Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 513. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 874  —  513. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um samstarf við Danmörku, Finnland, Noreg og Svíþjóð
um fjármögnun björgunarviðbúnaðar á norðurslóðum.


Frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að leita eftir viðræðum við stjórnvöld Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um mögulegt samstarf um fjármögnun útgjalda við eftirlit og leitar- og björgunarstörf innan ramma samkomulags aðildarríkja Norðurskautsráðsins um samstarf um leit og björgun á norðurslóðum.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli tilmæla Norðurlandaráðs nr. 4/2012 sem samþykkt voru á vorþingfundi ráðsins 23. mars 2012 á Alþingi, sbr. fylgiskjal.
    Aukið eftirlit og aukinn björgunarviðbúnaður á norðurslóðum er aðkallandi verkefni.
    Í Stoltenberg-skýrslunni frá 2009 kemur fram að aukin skipaumferð um norðurslóðir feli í sér krefjandi viðfangsefni, m.a. vegna þess að leitar- og björgunarkerfi á þessu svæði séu mjög takmörkuð. Í skýrslunni er lagt til, í tillögum 3 og 4, að komið verði á norrænu fyrirkomulagi eftirlits og viðvarana á norrænu hafsvæðunum og að stofnuð verði norræn viðbragðssveit á sjó sem samanstandi af einingum frá strandgæslu og björgunarþjónustu norrænu landanna.
    Í samkomulagi aðildarríkja Norðurskautsráðsins um samstarf um leit og björgun á norðurslóðum í lofti og á sjó frá 2011 er kveðið á um í 7. gr. að við háska geti aðilar samkomulagsins óskað aðstoðar annarra aðila samkomulagsins og í 9. gr. að aðilum samkomulagsins beri að leita samstarfs um atriði samningsins tengd leit og björgun. Þá er í 12. gr. samkomulagsins tiltekið að aðilar þess beri sjálfir kostnað vegna samkomulagsins nema um annað sé samið.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs telur mikilvægt að Norðurlöndin, sem eru fimm af átta aðildarríkjum Norðurskautsráðsins, starfi saman varðandi fjármögnun aukins eftirlits og björgunarviðbúnaðar á norðurslóðum og telur tímabært að þau stígi skref í sameiningu til að svo megi verða. Svæðið sem samningur aðildarríkja Norðurskautsráðsins um leit og björgun á norðurslóðum nær til er mjög víðáttumikið og því er fjármögnun björgunarviðbúnaðarins kostnaðarsöm.

Fylgiskjal.

Tilmæli Norðurlandaráðs:


Fjármögnun björgunarviðbúnaðar á norðurslóðum



Með tilvísun til 45. og 56. greinar í Helsingforssamningnum hefur Norðurlandaráð þann 23. mars 2012 samþykkt eftirfarandi tilmæli samkvæmt tillögu forsætisnefndar.

    Norðurlandaráð beinir tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um

             norrænu fjármálaráðherrarnir (MR-FINANS) skipi starfshóp til að leita hugsanlegra leiða til fjármögnunar útgjalda við eftirlit, leitar- og björgunarstarf vegna samkomulags aðildarríkja Norðurskautsráðsins um samstarf um leit og björgun á norðurslóðum
    
             ein af þeim leiðum sem starfshópurinn kanni sé að samræma gjaldtöku á skemmtiferðaskip á Norðurlöndum og nota hluta þeirra til að mæta útgjöldunum
    
             norrænu fjármálaráðherrarnir geri grein fyrir niðurstöðum starfshópsins á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki 2012

Reykjavík, 23. mars 2012

Kimmo Sasi Jan-Erik Enestam
Forseti Norðurlandaráðs Framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs