Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 331. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 825  —  331. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um áætlunarferðir milli lands og Vestmannaeyja.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Styður hið opinbera við áætlunarferðir farþegaskipsins Víkings milli lands og Vestmannaeyja með fjárframlögum eða einhverjum öðrum hætti?

    Eins og kunnugt er hefur verið erfiðleikum bundið að nota Herjólf til siglinga í Landeyjahöfn að vetri til. Skipið var aldrei hugsað til slíkra nota en fyrirhugað var að smíða nýja og grunnristari ferju sem hentaði aðstæðum í höfninni. Efnahagshrunið varð til þess að fresta þurfti þessum áformum. Unnt hefur verið að nota Herjólf mestan hluta ársins eða í átta til níu mánuði. Það hefur skipt sköpum, ekki síst á sumrin þegar flutningaþörfin er mest.
    Í fjárlögum fyrir árið 2014 er 250 millj. kr. fjárveiting til Vestmannaeyjaferju. Í greinargerð með frumvarpi til fjárlaga kemur fram að þessu fé skuli varið til að finna viðunandi lausn í samgöngum milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja, hvort sem sú lausn felst í því að leigja tímabundið ferju eða fara í útboð, hönnun og smíði á nýrri ferju.
    Nýlega heimilaði ráðherra útboð á hönnun á nýrri ferju, þannig að sá ferill að fá nýtt og hentugra skip til siglinganna er hafinn. Það mun hins vegar líða nokkur tími þar til hönnun og smíði lýkur, sennilega um þrjú ár. Á meðan stendur vilji til þess að skoða aðra kosti til að bæta þjónustuna þá mánuði sem Herjólfur getur ekki siglt í Landeyjahöfn, og möguleikar á því að leigja tímabundið ferju hafa því verið skoðaðir eins og boðað var í fjárlögum fyrir árið 2014.
    Í lok janúar sl. undirritaði Vegagerðin samning við Viking Tours í Vestmannaeyjum um siglingar farþegabátsins Víkings milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar í tilraunaskyni og eru siglingarnar studdar með áðurnefndum framlögum af fjárlögum.
    Kostnaður við samninginn er 5 millj. kr. fyrir fastan kostnað auk 100 þús. kr. fyrir hverja ferð sem farin er. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni nam kostnaður í febrúar sl. samtals 8,1 millj. kr.
    Samningurinn var gerður í samkomulagi við Eimskip hf. sem er með samning við Vegagerðina um einkarétt á flutningum milli lands og Eyja. Víkingur flytur einungis fólk en hvorki bíla né vörur. Skipið siglir tvær ferðir á dag til Landeyjahafnar þegar fært er vegna veðurs og sjólags. Um er að ræða tilraunaverkefni að hámarki í tvo mánuði frá 1. febrúar 2014. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna samningsins verði lægri í mars. Vonast er til að eftir það og jafnvel eitthvað fyrr geti Herjólfur aftur farið að þjóna þessari leið. Fram að því mun Herjólfur sigla tvær ferðir á dag til Þorlákshafnar svo fremi að sjólag hamli því ekki.