagningu skipulagsgjalds sem rennur í Skipulagssjóð. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um álagningu, innheimtu og ráðstöfun gjaldsins. Einnig er fjallað um kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga, ríkissjóðs og Skipulagssjóðs vegna kostnaðar við skipulagsvinnu. Nú er lagt til að sérstakar tekjur Skipulagssjóðs falli niður og þess í stað komi beint framlag í fjárlögum. Í fjárlögum fyrir árið 2013 er áætlað að innheimt skipulagsgjald nemi 180 millj. kr.

Um 82. gr.

    Í lögum um landmælingar og grunnkortagerð er kveðið á um fjármögnun Landmælinga Íslands. Nú er lagt til að tekjur af sölu sem ekki flokkast undir þjónustugjöld renni í ríkissjóð. Í fjárlögum fyrir árið 2013 er hún áætluð nema 3 millj. kr.

Um 83. gr.

    Í lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga er m.a. kveðið á um gjaldtöku vegna rafmagnsöryggismála sem Mannvirkjastofnun og Neytendastofu eru falin. Þar kemur fram að vegna yfireftirlits skuli rafveitur greiða árlega gjald sem nemur allt að 0,2% af heildartekjum þeirra vegna raforkusölu. Svipað ákvæði er vegna yfireftirlits með neysluveitum. Ráðherra getur í reglugerð sett nánari gjaldskrárákvæði. Í fjárlögum fyrir árið 2013 eru þessi gjöld áætluð samtals 266 millj. kr. sem skiptast þannig að 250 millj. kr. eru færðar hjá Mannvirkjastofnun en 16 millj. kr. hjá Neytendastofu.

Um 84.–86. gr.

    Í lögum um mannvirki er að finna þrjú ákvæði um gjaldtöku. Í fyrsta lagi eru prófgjöld vegna skilyrða fyrir löggildingu hönnuða. Í öðru lagi er byggingaröryggisgjald sem innheimt er með iðgjöldum vátryggingafélaga og nemur 0,045‰ af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga. Í þriðja lagi er í 52. gr. fjallað um gjaldskrá Mannvirkjastofnunar. Gjaldskráin nær m.a. til útgáfu byggingarleyfa, vottorða og ýmiss konar sérfræðiþjónustu, auk ýmissa sértekna. Í fjárlögum fyrir árið 2013 er byggingaröryggisgjaldið áætlað 415 millj. kr. Nú er lagt til að það renni í ríkissjóð. Fyrirkomulag sértekna verði óbreytt, þ.e. þær færast áfram til tekna í bókhaldi Mannvirkjastofnunar.

Um 87. gr.

    Í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum er kveðið á um sérstakan sjóð, Ofanflóðasjóð, og tekjur hans sem nú felast að mestu í gjaldi sem lagt er á allar brunatryggðar húseignir og nemur 0,3‰ af vátryggingarverðmæti. Í fjárlögum fyrir árið 2013 er gjaldtakan áætluð 1.800 millj. kr. Nú er lagt til að gjaldið renni í ríkissjóð en þess í stað verði sjóðnum ákveðið árlegt framlag í fjárlögum hverju sinni.

Um 88. gr.

    Samkvæmt lögum um loftferðir er Samgöngustofu heimilt að innheimta gjald vegna kostnaðar af kvörtunum sem berast frá neytendum. Stofnuninni er heimilt að innheimta gjaldið af viðkomandi þjónustuveitanda sem kvartað er yfir í hlutfalli við fjölda ákvarðana sem af kvörtunum leiðir. Um gjaldið og kostnaðargrunn þess fer að öðru leyti í samræmi við ákvæði laga um Samgöngustofu. Lagt er til að gjaldið renni í ríkissjóð.

Um 89. gr.

    Í lögum um Jarðasjóð er m.a. fjallað um sölu ríkisjarða og afgjöld þeirra. Í fjárlögum fyrir árið 2013 eru þessar tekjur samtals áætlaðar um 147 millj. kr. Lagt er til að tekjurnar renni í ríkissjóð.

Um 90. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.