Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 547. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1001  —  547. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um fækkun stórgripasláturhúsa.


     1.      Telur ráðherra að fækkun stórgripasláturhúsa mundi stuðla að aukinni sérhæfingu og frekari fullvinnslu afurða líkt og gerst hefur innan sauðfjárgeirans? Ef svo er, hefur ráðherra skoðun á því hver væri æskilegur fjöldi sláturhúsa út frá hagkvæmnissjónarmiðum í greininni?
    Fækkun stórgripasláturhúsa mundi án efa stuðla að aukinni hagkvæmni og um leið nauðsynlegri sérhæfingu sem þarf að eiga sér stað innan stórgripasláturhúsa hér á landi. Það er rétt hjá fyrirspyrjanda að sú úrelding sauðfjársláturhúsa sem ráðist var í á árunum 2003 og 2004 gaf góða raun. Hún er að mörgu leyti forsenda þeirrar hagræðingar sem náðst hefur í sauðfjársláturhúsum, bæði framleiðendum og neytendum til hagsbóta. Í þessu sambandi má vitna í og raunar taka undir orð formanns Landssamtaka sláturleyfishafa fyrr á þessu vori en þar benti hann á að stórgripasláturhús væru allt of mörg í landinu, eða níu talsins. Að hans mati væri nægjanlegt að þau væru tvö til þrjú en auk þess gætu minni sláturhús verið starfandi.

     2.      Mundi slík þróun ýta undir betri nýtingu og verðmætasköpun úr ýmsum hliðarafurðum sem falla til við slátrun stórgripa? Sé svo, má þá ætla að fækkun sláturhúsa samfara aukinni tæknivæðingu hækki skilaverð til bænda?
    Slík þróun mundi eflaust ýta undir betri nýtingu og verðmætasköpun úr ýmsum hliðarafurðum sem falla til við slátrun stórgripa og hugsanlega skapa skilyrði til útflutnings afurða sem ekki eru nýttar eða fyrir hendi í dag. Þetta er að minnsta kosti sú reynsla sem fengist hefur við fækkun og stækkun sauðfjársláturhúsa. Yrði þetta raunin má ætla að fækkun sláturhúsa samfara aukinni tæknivæðingu hækki skilaverð til bænda og eins mundi það auka samkeppnishæfni greinarinnar gagnvart innflutningi. Fleira þarf þó að koma til, en bent hefur verið á að innflutningur erfðaefnis sé forsenda þess að hægt sé að halda uppi sjálfbæru ræktunarstarfi í holdanautastofninum þannig að möguleiki sé á að auka magn, gæði og hagkvæmni íslenskrar nautakjötsframleiðslu.

     3.      Sé æskilegt talið að fækka sláturhúsum, hvaða tæki hefur ríkisvaldið til að stuðla að slíkri þróun?

    Það má hugsa sér að fara sömu leið og farin var í sauðfjársláturhúsunum fyrir áratug, þ.e. að beita úreldingu. En minnt skal á að staða ríkissjóðs er þröng um þessar mundir og ef til vill vafasamt að það sé hlutverk skattgreiðenda að standa undir slíkri úreldingu. Æskilegast væri að fyrirtæki í sláturiðnaði tækju sig sjálf saman í þeim tilgangi að standa fyrir nauðsynlegri þróun í þessum efnum.