Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 299. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 629  —  299. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur
um aðgerðir á kvennadeildum sjúkrahúsanna.


     1.      Hvað eru langir biðlistar eftir aðgerðum á
                  a.      kvennadeild Landspítala,
                  b.      kvennadeild Sjúkrahússins á Akureyri,
                  c.      kvennadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi?

    Hafa skal í huga að einstaklingar sem þurfa bráðameðferð fara ekki á biðlista, bráðatilfellum er ávallt sinnt tafarlaust og hafa biðlistar þar engin áhrif.
    Biðtími eftir aðgerðum á sjúkrahúsum er mjög mismunandi eftir aðgerðum. Embætti landlæknis birtir á heimasíðu sinni upplýsingar um biðlista vegna þrenns konar aðgerða sem framkvæmdar eru á kvennadeildum. Nýjustu tölur frá október 2013 eru í eftirfarandi töflu. Biðlisti embættis landlæknis miðast við þá sem beðið hafa lengur en þrjá mánuði. Fyrstu þrjá mánuði eftir að aðgerð er ákveðin telst viðkomandi einstaklingur vera á vinnulista.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Aðgerðum á Sjúkrahúsinu á Akureyri lýkur almennt meðan aðgerð er enn á vinnulista og ná aðgerðir því ekki á biðlista eins og hann er skilgreindur af landlækni.

     2.      Hvað eru framkvæmdar margar aðgerðir árlega á hverri deild?
    Í töflu hér fyrir aftan kemur fram fjöldi aðgerða á kvennadeildum, annars vegar er um að ræða stærri aðgerðir sem almennt eru framkvæmdar í innlögn og hins vegar minni aðgerðir sem almennt eru framkvæmdar á dagdeildum.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hversu mörgum aðgerðum er hægt að bæta við á hverju ári á kvennadeild Sjúkrahússins á Akureyri annars vegar og hins vegar kvennadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands?
    Hvorug þeirra stofnana sem spurningin beinist að svaraði henni með beinum hætti. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri takmarkar tími á skurðstofu og legurými afköst kvennadeildar. Fjölga mætti aðgerðum með óbreyttri læknamönnun ef framangreindir flöskuhálsar væru ekki til staðar. Á Heilbrigðisstofnun Vesturlands er mögulegt við núverandi aðstæður að bæta lítillega við aðgerðum sem hægt er að gera á dag- eða göngudeild. Til að fjölga stærri og þyngri kvensjúkdómaaðgerðum þyrfti að endurskipuleggja starfsemi skurðstofa og styrkja læknamönnun.

     4.      Eru þær konur sem bíða eftir aðgerðum á kvennadeild Landspítala upplýstar um það ef biðtíminn er styttri á Sjúkrahúsinu á Akureyri eða Heilbrigðisstofnun Vesturlands?
    Konum sem leita svara hjá kvennadeild Landspítala um hvort hægt sé að fá aðgerð framkvæmda með styttri biðtíma annars staðar er bent á að ræða við tilvísandi lækni sem metur í hverju tilfelli hvort slíkt er mögulegt. Í svari Heilbrigðisstofnunar Vesturlands kom fram að líklega væri nokkuð tilviljanakennt hvernig þessari upplýsingagjöf væri háttað og því um brotalöm að ræða með hliðsjón af 18. gr. laga um réttindi sjúklinga. 1 Í svari Sjúkrahússins á Akureyri kom fram að ekki lægju fyrir upplýsingar um hvort eða í hversu ríkum mæli konur sem bíða aðgerða á kvennadeild Landspítala væru upplýstar um hvort biðlisti Sjúkrahússins á Akureyri vegna sambærilegar þjónustu væri styttri en á Landspítala.
Neðanmálsgrein: 1
1     Greinin hljóðar svo:
    „Þurfi sjúklingur að bíða eftir meðferð skal læknir, sem hann leitar til, gefa skýringar á biðinni ásamt upplýsingum um áætlaðan biðtíma.
    Skylt er að gera sjúklingi grein fyrir því ef unnt er að fá þá meðferð sem hann þarfnast fyrr annars staðar.“