Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 211. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 968  —  211. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um eflingu skógræktar sem atvinnuvegar.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Andrés Arnalds frá Landgræðslu ríkisins, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Brynjólf Jónsson og Magnús Gunnarsson frá Skógræktarfélagi Íslands, Aðalstein Sigurgeirsson og Þröst Eysteinsson frá Skógrækt ríkisins og Aðalbjörgu Birnu Guttormsdóttur og Björn Stefánsson frá Umhverfisstofnun. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Byggðastofnun, Félagi skógareigenda á Suðurlandi, Hekluskógum, Héraðs- og Austurlandsskógum, Landgræðslu ríkisins, Landssamtökum skógareigenda og Landshlutafélögum skógarbænda, Landvernd, Náttúrufræðistofnun Íslands, Norðurlandsskógum, Skjólskógum, Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélagi Borgarfjarðar, Skógræktarfélagi Garðabæjar, Skógræktarfélagi Íslands, Skógræktarfélagi Kópavogs, Skógræktarfélagi Suðurnesja, starfsmönnum Rannsóknarstöðvar skógræktar á Mógilsá, Suðurlandsskógum, Umhverfisstofnun, Vesturlandsskógum og frá Þorvaldi Böðvarssyni.
    Í tillögunni felst ályktun Alþingis um að ríkisstjórninni verði falið að efla skógrækt á Íslandi sem arðsaman atvinnuveg með eftirtöldum aðgerðum: Í fyrsta lagi að stórefla hagnýtar rannsóknir og þróunarstarf í skógrækt. Í öðru lagi að færa Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt í eina stjórnsýslueiningu. Í þriðja lagi að semja frumvarp til laga sem gildi um bæði skógrækt og landgræðslu. Í fjórða lagi að móta rammaáætlun um starfsumhverfið með þátttöku bænda, landeigenda og sérstakra skógræktarsjóða.
    Við umfjöllun um málið kom fram ánægja með tillöguna og var bent á að skógrækt væri ný atvinnugrein sem þyrfti að hlúa að enda fylgdu henni mörg tækifæri. Einnig var bent á að huga mætti að því að skoða lög um náttúruvernd í samhengi við lög um skógrækt og lög um landgræðslu, sem og að endurskoða þyrfti lögin um skógrækt frá 1955.
    Líkt og fram kemur í greinargerð tillögunnar er aukin eftirspurn eftir viðarafurðum hér á landi en til að innlend framleiðsla geti mætt þeirri eftirspurn, a.m.k. að einhverju leyti, er brýnt að fara nýjar leiðir í skógrækt. Auk þess er í greinargerðinni bent á mögulegar leiðir til að skapa hvata til aukinnar skógræktar. T.d. er nefndur gróðursetningarstyrkur og skattaívilnun en slíkri ívilnun væri unnt að beita í ákveðnum tilvikum með sambærilegum hætti og þegar um ívilnanir til nýfjárfestinga er að ræða.
    Fram kom fyrir nefndinni mikilvægi þess að skilgreina vel þau landsvæði sem henta til skógræktar og að þörf sé á meiri náttúrufarsgreiningu hér á landi til að samræma ýmiss konar landnotkun.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 1. apríl 2014.



Jón Gunnarsson,


form., frsm.


Ásmundur Friðriksson.


Björt Ólafsdóttir.



Kristján L. Möller.


Páll Jóhann Pálsson.


Þorsteinn Sæmundsson.



Þórunn Egilsdóttir.