Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 404. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 962  —  404. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni
um uppsagnir starfsmanna ráðuneytisins og starfslið ráðherra.


     1.      Hve mörgum starfsmönnum ráðuneytisins hefur verið, eða verður, sagt upp störfum vegna sérstakrar 5% niðurskurðarkröfu sem lögð var á aðalskrifstofur ráðuneyta í fjárlögum? Svarið óskast sundurliðað eftir skrifstofum ráðuneytisins og starfsheitum og að greint sé frá í hve miklum mæli um uppsagnir eða lækkun starfshlutfalls er að ræða.
    Alls fækkar um sjö stöðugildi á aðalskrifstofu ráðuneytisins. Fjórum starfsmönnum var sagt upp í janúar 2014. Um var að ræða störf sérfræðinga á skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar, skrifstofu skattamála og á rekstrarsviði auk starfs á skjalasafni. Auk þess voru starfslok tveggja sérfræðinga til viðbótar undirbúin og ekki ráðið í lausa stöðu sérfræðings á skrifstofu yfirstjórnar, skrifstofu stjórnunar og umbóta og á rekstrarsviði. Þegar aðgerðirnar eru að fullu komnar til framkvæmda verða stöðugildi á aðalskrifstofunni 79 í stað 86.

     2.      Hve marga aðstoðarmenn, ráðgjafa eða starfsmenn í sérverkefni í fullu starfi eða hlutastarfi eða sem verktaka hefur ráðherra ráðið frá stjórnarskiptum?

    Ráðherra hefur einn aðstoðarmann samkvæmt skilgreiningu 22. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011. Að öðru leyti er vísað til svars forsætisráðuneytis um aðstoðarmenn.
    Í ágúst 2013 skipaði ráðherra fjögurra manna ráðgjafaráð um efnahagsmál og opinber fjármál. Enginn ráðsmanna er í tilteknu starfshlutfalli.
    Þá er starfandi einn ráðgjafi um afnám fjármagnshafta og með verkefnisstjórn um framkvæmd höfuðstólslækkana íbúðalána starfar verkefnisstjóri.