Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 546. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1002  —  546. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um verðþróun á lambakjöti og verð til bænda.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve stóran hluta af útsöluverði lambakjöts hafa bændur fengið í sinn hlut árlega sl. tíu ár?
     2.      Hvernig hefur viðmiðunarverð á lambakjöti, sem Landssamtök sauðfjárbænda hafa gefið út, þróast á sama tíma?
     3.      Hvernig hefur meðalverð afurðastöðva til bænda breyst á þeim tíma?
     4.      Hvernig hefur meðalverð til kaupenda þróast á þessum tíu árum?
    Óskað er eftir að verð sé gefið upp í krónum og hlutfallsleg hækkun milli ára þar sem við á.


    1. Verð á lambakjöti er frjálst á öllum sölustigum og ræðst af samningum milli afurðastöðva og viðskiptavina þeirra hverju sinni. Afurðastöðvar birta verð til bænda opinberlega. Það er gefið út í krónum á kíló í heilum skrokkum, skipt eftir þeim 30 kjötmatsflokkum sem lambakjöt er flokkað í. Á heildsölustigi er síðan kjötið selt áfram mismikið sundurhlutað eða unnið. Þar er líka um að ræða heila skrokka, en ekki síður einstaka skrokkhluta, með eða án beina, verkað kjöt, eins og hangikjöt eða saltkjöt, eða vörur sem innihalda lamba- eða kindakjöt að meira eða minna leyti, eins og kjötfars, pylsur, álegg og fleira. Verðmæti hvers einstaks lambsskrokks á heild- og smásölustigi ræðst því af því hvaða vörur eru unnar úr honum. Því til viðbótar er verð allra afurðanna frjálst eins og að framan greinir og getur því verið afar mismunandi eftir verslunum, auk þess sem það tekur sífelldum breytingum. Það er því ógerlegt að meta með einhverri vissu hver hlutur bænda er í útsöluverði lambakjöts. Verð á heildsölustigi er hvergi birt enda er það ekki skylt. Upplýsingum um verð á smásölustigi er ekki safnað skipulega fyrir utan verðkannanir sem gerðar eru á markaði og mælingar Hagstofu Íslands. Á vef Hagstofunnar má sjá nokkur dæmi um smásöluverð á vörum úr lambakjöti en þau eru þó ekki nægilega ítarleg til að svara 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

    2. Leitað var til Landssamtaka sauðfjárbænda varðandi svar við 2. tölul. fyrirspunarinnar. Samtökin létu í té vegið meðalverð fyrir árin 2005–2013. Upplýsingar um vegið meðalverð 2004 eru ekki aðgengilegar í sama formi. Tölur eru á verðlagi hvers árs. Útgáfa Landssamtaka sauðfjárbænda á viðmiðunarverði byggist á heimild í lögum nr. 99/1993. Sú heimild var ekki nýtt árið 2013 og var því ekki gefið út neitt verð það ár.

2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013
Kr./kg 282 kr. 322 kr. 341 kr. 428 kr. 475 kr. 466 kr. 581 kr. 552 kr. *
Breyting 14,4% 5,8% 25,5% 11,2% -1,9% 24,7% -5,1%

    3. Leitað var til Landssamtaka sauðfjárbænda varðandi svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar. Samtökin létu í té vegið meðalverð fyrir árin 2005–2013. Upplýsingar um vegið meðalverð 2004 eru ekki aðgengilegar í sama formi. Tölur eru á verðlagi hvers árs.

2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 Alls
Kr./kg 283 kr. 329 kr. 343 kr. 401 kr. 439 kr. 421 kr. 502 kr. 543 kr. 590 kr.
Breyting 16,3% 4,2% 16,8% 9,6% -4,1% 19,3% 8,0% 8,7% 108,3%

    4. Ekki er ljóst hvað átt er við með kaupendum í 4. tölul. fyrirspurnarinnar. Ef átt er við heildsöluverð vísast til svars við 1. tölul. Ef átt er við smásöluverð þá gefur Hagstofan út undirvísitölu fyrir lambakjöt sem mælir smásöluverðsþróun þess að mati stofnunarinnar. Hér að neðan er ársmeðaltal þeirrar vísitölu fyrir árin 2005–2013.

2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 Alls
Ársmeðaltal 141,0 158,7 161,3 175,0 185,8 176,1 195,4 215,8 222,6
Breyting 12,5% 1,6% 8,5% 6,2% -5,2% 11,0% 10,4% 3,2% 57,8%